Það er í afleysingum á sumrin að margt ungt fólk fær starfsreynslu sem gerir það starfhæft einnig utan sumarleyfatímans. Á Norðurlöndum er mikið atvinnuleysi ungs fólks. Ég er sannfærður um að því veldur að nokkru stutt sumarleyfi skólafólks, kennara og nemenda. Þar mótar fjöldinn orlofstíma sinn með tilliti til þess að skólar eru ekki lokaðir nema tvo mánuði og tekur orlof á sama tíma. Þess vegna er mikið um að starfsemi, þótt ekki sé beint háð starfsemi skólanna, leggst niður um hásumarið. Hér á landi er minna um þetta, heldur dreifist orlofstíminn meira og skörðin verða svo ,dreifð að starfseminni er haldið gangandi árið um kring. Fyrir vikið þurfa fyrirtæki að ráða í skörðin á sumrin. Það gerir ungu fólki með litla starfsreynslu auðveldara að afla sér hennar og verða þannig gjaldgengt á vinnumarkaði árið um kring en verður í löndum með lengra skólaár.

 

Áþján

Þetta er sannfæring mín, en málið þarfnast nánari athugunar. Hún virðist í fljótu bragði geta verið fólgin í því að ganga úr skugga um það, til að mynda í Noregi, hvort ekki sé líklegt að lenging sumarleyfa skóla þar mundi leiða til fleiri atvinnufæra ungs fólks og yfirleitt betri nýtingar atvinnutækja. Annað þykir mér líklegt að athugun mundi leiða í ljós, það er að hinar björtu vorvikur á Norðurlöndum norðanverðum (í Noregi í Þrændalögum og norðar) reynist ódrjúgar til náms. Þá sé skólasetan áþján án árangurs.

Morgunblaðinu 29. júlí og 2. september 1994 (Bréf til blaðsins)