EES-málið bar brátt að. Það var fyrst kynnt sem eins konar afurðasölumál. Þótt smám saman rynni upp fyrir fólki, að þar væri ýmislegt annað á seyði, sem mörgum leist illa á, tókst ekki að breyta gangi málsins. Þannig var almenningsálitið sniðgengið við ákvörðun um víðtækustu breytingu á hlutverki Alþingis í manna minnum.
Í stjórnarskrá Íslands vantar ákvæði með tilliti til þess, að nú eru tímar ríkjasamtaka. Aðild að þeim felur í sér framsal á stjórnvaldi, sem ætlað var ríkinu einu á fyrri hluta aldarinnar, þegar stjórnarskráin var sett. Danir hafa tekið tillit til þessa með ákvæði í stjórnarskránni, svo að slíkt framsal getur ekki gerst nema það hljóti 5/6 atkvæða á þingi. Ef ríkisstjórn tekst ekki að fá svo mikinn stuðning þar, getur hún lagt það fyrir þjóðina til samþykktar. — Í norsku stjórnarskránni er kveðið á um, að slíkt framsal verði að fá 3/4 atkvæða. Þar er ekki heimild til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.
Komið hefur fram, að áhrifamiklir menn úr röðum þeirra, sem réðu niðurstöðu EES-málsins í vor, telja vel athugandi, að Ísland gangi lengra á þeirri braut og gerist aðili að Efrópska samfélaginu (ES), jafnvel þegar um aldamótin. Ekki er því seinna vænna að koma almennri skipan á meðferð slíkra mála með ákvæði í stjórnarskránni.
Í fyrsta lagi væri ráð, að þar yrði krafist 5/6 atkvæða á þingi til að setja lög, sem fela í sér framsal á valdi til ríkjasamtaka, sem Ísland er aðili að. Reynslan af EES-málinu er samt sú, að engu er að treysta, hvað ráðamenn telja framsal á valdi, því að þeir tóku gilt það álit, að í EES-samningnum fælist ekki framsal á stjórnarskrárbundnu valdi þrátt fyrir rækilega gagnrýni og þótt bent væri á, að í öðrum EFTA-ríkjum væri slík skoðun óheyrð.
Til að gera við slíku mundi muna um sams konar ákvæði og sett var í dönsku stjórnarskrána árið 1953. Það var gert vegna afnáms deildaskiptingar þingsins, en kosið hafði verið til tveggja deilda á misjafnan hátt. Þá voru sett nokkur ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu til að varast, að ríkisstjórn geti sett lög, sem almenningur styður ekki. Það ákvæði, sem á við í þessu efni, er, að þriðjungur þingmanna getur vísað nýsamþykktum lögum til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún á að fara fram fljótlega, svo að umræður um málið á þingi nýtast vel fyrir hana.
Með slíku ákvæði eru það eðlileg viðbrögð ríkisstjórnar með tæpan meirihluta á þingi að hugsa ráð sitt vel og berja ekki í gegn lög, sem ekki njóta stuðnings almennings. Það er álit dansks stjórnarskrárfræðings, að þá hljóti hún í anda lýðræðis að gæta hófs við gerð laga. Raunin hefur orðið sú á 40 árum, að aðeins einu sinni hefur minnihlutinn beitt þessu ákvæði. Það var árið 1963 um fjögur lagafrumvörp um jarðamál. (Þau voru öll felld).
Stofnuð hafa verið samtök — samtök um stjórnarskrárbót og þjóðaratkvæði — til að vinna að því, að sett verði á oddinn í stjórnmálum að bæta stjórnarskrána með slíkum ákvæðum. Samtökin telja rétt að hafa ákvæðið um aukinn meirihluta strangt, 5/6 eins og í Danmörku, en án þeirrar heimildar, sem þar er, að einfaldur meirihluti í þjóðaratkvæðagreiðslu nægi, ef ekki fást 5/6 á þingi.
Þessi ákvæði mundu kenna mönnum að leita aðeins slíks ráðahags með öðrum ríkjum, sem almenningur gæti sannfærst um eftir vandlega skoðun, að væri álitlegur.
Morgunblaðinu 26. október 1993 (Bréf til blaðsins)