Skipulag Evrópusambandsins miðar að því, að einstök ríki leyfi sér ekki að gera gott, eins og þótt hefur á Norðurlöndum. Nýleg dæmi slíks er, að þrengt er að rétti samtaka launþega til kjarasamninga. Þetta gerist með dómum, án þess að settar hafi verið nýjar reglur, heldur hafa ráðamenn (hér dómarar) talið ástæðu til að beita þessari hugsun æ víðar. Eins er því farið með ábyrgð á innistæðum sparifjáreigenda. Þar var kveðið á um, hvernig þessari hugsun skyldi beitt, að eyða ábyrgð ríkisins á innistæðum með reglum um tryggingasjóð. Þar átti ríkið ekki að leggja neitt til.

Í fyrrahaust héldu menn, að ríkið mætti gera það. Þannig hófst Icesave-deilan með kröfu um ríkisábyrgð. Til að leysa ágreining um kröfuna átti fyrst að leggja málið í gerð, en Evrópusambandið fékk ríkin ofan af því. Þá hófust samningar, og Ísland mótaði samningsumboð, fyrst um haustið og svo undir nýrri ríkisstjórn í vetur. Þetta er allt fánýtt, því að það gengur gegn meginhugmynd Evrópusambandsins, sem er að koma í veg fyrir, að einstök ríki þess geri gott, því að það á markaðurinn að gera. Það var mótað, hvernig hugmyndin um þetta svið mannlegra samskipta, sparifjármál, kæmist í framkvæmd, nefnilega með ákvæðum um tryggingasjóð innistæðueigenda. Þannig hafa ríki ekki heimild til að útkljá ágreining um ábyrgðina í gerðardómi (sem verður ekki áfrýjað) né með samningum, það er ekki um neitt að semja. Ríkisstjórnir Bretlands og Hollands ásamt þremur íslenskum ríkisstjórnum hafa sýnt óvitaskap í þessu, og á bak við hefur Brüssel verið og fylgifiskar á Norðurlöndum.

Nú verður að snúa sér að þarfari viðfangsefnum, en senda fyrst ríkisstjórnum Bretlands og Hollands bréf um það, hvernig eiginlega allir hlupu á sig og í hverju það fólst. Síðan mætti halda alþjóðlegt málþing um það, hvernig það verður, að óvitaskapur í stjórnsýslu leiðir til vandræða fyrir landvinningaríki eins og Evrópusambandið. Vel færi á því, að Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands héldi þingið. Með slíku málþingi mundi hún skrá sig í sögu stjórnsýslufræða í heiminum.

Morgunblaðinu, 29. október 2009 24