Mestu uppgangsár Reykjavíkur á fyrri hluta síðustu aldar voru þegar skútuútgerð blómstraði og svo enn frekar þegar togaraútgerðin tók við. Lítil athugun á fjölskyldusögu leiddi mig til þeirrar ályktunar, að starfið hefði ekki verið borið uppi af bæjarmönnum, heldur utanbæjarmönnum, þá á ég við hásetana. Ég geri hér grein fyrir þessari litlu athugun.
Ég var eitt sinn spurður um fólk móðurömmu minnar, hvort það hefði verið tengt sjónum. Hún fluttist unglingur úr Krýsuvík með foreldrum sínum í Breiðholt, bæ, sem stóð nokkurn veginn, þar sem nú er bensínstöð í Mjódd. Ég fór yfir það, hvernig það bjargaðist. Það kom í ljós, að ekkert þeirra systkina, barna hjónanna í Breiðholti, nema amma mín, átti lífsbjörg sína af sjósókn. Mér virðist það hafa bjargað sér þokkalega, en ekkert þeirra hlaut starfsmenntun í skóla. Til að setja lesendur inn í, hvernig þannig alþýðufólk gat framfleytt sér í Reykjavík án þess að stunda sjó, rek ég hlutskipti þess.
Elst var systir, sem giftist húsasmið. Hann reisti sér hús á Vitastíg, en féll frá á besta aldri. Ekkjan, barnlaus, átti þannig þokkalegt húsnæði og gaf sig að því að segja börnum til, áður en skólaganga þeirra hófst. Næst var amma mín, sem giftist manni af Kjalarnesi. Hann tók stýrimannapróf og átti skútu, sem fórst, en stundaði áfram störf við fiskveiðar; var heldur fátækur eftir vinnuslys. Systir giftist manni og áttu heima vestast í Vesturbænum. Maðurinn var fylgdarmaður dönsku landmælingamannanna, sem hér voru áratugi að verki. Það starf var aðeins á sumrin. Hann vann því ekki hálft árið, en konan saumaði föt á konur og sagði konum til við fatasaum. Ein systir var gift verkstjóra við höfnina. Þau reistu býlið Múla, sem stóð nokkurn veginn, þar sem Laugardalshöll er. Þar var ræktað tún. Konan sá um kýrnar, sem gáfu heimilinu tekjur. Bróðir átti lítið bú, þar sem nú kallast Laugardalur, hét Engjabrekka, og var líka verkamaður, en sú vinna gat verið stopul. Bróðir varð steinsmiður, var án skólagöngu og reisti sér hús sunnarlega við Laufásveg og hét Breiðholt; það var stutt frá vinnustaðnum, grjótnáminu í Öskjuhlíð. Systir giftist húsasmið, hóf búskap niður undir Lækjargötu, en vildi hafa bú, og fluttu þau að Reynisvatni í Mosfellshreppi.
Það kom fyrir í næstu kynslóð, minni kynslóð, að menn urðu sjómenn um tíma, enginn samt háseti og enginn á fiskiskipum. Síðan ég gerði mér grein fyrir þessari hlið á fjölskyldusögu minni, hef ég fitjað upp á þessu í samtali við ýmsa, og þá kemur hið sama í ljós. Það voru sem sagt utanbæjarmenn, sveitamenn, sem voru burðarásinn í útgerðarsögu Reykjavíkur.
Lítum þá á hjúskap sjómanna í Reykjavík. Af systkinahópnum hér að ofan var ein systirin, amma mín, sjómannskona. Þau hjón áttu einn son, sem ætlaði að verða stýrimaður, en reyndist hafa dapra sjón á öðru auganu, svo að ekki varð af því námi. Hann varð bátsmaður, en bátsmaður—hann hafði verkstjórn á þilfari—hafði hlut stýrimanns. Hann gekk í land, þegar honum bauðst að verða túlkur breska setuliðsins 1940. Svo voru fimm systur, laglegar stelpur, hver á sinn hátt. Ein dó 17 ára af berklum. Móðir mín varð gömul, 104 ára, og hélt fullu viti og minni. Þannig barst sitt af hverju í tal, frá því hún var ung, á þessum aldarfjórðungi, sem hún lifði umfram meðaltalið, þegar ég leit inn til hennar á kaffitíma. Ég þykist þannig hafa yfirlit yfir, hvaða ungir menn voru í kringum þær systur. Í stuttu máli voru það verslunar- og skrifstofumenn og menn með einhverja starfsmenntun, og aldrei var nefndur sjómaður meðal félaga þessara sjómannsdætra. Ég álykta því, að sjómenn hafi verið afgangs hjá reykvískum stúlkum, sem áttu kosta völ.
Ragnar Bjarnason söng fyrir dansi—má stundum heyra í Útvarpinu: Enginn veit hver annað sinn, aftur tekur snúninginn. Það var sem sagt lífshættulegt að vera sjómaður. Stúlkur, sem hugsuðu meira en dag fram fyrir sig, völdu ekki félagsskap föður- og forsjárefna, sem voru í lífshættulegu starfi og ekki hálaunuðu. Þetta var höfnun, sem þagað var um. Stenst þetta frekari athugun? Þetta á ekki við sjávarútveg dagsins í dag.
Morgunblaðinu, 15. nóvember 2022