EITT meginmarkmið utanríkisstefnu Íslendinga hefur verið að auka efnahagslegt gildi landamæranna með því að helga sér fiskislóðir, sem um aldir höfðu verið nýttar af evrópskum ríkjum sem sameign væri. Meginmarkmið Evrópska sambandsins (ES) er hins vegar að afnema efnahagslegt gildi landamæra ríkjanna, svo að allir þegnar þess hafi heimild til að afla verðmæta hvar sem er. Þessi markmið eru ósamþýðanleg sem eldur og vatn.

Markmið Íslendinga í Evrópumálum voru skilgreind með Óslóaryfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 15. mars 1989 vegna ráðagerða um evrópskt efnahagssvæði (EES). Þótt stjórnarandstaðan kysi frekar tvíhliða samninga, var það ekki af andstöðu við markmið Óslóaryfirlýsingarinnar, sem voru að treysta viðskiptahagsmuni og forræði um nýtingu gæða landsins. Illa tókst að ná markmiðunum. Utanríkismál eru þolinmæðisverk. EES er í upplausn og viðbúið, að upplausnin haldi áfram, ef norskum stjórnvöldum tekst betur á komandi árum en í haust ætlunarverk sitt. Því er lag fyrir nýja utanríkisforystu til að fylgja eftir markmiðum Óslóaryfirlýsingarinnar.

Framboð til Alþingis með markmið Óslóaryfirlýsingarinnar að stefnu mundi setja Evrópumálin á oddinn. Framboð í Reykjavík (gjarnan merkt M: Markmið í Evrópumálum) mætti vera í bandalagi við framboð hvar sem er á landinu. Stefnumál í einstökum kjördæmum þyrftu ekki að vera hin sömu að öðru leyti. Í Reykjavík gæti verið ástæða til að hafa tvo framboðslista, MM-lista með markmið Óslóaryfirlýsingarinnar að stefnu og annað ekki og M-lista með almennan þjóðmálagrundvöll. Von er til, að þannig mundu sjónarmið þeirra, sem treystu Óslóaryfirlýsingunni, verða ofan á.

Upphafleg markmið í Evrópumálum, sem samstaða var um, byggðust á tvennu, annars vegar því, að Íslendingar vilja eiga víðtæk samskipti við nálæg ríki og þjóðir, en hins vegar því, að þeir búa við auðlind, sem aðrar þjóðir mundu sjá sér hag í að nýta, ef þær mættu, og gætu það hæglega, án þess að Íslendingar kæmu þar nærri. Nýting fiskislóðanna við landið er svo snar þáttur í efnahagsstarfsemi landsmanna, að viðleitni til að tryggja það, að arðurinn af þeim falli landsmönnum í skaut, hlýtur að leiða af sér önnur markmið, eins og reyndin varð í mars 1989.

Við undirrituð hvetjum þá, sem sýnast ofangreind ráð álitleg, til að taka höndum saman, og erum fús til að hafa milligöngu í Reykjavík.

 

BJÖRN S. STEFÁNSSON,

HALLDÓRA EINARSDÓTTIR.

 

Morgunblaðinu, 26. febrúar 1995 (Bréf til blaðsins)