Árið 1901 gerðu danir samning við breta um það m. a. að þrengja landhelgi við Ísland úr fjórum sjómílum í þrjár. Pétur J. Thorsteinsson fjallar um samninginn í sögu utanríkisþjónustu Íslands. Hann vísar á bug þeirri skoðun, að danir hafi ekki verið heilir gagnvart íslendingum í málinu, með þessum orðum:[i]
Síðar komu fram raddir um það að Danir hefðu fórnað íslenskum hagsmunum við samningsgerðina vegna eigin markaðshagsmuna í Bretlandi og var samningurinn kallaður svínakjötssamningur eða öðrum svipuðum nöfnum og talinn nauðungarsamningur. Ekki verður séð að nein tengsl hafi verið milli samningsgerðarinnar og markaðsmöguleika fyrir danskar afurðir í Bretlandi.

Jón Þ. Þór fjallar um málið í ritum sínum um breska togara og Íslandsmið 1889-1916. Í fyrra ritinu segir hann:[ii] „Sú skýring hefur orðið lífseig hér á Íslandi, að Bretar hafi knúið Dani til samningsgerðarinnar með hótunum um efnahagsþvinganir. Og annars staðar hefur verið bent á, að Danir hafi ekki viljað „fórna markaðsmöguleikum fyrir landbúnaðarafurðir sínar í Bretlandi fyrir hagsmuni íslenskra sjómanna og útvegsbænda.“

Um þessa skýringu hefur Jón tvær tilvísanir. Hin fyrri og eldri er í rit Júlíusar Havsteens um landhelgina, sem Landssamband íslenskra útvegsmanna gaf út, en hann vísar skýringunni strax á bug með svofelldum orðum: „Eins og hinn sögulegi aðdragandi samningsins, sem hér hefur verið rakinn, hefur vonandi leitt í ljós, eru allar vangaveltur um þetta atriði út í hött. Engar heimildir eru fyrir því, að Bretar hafi á nokkurn hátt knúið á eða reynt að knýja Dani til undanhalds við samningsgerðina.“[iii]

Um það hvað ráðið hafi afstöðu dana við samningsgerðina 1901, sagði Júlíus:[iv]
„Sjálfsagt er erfitt nú að upplýsa, hvað ráðið hefur stefnubreytingunni hjá ríkisstjórn Dana, að hafa konungsúrskurðinn frá 22. febrúar 1812 og öll eldri lagaboð um stærð íslensku landhelginnar gjörsamlega að engu, en hitt er vitað, að að öðru leytinu sóttu stjórnarvöld Stóra-Bretlands það mjög fast, gætandi hagsmuna enskra útgerðar- og sjómanna, að draga sem mest úr landhelginni umhverfis Ísland og Færeyjar, og að hinu leytinu var danskur landbúnaður í miklum uppgangi og þurfti á sem hagkvæmustum samningum að halda einmitt við Englendinga, sem voru þá og eru enn aðalneytendur danskra eggja og svína.“

Rit Júlíusar um landhelgina geymdi erindi hans og ritgerðir allt frá 1918, án þess að getið sé upprunalegrar birtingar. Þar verður ekki séð, hvenær hann setti þessa skýringu á afstöðu dana fyrst fram, en eftirgrennslan leiddi í ljós, að framangreind orð hans eru úr grein í Víkingi 1947.

Jón tekur fram í báðum ritum sínum, að hann hafi því miður ekki átt þess kost að kanna skipulega bresk og dönsk skjalasöfn, er kunna að geyma gögn varðandi þá sögu, sem hér er reynt að segja. Af þessum sökum má ekki líta á þetta mál sem tæmandi um viðfangsefnið, miklu frekar sem tilraun til frásagnar af einstökum þáttum þess.[v] Afsökun þessi á við ritið í heild.

Hvaða vitneskja má ætla, að geti fundist í skjalasöfnum um þetta sérstaka mál, sem varðar tengingu danskra viðskiptahagsmuna við landhelgissamninginn? Slík tenging kann vitaskuld að hafa verið án þess að hafa verið skráð. Öðru máli gegnir um samninga um viðskipti dana í Englandi á þessum misserum, þegar verið var að fjalla um landhelgissamninginn. Um það hljóta að vera til heimildir. Þá sögn heyrði ég ungur, að danir hafi þannig komist að sömu kjörum og nýlendur englendinga, þ.e.a.s. bestu kjörum, eins og iðulega er samið um, og þess hafi íslendingar raunar notið sem hluti danaveldis, þegar útflutningur á smjöri til Bretlands hófst skömmu síðar. Ekki veit ég, hver bestu kjör hafa þá verið í samanburði við almenn kjör. Sá maður, sem sagði mér var traustur maður og glöggur, landbúnaðarmaður nákominn Sigurði Sigurðssyni búnaðarmálastjóra, en sögnin er að vísu ekki skýr í minni mínu. Sigurður var ungur skjólstæðingur Páls Briems amtmanns, síðast bankastjóra, og Stefáns Stefánssonar skólameistara.[vi] Sigurður var mikilvirkur í landbúnaðarmálum allt frá aldamótum. Meðal annars beitti hann sér fyrir rekstri rjómabúa, sem gerðu smjör og seldu út. Páll og Stefán voru sem alkunna er atkvæðamiklir stjórnmálamenn og Stefán æskuvinur og aldavinur Valtýs Guðmundssonar ráðherraefnis í Kaupmannahöfn. Ég hef leitað ritaðrar heimildar um þetta atriði, en ekki fundið, og er raunar ekki sannfærður um, að þessi sögn, að viðskiptakjör dana hafi verið bætt með samningi, eigi við rök að styðjast. Grein þessi er samin til að minna á nauðsyn þess að kanna heimildir um það efni, áður en ályktað sé um það til eða frá.

