Það þótti mjög koma til álita sumarið og haustið 1961, að Ísland gengi í Efnahagsbandalag Evrópu. Það var í sambandi við, að ríki Fríverslunarbandalagsins stefndu þangað. Ísland var þar reyndar ekki. Ríkisstjórnin kannaði málið, og voru fyrir verkinu Gylfi Þ. Gíslason, viðskiptaráðherra, og Jónas Haralz í stöðu ráðuneytisstjóra. Jónasi til hægri handar var Einar Benediktsson, hagfræðingur, sem hafði lært hin nýju fræði, Evrópufræði, fyrstur íslendinga.

Ýmsum leist ekki á, en það fór ekki hátt. Forseti Alþýðusambandsins kvað þó upp úr með fulla andstöðu. Búnaðarþing taldi rétt að athuga, hvort tryggja mætti viðskiptahagsmuni Íslands með samningi, sem einskorðaðist við vöruverslun (fríverslun). Þá kom líka fram sú hugmynd, að Ísland leitaði eftir aukaaðild.

Snemma á árinu 1962 var mér boðið að vera í hópi manna, sem undirbjuggu andóf gegn aðild Íslands að Efnahagsbandalaginu. Varð að ráði að bjóða norskum hagfræðingi, Ragnari Frisch, prófessor í hagfræði í Osló, að koma til landsins að flytja fyrirlestur um málið, en hann hafði snúist öndverður gegn stefnu flokks síns, Verkamannaflokksins, og ríkisstjórnar í þessu efni. Ég tók að mér að þýða fyrirlesturinn. Meðan ég vann að þýðingunni, fannst mér merkilegt, hvað maðurinn vandaði fyrirlesturinn, því að hann sendi mér hvað eftir annað hinar smávægilegustu breytingar á honum. Fyrirlesturinn á íslensku var prentaður og honum dreift fyrir utan hátíðarsal Háskólans, þegar Frisch flutti fyrirlesturinn þar.

Í stjórnarráðinu stóðu þeir Jónas og Einar fyrir því, að málið var tekið fyrir á ýmsum stöðum. Landbúnaðarmálin voru í sérstakri nefnd, skipuð fulltrúum bænda og þeirra, sem fóru með sölu landbúnaðarafurða, og fylgdi Einar henni. Ég, sem þá var ritstjóri Búnaðarblaðsins og nýkominn frá háskólanámi í búfræði í Noregi, var ráðinn til starfa fyrir nefndina. Það gerðist alllöngu, áður en Frisch flutti fyrirlestur sinn. Jónas hitti mig þar og fann að því, að ég skyldi tjá mig um málið. Ég kvaðst ekki eiga orð í hugsunum Frisch.

Þeir, sem komu fram vegna boðs Frisch, gerðu vel við hann í mat og drykk. Vegna þýðingarinnar var mér boðið í kaffisamsæti, og notaði ég tækifæri til að eiga orð við hann og tók það fram, að mér hefði fundist hyggilegt af honum að halda sig við Noreg og minnast ekki á Ísland. Spurði svo, hvað hann teldi ráðlegast fyrir íslendinga. Það er áætlunarbúskapur, sagði hann. Ég þagði við, en hugsaði, að ég ætti þá ekki annað eftir.

Á fyrsta fundi landbúnaðarnefndarinnar, í ágúst 1962, var ákveðið að fara að eins og búnaðarþing hafði ályktað að meta stöðu íslensks landbúnaðar, ef viðskipti með landbúnaðarafurðir yrðu ótolluð, án þess að landið væri í Efnahagsbandalaginu. Einar hélt hinu mjög fram á fundinum, að sjónarhornið skyldi vera full aðild. Eftir fundinn kvaddi Jónas mig á sinn fund á laugardagsmorgni, sem var þá ekki lengur virkur stjórnarráðstími að sumri til. Á fundinum var einnig Sveinn Tryggvason, framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Hann var reyndar ekki formaður nefndarinnar. Jónas flutti alllangt mál og hélt því mjög fram, að ráðlegast væri að miða verkið við fulla aðild, og var Sveinn hrifinn. Ég kvað mál hans hafa verið svo fróðlegt, að nefndin ætti að fá að heyra. Það kærði Jónas sig greinilega ekki um. Ég kvaðst vera bundinn af samþykkt nefndarinnar um vinnubrögð, og skildum við þannig. Nefndin kom ekki saman í þessu tilefni.

Vinna mín var að bera verðlag afurða hér saman við verðlag í nágrannalöndum. Sumt var einfalt, en annað flóknara. Þannig lærði ég talsvert um garðyrkju, þar sem athugað var gaumgæfilega, hvort tækifæri myndu skapast fyrir útflutning.

Þá leitaði ég til yfirdýralæknis, hvernig innflutningur búfjárafurða horfði við sjúkdómavörnum. Hann var nýr í starfi og sagði eins og við sjálfan sig: Ég held þeir séu ekki með öllum mjalla—átti væntanlega við þá, sem stóðu fyrir þessu, Gylfa og Jónas, jafnaldra sína og skólafélaga í Reykjavík. Hann hummaði þetta svo fram af sér.

Þegar fyrir lágu gögn til að meta samkeppnisstöðu og Einar hafði kynnt sér málið, þar sem ýmissi framleiðslu virtist stefnt í tvísýnu, sagði hann við mig, að Ísland yrði að fá undanþágu. Málið hafði þá ekki verið kynnt í nefndinni. Ég kvað það ekki geta verið hlutverk mitt að setja neitt fram um það. Skömmu síðar var starfinu hætt.

Ég var vitaskuld barn í lögum og skal ekki segja, hvað ég skildi mikið af vinnubrögðunum, en eftir á er ljóst, að verið var að snúa við verkefninu, sem nefndin hafði mótað, að athuga fríverslun, og fjalla um fulla aðild án þess að taka aftur fyrir í nefndinni það, sem nefndin hafði hafnað í upphafi.

Síðar, á árinu 1963, var málið lagt til hliðar. Það var eftir að verðandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, setti sig inn í Rómarsáttmálann um Efnahagsbandalagið og þóttist sjá, að stefnt væri að stofnun ríkis. Hann taldi ekki koma til greina, að Ísland yrði með í slíku ríki. Bjarni varð ungur sérstakur kunnáttumaður í stjórnskipunarrétti og var þá prófessor í lögum.

Athugum, að ríkisstjórnin hafði einungis talið aðild álitamál, en Jónas og Einar ætluðu sér greinilega meira og unnu samkvæmt því.

Þetta er gömul saga. Hálfri öld síðar er staðan sú, að samkvæmt eigin yfirlýsingum ætlar Evrópusambandið sér Ísland og á nú við þjóð, sem er sundruð um flest, þar á meðal stöðu landbúnaðarins. Sumir þykjast samt ætla að semja um eitthvað, sem heldur.

Bændablaðinu, 13. janúar 2011 10