Afmælisgjöfin, grein Össurar Guðbjartssonar í blaðinu á Þorláksmessu, er rökstudd tillaga um breytingar á stjórnarskránni.  Tilefnið er meðal annars, að Alþingi samþykkti lög um EES-samninginn, þótt í honum fælist afsal á sjálfsákvörðunarrétti.

Tvö atriði í tillögu Össurar lúta að því, í fyrsta lagi, að gert verði skilyrði fyrir milliríkjasamningi, sem varðar sjálfsákvörðunarréttinn, að 4/5 þingmanna samþykki hann, og í öðru lagi, að forseti Íslands megi því aðeins undirrita lög þess efnis, að þau hafi áður verið samþykkt af meirihluta kosningabærra manna í landinu og kosningaþátttaka minnst 70%.

Samtökin um stjórnarskrárbót og þjóðaratkvæði hafa sett fram stefnu í þessum efnum.  Þar er atriði, sem Össur víkur ekki að, en ég tel mikilvægara en annað til að tryggja það, sem fyrir Össuri virðist vaka.  Samtökin vilja, að í stjórnarskrána verði sett það ákvæði, að þriðji hluti þingmanna geti vísað nýsamþykktum lögum til þjóðaratkvæðis.  Þetta er svo mikilvægt vegna þess, að Alþingi hirti ekki um stjórnarskrárákvæði við afgreiðslu EES-samningsins og afsalaði sjálfsákvörðunarrétti.

Slíkt ákvæði hefur verið í dönsku stjórnarskránni síðan árið 1953.  Fyrirfram komu fram áhyggjur af því, að því yrði beitt í ótíma.  Sú hefur ekki orðið raunin.  Með slíku ákvæði eru það eðlileg viðbrögð ríkisstjórnar með tæpan meirihluta á þingi að hugsa ráð sitt vel og berja ekki í gegn lög, sem ekki njóta stuðnings almennings.  Raunin hefur orðið sú á 40 árum, að aðeins einu sinni hefur minnihlutinn beitt þessu ákvæði.  Það var árið 1963 um fjögur lagafrumvörp um jarðamál.  (Þau voru öll felld).

Stundum hefur ráðandi mönnum verið þóknanlegt að leggja mál fyrir almenning, en stundum hefur þeim þótt allt öfugt við það.  Tillögur um grundvallarbreytingar á stöðu landsins hafa nokkrum sinnum verið lagðar fyrir almenning.  Þær voru felldar 1908 — það var svokallað uppkast.  Þær voru samþykktar 1918 — um stofnun fullvalda ríkis — og 1944 — um stofnun lýðveldis.  Í þessi skipti þótti ráðamönnum rétt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu.  Öðru máli gegndi í fyrravetur.  Þá höfnuðu ráðamenn því að bera EES-málið undir þjóðina þrátt fyrir ótvíræðan vilja almennings.

Hér hafa iðulega komið upp mál, þar sem minnihluti á þingi eða í borgarstjórn hefur gert tillögu um almenna atkvæðagreiðslu, en meirihlutinn hafnað henni.  Menn hafa stundum rengt einlægni minnihlutans og haldið því fram, að hann hefði ekki viljað slíka atkvæðagreiðslu, ef hann hefði verið í meirihluta.  Stundum hefur verið vísað til dæma um, að minnihlutamenn hafi við önnur tækifæri verið á móti almennri atkvæðagreiðslu um mál.  Með þessu ákvæði er minnihlutinn gerður ábyrgur, þar sem afstaða hans getur ráðið.

Almenn regla í stjórnarskránni um rétt þriðjungs þingmanna til að vísa nýsamþykktum lögum til þjóðaratkvæðis mundi bæta lýðræðisandann í landinu.  Af sömu ástæðum væri til bóta að setja það ákvæði í samþykktir borgarstjórnar og annarra sveitarstjórna, að þriðjungur sveitarstjórnar geti vísað máli til atkvæðagreiðslu meðal almennings.

Tímanum 29. desember 1993