Það er ekki gott að átta sig á því, hvort Jón telji, að danir hafi látið undan englendingum með landhelgissamningnum. Hann segir annars vegar, að danir „hafi haft fram það, sem þeir vildu: að „Norðursjávarlandhelgi“ yrði viðurkennd við Ísland og Færeyjar.“[vii] Hins vegar segir hann:
Með samningnum 1901 féllu dönsk stjórnvöld endanlega frá því, að gamla fjögurra sjómílna landhelgin gilti við Ísland. Hún var að vísu ekki numin formlega úr gildi, en tilskipanir og bréf um hana skiptu ekki lengur máli, engri þjóð var gert að hlíta henni. Vissulega má færa rök fyrir því, að hér hafi verið látið undan síga, en það breytir því ekki, að um síðustu aldamót var þriggja mílna „Norðursjávarlandhelgi“ orðin viðurkennd regla við strendur ríkja, er lágu að Norður-Atlantshafi. Eina undantekningin var Noregur, sem hélt fram fjögurra sjómílna landhelgi - Dani skorti þrótt til að standa á móti Bretum og öðrum stórveldum í þessum efnum. Þeir urðu að láta undan síga fyrir kröfum samtímans, kröfum, sem stórveldin gerðu að sínum.“

Var það ekki heldur svo, að stórveldin gerðu kröfur sínar að kröfum samtímans?

Lokaorð Péturs um aðstöðu dana eru sams konar: „En varðandi landhelgina urðu Danir að láta undan kröfum tímans og þrýstingi stórveldanna.“[viii]

Hinn norski hluti hins forna danaveldis var, þegar hér var komið sögu, eigið ríki og stóð á móti „kröfum tímans og þrýstingi Stórveldanna“ og hélt fjögurra sjómílna landhelgi, þótt dani skorti þrótt til þess að dómi Jóns. Spurningin er, hverju bretar beittu til að buga þrótt dana. Á því á Jón enga skýringu.

Hvaðan gæti verið komin fullyrðing Júlíusar Havsteens um tengsl viðskiptahagsmuna dana og landhelgissamningsins? Júlíus lauk embættisprófi frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1912 og gekk þá að eiga Þórunni Jónsdóttur. Lára móðir hennar hafði látist, þegar hún var barnung. Hannes Hafstein, bróðir Láru, tók Þórunni þá til sín. Júlíus var því í vissum skilningi tengdasonur Hannesar. Auk þess voru þeir frændur. Á námsárum Júlíusar í Höfn og síðar naut Hannes meira álits og trúnaðar meðal danskra ráðamanna en flestir ef ekki allir íslendingar. Skyldi skýring Júlíusar á kaupum dana við englendinga í tengslum við landhelgissamninginn vera komin frá Hannesi?

Framangreind niðurstaða Péturs, að ekki verði séð nein tengsl landhelgissamningsins við viðskiptahagsmuni dana, er ekki rökstudd. Hann skýrir ekki, hvernig hann gekk úr skugga um málið og gerir ekki grein fyrir breytingum á samningsbundnum viðskiptakjörum dana í Bretlandi á þessum árum.

Það er mörg vitneskja, sem einstaklingar og þjóðir kunna að láta sig miklu varða, sem menn eins og Hannes Hafstein taka með sér í gröfina. Þótt það sé glatað, er enn eftir að rannsaka það, sem skjalfest er um viðskiptakjör dana í Bretlandi upp úr aldamótum. Ég vænti þess, að næst, þegar sagnfræðingur fjallar um málið, kanni hann heimildir um það efni.

Sögu 31 (1993) 191-5

Heimildir

Jón Þ. Þór. Breskir togarar og Íslandsmið 1889-1916. Reykjavík 1982.

— British trawlers in Icelandic waters. Reykjavík 1992.

Júlíus Havsteen. Landhelgin. 1950.

— Um landhelgi Íslands. Víkingi 9 (1947) 100-105.

Pétur J. Thorsteinsson. Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál. Sögulegt yfirlit 1. Reykjavík 1992.
 
Sigurður Sigurðsson frá Draflastöðum. Ævisaga. Jónas Þorbergsson tók saman og skráði. Reykjavík 1960.

 

[i] Pétur, 50.

[ii] Jón, 145, sbr. sams konar orð á bls. 157 í síðara ritinu.

[iii] Jón, 145, sbr. sams konar orð á bls. 157 í síðara ritinu.

[iv] Júlíus, 45.

[v] Jón, 1982, bls. 9, sbr. sams konar orð 1992, bls. 12.

[vi] Sigurður Sigurðsson. Ævisaga.

[vii] Jón, 1982, 145.

[viii] Pétur, 50.