Kona nokkur, sem safnaði undirskriftum í Kolaportinu í Reykjavík undir yfirlýsingu og ósk til forseta Íslands um þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn, fékk á fjórða hundrað nöfn frá klukkan 11 til 4.  Það er meira en ein undirskrift á mínútu.  Henni þótti ódrjúgt að ávarpa mann, sem gekk stakur; ávarpið skilaði meiru, ef tveir eða fleiri gengu saman.  Líkar þessu voru undirtektir við önnur tækifæri, þar sem almenningur var á ferð.  Viðbrögðin virtust óháð aldri, en konur þóttu áhugasamari en karlar.  Þegar gengið var að kvöldlagi í hús í nýlegu borgarhverfi, voru undirtektir prýðilegar; það var alveg undantekning, ef svarað var „ég hef ekki áhuga“.

Þeir sem unnu að undirskriftasöfnuninni kynntust biturleika fólks til Alþingis og forseta Íslands vegna þess, að þjóðaratkvæðagreiðsla hafði ekki verið leyfð.  Það nefna þær þrjár konur, Halldóra Einarsdóttir, Sigríður Guðbjartsdóttir og Sigríður Theódóra Sæmundsdóttir, sem kynntu söfnunina og sendu um málið ákall og áskorun til alþingismanna.  Ofríki stjórnvalda í EES-málinu hefur sært tilfinningu fjölda íslendinga; fólk hafði aðrar hugmyndir um rétt sinn í lýðræðisríki.

Tvennt sýnist nú vera til ráða, til að vilji almennings komi fram, þótt stjórnvöld hafi ekki viljað bera EES-samninginn undir þjóðaratkvæði.  Félagasamtök, sem þorri landsmanna stendur að, hafa krafist þjóðaratkvæðagreiðslu ásamt alþingismönnum úr fjórum stjórnmálaflokkum.  Það ætti ekki að vera mikið mál fyrir slík samtök ásamt stjórnmálafélögum í einstökum kjördæmum að halda þjóðaratkvæðagreiðslu framhjá stjórnvöldum.  Þannig sannaðist afl samtakanna til að gæta réttar almennings.  Það mundi meira en annað knýja á um, að almenningur fengi að ráða málinu beint.  Til þess er kjörið tækifæri, þegar kjörskrá er fyrir hendi vegna opinberra kosninga, hvert sem tilefni þeirra er.  Slík þjóðaratkvæðagreiðsla framhjá stjórnvöldum gæti staðið frá föstudegi til sunnudags, ef opinberu kosningarnar eru á laugardegi.

Nú þegar þarf að vinna að því, að næsta ríkisstjórn, hver sem hún verður, hafi það sem fyrsta verkefni sitt að leggja EES-samninginn fyrir þjóðina í bindandi atkvæðagreiðslu.  Þegar farið verður að raða á framboðslista, þarf að leita svars hjá hverjum þeim, sem gefur kost á sér, hvort hann ætli skilyrðislaust að greiða vantraustsatkvæði þeirri ríkisstjórn, sem ekki hefur slíka þjóðaratkvæðagreiðslu sem fyrsta verkefni sitt.

Sumir kunna að lenda í sjálfheldu, ef flokkur þeirra býður ekki fram þá, sem þeir treysta til að beita sér skilyrðislaust fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn.  Vegna þeirra þarf sérstakt framboð um land allt með tvennt á stefnuskrá og einungis það:  Að verja aðeins þá ríkisstjórn falli, sem vindur sér strax að því að halda bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn og að setja í stjórnarskrána ákvæði, sem veitir minnihluta Alþingis ásamt ákveðnum fjölda kjósenda rétt til þjóðaratkvæðagreiðslu um lög, sem Alþingi samþykkir.  Að öðru leyti hefðu þeir, sem hlytu kosningu af listanum, óbundnar hendur til að vinna á þingi að málum og með flokkum, enda lyki ætlunarverki þeirra með stjórnarskrárbreytingunni.  Eðlilegt heiti listans væri „þjóðaratkvæði um EES“; það væri um leið öll stefnuskrá hans.

Degi 13. og Tímanum 14. maí 1993