Stjórn Háskólans á Akureyri ákvað árið 1998 að kanna í sjóðvali viðhorf starfsmanna til mála, sem lúta að stjórn skólans. Sjóðval var þá hugsað sem ráð fyrir háskólastjórnina til að fá vitneskju um viðhorf, með rökum aðferðarinnar og reglum, og þá ekki síst til að njóta kosta aðferðarinnar til að leggja mál fram með útfærslum, sem geta verið meira eða minna hliðstæðar. Starfsmenn, sem þá var um að ræða, voru einir 40 kennarar og um 20 aðrir háskólamenntaðir starfsmenn. Framkvæmdin hefur reyndar lent í útideyfu, hvað sem veldur. Tvö mál voru borin upp án tafar, og þriðja málið var mótað til flutnings, en ekki borið upp; er það reyndar orðið úrelt, eins og það var mótað. Hvað sem þessu líður eru tvö atriði, sem komu upp við skólann, lærdómsrík, eins og nú skal rakið.

 

Hvað er flóknast?

Skömmu áður en fyrsta málið var sent út til starfsmanna Háskólans á Akureyri, lét rektor uppi við mig, að sér þætti aðferðin dálítið flókin. Það varð efni til eftirfarandi athugasemdar, sem send var þátttakendum:

Það kann að reynast flókið fyrir starfsmann fjölmennrar stofnunar að beita sér fyrir máli við stjórn stofnunarinnar, sem hefur almennt gildi fyrir stofnunina. Það kann að varða stjórnina, hversu almennan stuðning sjónarmið starfsmannsins hefur, og ekki alltaf einfalt mál að ganga úr skugga um það. Stjórnin kann að láta sig varða, hvort þeim, sem hafa sjónarmiðið, er það kappsmál, og þá kann að skipta máli, hvort þeim, sem hafa andstætt sjónarmið, sé það kappsmál. Það getur vafist fyrir starfsmönnum og stjórn að vita, hvað menn vilja helst og næst helst, þar næst og síst. Sjóðval á að greiða úr slíkjum flækjum.

Ákveðið var, að sá starfsmaður háskólans, sem sæi um úrvinnslu atkvæðaseðla, fengi einn að vita, hverju hver og einn hefði veðjað af atkvæðum. Það sýndist samt ekki ástæða til að halda leyndinni, þegar fólk hefði vanist aðferðinni. Slík skoðanakönnun er nefnilega sambærileg við, að rektor boði starfsmenn til fundar og kynni þeim mál, sem hann eigi að afgreiða, og leggi fyrir þá, hvernig afgreiða megi málið, og leiti eftir skoðun hvers og eins í heyranda hljóði og spyrji starfsmann fyrst, hvað hann kjósi helst og hversu mikla áherslu hann leggi á það, og síðan hvernig hann meti aðra kosti í málinu hvern fyrir sig. Í sjóðvali tilsvara atkvæðaboð munnlegum svörum á fundi. Því er jafneðlilegt, að atkvæðaboð starfsmanna séu birt.

Lýðræði með raðvali og sjóðvali, III.E.3. Fyrirtæki, stofnanir og hagsmunasamtök