ULLARIÐNAÐUR ÍSLENDINGA Á SÍÐARI HLUTA 19. ALDAR OG Á 20. ÖLD. SAFN TIL IÐNSÖGU ÍSLENDDINGA. 2. bindi, Ritstjóri Jón Böðvarsson. Reykjavík 1988. 452 bls. Margvíslegar skrár og töflur.
Iðnsaga íslendinga er sjálfstæð stofnun undir beinni stjórn menntamálaráðherra. Ritstjóri ákveður efnisval í Safn til iðnsögu íslendinga. Eru nú komin út rit um þrjár iðngreinar. Svo er að skilja, að safn sögu iðngreina eigi að verða grundvöllur yfirlitsrits um iðnsögu íslendinga. Um fyrstu iðngreinina, málmiðnað, virðist þurfa þrjú rit, þar sem í því bindi, sem birst hefur, er aðeins fjallað um málmiðnað á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar. Þá vantar rit um fyrstu níu aldir málmsmíða íslendinga og annað um viðburðaríka sögu frá miðri þessari öld.
Líkt hefur nú orðið með sögu ullariðnaðarins. Mikilvægasti gjaldeyrir íslendinga fram á 14. öld var iðnvarningur úr ull, og allt fram á þesssa öld gætti þessa í því, að alin vaðmáls var aðalverðmælirinn, oft talinn í hundruðum. Þrátt fyrir það hefst sagan, sem nú birtist, fyrst á síðari hluta 19. aldar. Hún nær því ekki einu sinni til upphafs nýsköpunartilrauna nútímans, þess iðnreksturs, sem komið var á fót í Reykjavík um miðja 18. öld og stóð fram yfir 1800, og ekki er heldur vísað til annarra um það efni. Þessi ullariðnaður stóð þó álíka lengi og iðnrekstur þeirra Álafossfeðga eða ullariðnaður Sambandsins á Akureyri.
Besti kafli ritsins er ágripið (bls. 319-26), ljóst yfirlit, og skyldu menn lesa það fyrst, þótt það standi aftast og kallist ranglega niðurlag. Það er samið með þeim skilningi á fjölbreyttu formi iðnaðarframleiðslu, sem kynntur er í inngangi. Kemur þá fram, hvernig iðnaðurinn hefur sprottið upp úr heimilisiðnaði hrávöruframleiðendanna, fjárbænda, og hvernig hann hefur þróast frá honum, þótt heimilisiðnaður sé enn athyglisverður þáttur ullariðnaðar hér á landi.
Mestur hluti bókarinnar er um hina tæknilegu hlið málsins. Hefur víða verið leitað fanga: um verkstæði, sem sett voru á stofn í lok 19. aldar til að kemba og spinna ull; um heimilisiðnaðinn, hvernig hann studdist við verkstæðin, hvernig honum bættust ný tæki og um samtök til eflingar honum; um klæðaverksmiðjur og dúka; um eiginleika íslenskrar ullar og hirðingu hennar; um spuna og band, gólfteppi og prjónaiðnað og loks um verkafólk í iðnaði.
Merkilegast þótti mér í sögu Magnúsar að kynnast, því hversu mjög ullariðnaðurinn hefur verið háður atbeina og stuðningi almannasamtaka frá upphafi, fyrst sýslunefnda við stofnun tóvélaverkstæða, síðar samvinnufélaga um rekstur kembivéla, tóvinnslu og klæðagerð, og í fulla fjóra áratugi innflutningshöftum. Ekki er kynnt neitt um það, hversu mikið innflutningshöftin hækkuðu innlenda ullarvöru í verði. Sú tilfinning verður hins vegar sterk að loknum lestri, að sennilega hefði ekki þrifist neinn ullariðnaður hér á landi eftir 1930, ef hefði ekki verið komið á öflugri innflutningsvernd. Í kaflanum um prjónaiðnaðinn er sagt í yfirskrift, að verðbólga drepi útflutningsiðnaðinn, og er þar fjallað um versnandi afkomu ullariðnaðarins frá 1982-3. Nú er það ekki svo, að verðbólga hafi drepið alla útflutningsframleiðslu á þessum árum. Hvernig skyldi hún hafa bitnað á ullariðnaðinum umfram aðra? Þótt rétt sé, eins og bent er á, að stjórnvöld hafi styrkt stöðu aðalútflutningsgreinarinnar, sjávarútvegsins, með ráðstöfunum, sem útflutningsiðnaðurinn naut ekki, sýnist hitt hafa ráðið meiru, að ullariðnaðurinn standist sjávarútveginum ekki snúning á jafnréttisgrundvelli, þegar góðæri er til sjávarins. Þetta leiðir hugann að umskiptunum í byrjun 14. aldar, þegar sjávarútvegurinn tók að skila auknum arði í gjaldeyri og kom í stað heimilisiðnaðarins sem aðalútflutningsgreinin.
