Undanfarið hafa margir lagt orð í belg um það hér í blaðinu, hvað seinkaði því, að atvinnuhættir landsmanna breyttust til batnaðar. Stutt grein Guðmundar Jónssonar „Forfeðravandi íslendinga“ 28. maí er yfirgripsmest til skýringar. Hver, sem vill taka til máls um þetta efni, ætti fyrst að lesa hana. Þó er þar eftirfarandi, sem ég býst ekki við, að hann geti stutt rökum: „Vistarbandið hamlaði sannarlega vexti sjávarútvegs og aukinni verkaskiptingu." Ég hef sjálfur lagt mig eftir þessu efni, eins og lesendum Skírnis og Sögu má vera kunnugt, og ekki fundið slík rök. Vistarbandið kvað ekki á um, að vinnufólk gegndi aðeins hefðbundnum búskaparstörfum, enda hófst iðnrekstur í Reykjavík um miðja 18. öld, á tímum vistarbands, en hann reyndist ekki arðbær og lagðist af. Hins vegar varð þilskipaútgerð varanleg á Vestfjörðum á tímum vistarbands. Ég lýsi eftir rökum Guðmundar fyrir þeirri fullyrðingu, að vistarbandið hafi hamlað vexti sjávarútvegs og aukinni verkaskiptingu.

Morgunblaðinu 30. júní 1993