Í RÉTTARRÍKI getur hver þegn fengið úr því skorið fyrir dómi hvort brotið hafi verið á lögvörðum rétti hans. Kosningaréttur þykir mikilsverður. Kveðið er á um hann í stjórnarskránni og lögum um kosningar til Alþingis og þá meðal annars hvenær hans verður notið. Það verður þegar Alþingi missir umboð sitt. Forsætisráðherra getur fellt niður umboð Alþingis, en reglulega missir það umboð eftir fjögur ár frá kosningum. Ennfremur missir Alþingi umboð sitt þegar það hefur samþykkt tillögu um breytingu á stjórnarskránni. Slík samþykkt kostar Alþingi því umboðið svo að kosningar verða að fara fram.

Til að gæta kosningaréttar síns þarf maður því ekki aðeins að gá að því, að hann sé á kjörskrá heldur einnig þess, að kosningar séu haldnar eins og fyrir er mælt. Í mannréttindasáttmála Evrópu, sem Ísland er aðili að, eru almenn fyrirmæli um að kosningar séu haldnar með hæfilegu millibili. Ef Alþingi heldur umboði ranglega hefur það kosningarétt af almenningi.

Stjórnarskrárbreytingu verður að réttu einungis komið þannig á, að Alþingi samþykki tillögu um breytingu, en þá missir það sem sagt umboð sitt og óbreyttur kjósandi kemur til skjalanna við kosningu nýs þings, sem meðal annars hefur það verkefni að staðfesta fyrri samþykkt um breytingu á stjórnarskránni, svo að hún verði gild. Ef Alþingi raskar ákvæði stjórnarskrárinnar á annan hátt er það meðal annars að sniðganga réttindi óbreytts kjósanda í þessu ferli.

Sérstök lög eru um það hvernig menn gæta réttinda sinna fyrir dómi, lög um meðferð einkamála. Þau eru skýr og skilmerkileg. Þau eiga við hvers konar lögvarin réttindi og þá vitaskuld kosningarétt, sem ekki er aðeins spurning um að vera á kjörskrá heldur ekki síður að kosningar séu haldnar, eins og fyrir er mælt, svo að maður fái notið þessa réttar.

Menn hafa ekki áttað sig á því, að hér væri réttarríki einnig að þessu leyti. Menn hafa talið, að Alþingi gæti sett lög, sem raska ákvæðum stjórnarskrárinnar, án þess að óbreyttur kjósandi gæti krafist ógildingar laganna með framangreindum rökum. Menn hafa því talið að Ísland væri ekki réttarríki að því er varðar grundvallarréttindi þegns í lýðræðisríki. Svo er sem sagt ekki og má það vera nógu ljóst.

 

Hvað segja Danir?

Þeir sem lenda í því að koma auga á það, sem er einfalt mál og kunnáttumenn hefðu átt að skilja og skýra fyrir löngu, kynnast viðbrögðum, sem semja mætti bækur um. Hér skal aðeins drepið á nokkur atriði sem komu fram meðan ég var að átta mig á þessu máli og eftir að mér var orðið það ljóst.

Fyrst kemur upp undrun þess, sem áttaði sig á því, sem reyndist vera einfalt mál og sýnist ekki þurfa miklar gáfur til. Hvers vegna rötuðu kunnáttumennirnir ekki á þetta? Maður les í ritum þeirra, hvernig þeir hitta ekki kjarna málsins, en prýða mál sitt lærdómsorðum. Síðan minnist maður á málið við þá, sem numið hafa af kunnáttumönnunum og búið sig undir að endursegja á prófi orðfagran skilningsskort þeirra. Þá geta fyrstu viðbrögðin verið þegar bent er á rök málsins: Þetta hefur engum dottið í hug - en kunna svo engin andsvör þegar á reynir, tala um annað eða þegja. Af því að um er að ræða lögfræðinga, þar sem eru meðal annarra héraðsdómarar og hæstaréttadómarar, hefur orðið til í huga mínum nýr flokkur lögfræðinga, hleypidómarar. Þá eru það þeir sem hafa hagsmuna að gæta og eiga mál að verja.

Loks eru það venjuleg viðbrögð þess kunnáttumanns sem ekki kann að leita kjarna málsins, en leitar fyrirmynda hjá öðrum. Í þessu efni, þegar um lögfræðilegt álitamál er að ræða, er spurt, hvað segja Danir og hvað segja Norðmenn. Ef þangað á að vera nokkuð að sækja þarf fyrst að vera fyrir hendi álit um sama mál við sömu forsendur, þ.e.a.s. sömu lög og stjórnarskrá. Einnig þarf að vera dæmi um að Dani eða Norðmaður hafi sýnt þá hugkvæmni, sem skýrir stöðu óbreytts kjósanda í því ferli, sem röskun á ákvæði stjórnarskrár gerist í. Þau viðbrögð að byggja á áliti Dana eru viðbrögð hins þegnlynda og drottinholla sem gerir ráð fyrir að hugkvæmni hafi náð æðsta stigi í Danmörku og ekki verði lengra komist, en ræður ekki við málið með eigin rökum.

Morgunblaðinu, 1. júní 1994