Styrjaldarástand veitti ullariðnaðinum tvívegis aukinn þrótt í ýmsum myndum. Í fyrra skiptið entist hann nokkur fríverslunarár eftir 1920, en eftir seinni heimsstyrjöldina naut innflutningshafta um skeið. Ástæða hefði verið til að gera grein fyrir hlut innlendra fata miðað við innflutt föt á stríðsárunum með samanburði við hlutföllin fyrir stríð til að glöggva sig á því, hvort þjóðin hefði staðið tæpt með klæði, ef ekki hefði notið við innlends hráefnis, tækja og verkkunnáttu.
Það er merkilegt rannsóknarefni, hvernig þróun atvinnuhátta hófst eftir aldalanga kyrrstöðu. Hvað kom nýsköpun af stað, hverjir áttu þar frumkvæði og hverjir héldu að sér höndum eða spyrntu við fæti? Höfundur hefur orðið að glöggva sig á vinnubrögðum fyrri tíðar til að skilja, hvaða ráðstafanir áttu við á hverjum tíma til framþróunar ullariðnaði. Þess vegna er illt til þess að vita, að hann skyldi ekki beita kunnáttu sinni til að meta ullariðnaðinn á 18. öld. Í umræðum um stofnun ullarverksmiðju á alþingi 1889 komu fram skiptar skoðanir um það, hver reynslan hefði verið. Höfundur hefði átt að geta skýrt hvað brást, svo sem hvort tækin hafi verið hentug fyrir íslenska ull, hvernig afurðirnar voru bornar saman við heimagerð föt og hverju örðugar samgöngur og verslunarhættirnir hafi ráðið þar um. Stóðst iðnaðurinn sjávarútveginum ekki snúning? — Höfundur bendir þó á þann ávinning, sem þjóðin hafði af tækjum, sem breiddust um landið frá þessum iðnrekstri.
Tryggvi Gunnarsson útvegaði tvo fullkomna handvefstóla til landsins um 1880. Annar þeirra var notaður í nokkur ár á bæ einum á Fljótsdalshéraði, en hinn stóð ónotaður á Akureyri. Hvers vegna skyldi ekki hafa orðið meira úr þeirri tilraun? Í kaflanum um tóvélaverkstæði segir (bls. 20) varðandi, hvernig tekið var undir ábendingar um nauðsyn þess að efla atvinnu og framfarir á 19. öld, að „bændur, sem að heita má réðu öllu á Alþingi, héldu mjög að sér höndum þegar verklegar framkvæmdir bar á góma.“ Ekki er vísað til heimilda um tómlæti þeirra. Hins vegar brá svo við, þegar rekstur tóvéla hófst, eftir 1880, að helst stóðu þar að bændur og samtök, þar sem þeir máttu öllu ráða, nefnilega sýslunefndir og kaupfélög og samband þeirra. (Í frásögn af tóvélum í Ólafsdal (2.5) segir frá umræðum í sýslunefndum um málið, en ekki hvort þær hafi, ein eða fleiri, lagt því máli lið). Enn er þess að geta, að reynslan varð sú, að sumt af þeim fyrirtækjum, sem stofnuð voru með stuðningi þessara „bændasamtaka“ báru sig ekki og komust í þrot. Kynni það að benda til þess, að bændur hafi verið haldnir óraunhæfum framfaravilja? Hagsmunir þeirra voru tvíþættir í þessu efni: Þeir voru hrávöruframleiðendur og vélvæðing ullarvinnslunnar styrkti stöðu heimilisiðnaðar þeirra.
Rangt er það, sem segir í samantekt kaflans um klæðaverksmiðjur og dúkavefnað (bls. 151), að hugmynd um að koma á fót ullarverksmiðju er gæti ofið dúka hafi ekki fengið hljómgrunn hjá meiri hluta alþingismanna árið 1889. Tillaga um lánveitingu til slíkrar verksmiðju var samþykkt með 19 samhljóða atkvæðum í neðri deild, en felld í efri deild með 10 atkvæðum gegn 1. Vegna hugmyndar höfundar um tómlæti bænda er ástæða til að benda á það, að í efri deild var helmingur þingmanna konungkjörinn, en í neðri deild voru allir þingmenn þjóðkjörnir, og mátti kalla flesta hina þjóðkjörnu bændakjörna. Þá sátu í efri deild þingmenn þéttbýlustu kjördæmanna, Reykjavíkur og Vestmannaeyja, og mæltu báðir gegn ullarverksmiðjurekstri hér á landi.
