Ungur maður með nýlegt stúdentspróf vildi ekki fara strax í háskólanám, enda þótt hann ætti auðvelt með nám, heldur vildi vinna fyrst um sinn. Hann kærði sig ekki um vinnu á veitingastað. Önnur vinna bauðst ekki. Vinnuflokkar af ýmsu tagi á götum Reykjavíkur eru nú skipaðir pólverjum með íslenskan verkstjóra. Það flækir verkstjórnina að hafa íslendinga með í flokknum. Það er ekki víst, að það laði íslending til starfs, ef hann lendir í pólskum vinnuflokki, og þarf ekki að vera af andúð á pólverjum.

Fjárbóndi nokkur jók gistirými á bæ sínum, með hóflegum kostnaði, enda sjálfur smiður. Þótt gisting væri frekar ódýr, skilaði hver gestur fljótt meiri framlegð en ærin. Á sumrin réð hann fólk til aðstoðar vegna gestagangs. Hann kaus útlendinga til þess. Hann taldi óráð að ráða íslendinga, þeir þyrftu nefnilega að fara í skóla í ágúst, áður en ferðaálaginu lyki.

Um tíma gátu innfæddir reykvíkingar haft uppgrip í hreingerningum og í sorphirðu. Þau störf gefa ekki lengur uppgrip og eru í höndum pólverja, sem hrakist hafa hingað vegna ástandsins heima fyrir. Tækifæri, sem ungir íslendingar höfðu til að vera í fullri vinnu til þess að standa þannig straum af námskostnaði næsta vetrar eða næstu ára, hafa þrengst. Hins vegar eru enn mörg tækifæri í hlutastörfum samhliða námi.

Atvinnulífið fær smám saman mót af því tagi, sem hefur náð öfgum í Sádi-Arabíu. Þar vinna útlendingar störfin, sem halda þjóðfélaginu gangandi. Sá er munurinn á Íslandi og Sádi-Arabíu, að íslendingar með verðmæta verkkunnáttu fara til annarra landa til starfa. Með íslenska skólagöngu að baki eru þeir velmetnir.

Þeir, sem hafa efni á að gera rækilega grein fyrir tengingu mennta og atvinnu í landinu, eins og Samtök atvinnulífsins, mættu hafa ofangreindar ábendingar í huga.

Það hefur verið skýrt, að ekki er mark takandi á samanburði, sem Samtök atvinnulífsins hafa haldið fram, á skólagöngu ungmenna hér og í nálægum löndum. Það gerði Atli Harðarson, skólameistari á Akranesi, í Morgunblaðinu. Þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir beitti sér sem menntamálaráðherra fyrir því að fækka skólaárum framhaldsskólans, bentu skólamenn á, ég man eftir Páli Skúlasyni og Jóni Torfa Jónassyni, að íslensk ungmenni stæðu hálfþrítug jafnfætis ungmennum í nálægum löndum um háskólamenntun, enda þótt þau lykju framhaldsskóla síðar. Tryggvi Gíslason, skólameistari á Akureyri, sem hafði brautskráð þúsundir, hélt því fram í þessari umræðu, að það væri fyrst á síðasta menntaskólaárinu, að nemendur hefðu fengið þroska til að stika út lífið með vali á háskólanámi.

Viðbrögð nemenda í framhaldsskólum voru þá þau, að þeim fannst sem til stæði að fækka hamingjuríkum æskuárum um eitt. Þorgerður braust í þessu, án þess að ég minnist þess, að vísað væri til samþykkta flokksins, sem hafði kosið hana til forystu, um fækkun framhaldsskólaára. Áhuga hennar má skilja í ljósi áhuga hennar að stefna Íslandi í Evrópusambandið; um var að ræða samræmingu við skólaskipulag þess. Flokkur hennar hafði ekki heldur ályktað í þágu Evrópusambandsaðildar. Nýlega tók hún að sér skólamálin hjá Samtökum atvinnulífsins.

Framangreint lýtur að þeim, sem gengur heldur vel í skóla. Iðnmeistari með talsverða kennslureynslu í iðnskóla, Gestur Gunnarsson, minnti á hina í alvöruþrunginni grein í Morgunblaðinu í júlí (Brottfall). Brýnt er að gefa gaum að ábendingu hans í tillögum um skólamál. Þær hugmyndir, sem nú fara hæst um nýskipan skóla, virðast gera illt verra fyrir þá, sem eru tæpastir. Með þeim er ungt fólk fært fjær atvinnulífi fullorðna fólksins á þroskabraut sinni í stað þess að samtvinna þroska hugur og handa, eins og Gestur hélt fram.

Morgunblaðinu, 13. nóvember 2013