„Fulltrúar Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS) munu snemma hafa fengið áhuga á eflingu íslensks ullariðnaðar, enda þurftu þeir að horfa upp á það að óunnin ull væri flutt úr landi og mikið af erlendum fatnaði selt á uppsprengdu (svo) verði í kaupfélögum víðs vegar um land.“ Svo segir á bls. 134, og síðan, hvernig það bar, að að Sambandið eignaðist klæðaverksmiðjuna Gefjuni á Akureyri árið 1930, sem hafði frá 1924 búið við minnkandi eftirspurn „með auknum innflutningi og lækkandi verðlagi á fataefnum“ (bls. 130). Í þeirri frásögn er sú ályktun höfundar, að Jónas frá Hriflu hafi „svæft ullariðnaðarmálið um stundarsakir“. Þetta er ótrúlegt og hefði þurft að rökstyðja.
Lokakaflinn fjallar um verkafólk í ullariðnaði og m.a. um kjör þess. Þar er víða gerður samanburður á launakjörum vinnufólks til sveita í upphafi iðnvæðingar og í iðnaði og sjávarútvegi, með vísun til Guðmundar Jónssonar, en án eftirfarandi fyrirvara hans (Vinnuhjú á Íslandi, bls. 38): „En hafa ber í huga að ofan á kaup fólks í sveitum bættist, föt, peningsfóður og fleira, sem kaupstaðarfólk fékk yfirleitt ekki.“ Það, sem ofan á bættist, var að verðmæti miklu meira en kaupið, að mati tóvélastjórans Magnúsar Þórarinssonar (bls. 303). — Hvaða heimild skyldi vera til að telja virka daga á ári 365, eins og höfundur gerir við útreikninga á vinnuframlagi vefnaðarfólks til sveita? — Með verkafólki telur höfundur handprjónasambandið, en það er raunar samband sjálfstæðra framleiðenda. Athyglisvert er, að þeir hafa haft með sér samtök um verðlag þrátt fyrir bann verðlagslaga við slíkum samtökum. Skyldi verðlagsráð hafa veitt þeim undanþágu, leitt málið hjá sér eða ekki vitað af því?.
Margar myndir prýða bókina og eru til skýringar. Sveinbjörn sá, sem sýndur er á bls. 244, var Jónsson, lengi kenndur við Ofnasmiðjuna, en ekki Björnsson, eins og þar segir.
Þannig er gengið frá flestu í bókinni, að hún verður handhæg í notkun. Ég kann ekki að dæma um tæknileg efni. Lýsing á útbreiðslu og áhrifum skyttuvefstóls (bls. 50) á síðari hluta 19. aldar er ekki í samræmi við tilvísaðar heimildir. Lýsing á vinnubrögðum við prjónapeysu (bls. 97) er ekki rétt, segir prjónfræðingur mér.
Betur hefði þurft að lesa yfir handrit með tilliti til heimilda og málfars. Bent skal á eftirfarandi: Kafli úr nýársgjöf Stefáns Ólafssonar í Vallanesi til Guðríðar litlu Gísladóttur hefur brenglast verulega (bls. 49). Tilvísun til heimildar er þar röng, heimildin sjálf gölluð og raunar einnig rangt farið með hana. Tölur tilvísana hafa brenglast á bls. 50. Hirðingjar eiga ekki búsetu, gæra er unnin, menn áttu viðskipti við Gefjuni og alþingi skipaði ekki verðlagsnefnd landbúnaðarafurða. — Víða hefði mátt fækka orðum.
Í upphafi skyldi endinn skoða. Ef saga einstakra iðngreina á að verða grundvöllur yfirlitssögu iðnaðar, þarf að fjalla um aðgerðir stjórnvalda, sem mótað hafa hverja grein. Eins og bent hefur verið á hefur þetta verið vanrækt varðandi ullariðnaðinn frá 1931 og fram yfir 1970. Vísað er til álits og tillagna skipulagsnefndar atvinnumála 1936 um aðgerðir til stuðnings iðnaði, en ekki gerð grein fyrir því, hvort stjórnvöld unnu að málinu í samræmi við það. Kafla um Álafoss lýkur á bls. 34 með þessum orðum: „Árið 1919 keypti Sigurjón Pétursson, ásamt Einari bróður sínum, alla verksmiðjuna og var hún frá 1923 eign Sigurjóns og hans fjölskyldu.“ Á bls. 284-5 segir frá samningi Sambands íslenskra samvinnufélaga og Framkvæmdasjóðs Íslands um sameiningu ullariðnaðar SÍS og Álafoss í eitt fyrirtæki. Hvernig gat Framkvæmdasjóður Íslands ráðstafað eign fjölskyldu Sigurjóns Péturssonar? Hér er ég hræddur um, að vanti að segja frá merkilegu máli í riti, sem á að teljast hagsögulegt.
Sögu 27 (1989), 224-8