Stjórnvöld vinna að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hér á landi. Verkið er á hendi iðnaðarráðuneytisins. Verkefnisstjórn hefur sér til stuðnings fjóra faghópa. Landvernd annast kynningu starfsins. Rammaáætlunin er að norskri fyrirmynd. Fyrsti áfangi verkefnisins er skýrslur um hvern virkjunarkost. Faghóparnir með um 10 manns í hverjum gefa kostunum einkunn samkvæmt skýrslunum. Þeir hafa hver sinn sjónarhól, nefnilega 1) náttúru– og minjavernd, 2) útivist og hlunnindi, 3) þjóðarhag, atvinnu og byggðaþróun og 4) orkulindir. Þegar þeir hafa gefið einkunnir, kemur forgangsröðun, sem verkefnisstjórn á að gera. Stefnt er að því að fjalla alls um 60 kosti í rafvirkjun vatnsafls og 40 kosti í rafvirkjun jarðhita. Í fyrsta áfanga, sem lauk vorið 2003, var fjallað um helstu virkjunarkosti í jökulsám á hálendi og jarðhita nærri byggð. Í fyrstu tilraun til mats, í árslok 2001, voru 12 kostir í vatnsafli.

Við heildarmat á afleiðingum virkjana þarf að vega og meta ýmsar stærðir, sem örðugt er að bera saman. Faghóparnir meta afleiðingarnar hver á sínum forsendum. Sumar afleiðingar má bera saman með því að setja fram tap og gróða í krónum. Aðrar afleiðingar má mæla á annan hátt, en margs konar afleiðingum verður aðeins lýst með umsögn, með orðum eins og lítil, mikil, mjög mikil og þess háttar.

Verkefnisstjórn leitaði ráða kunnáttumanna í aðferðum við einkunnagjöf til að velja aðferð við forgangsröðunina. Þeir mæltu ekki með aðferðinni, sem höfð var í Noregi, heldur aðgerðagreiningunni AHP. Faghóparnir hafa svo beitt henni. Með hvorugri aðferðinni tekst að hemja öfgafull sjónarmið, eins og gerist í sjóðvali og er grundvallareiginleiki þess. Á þetta kann að reyna, þegar samræma skal sjónarmið faghópanna til sameiginlegrar ályktunar. Þá er líka snúið með þessum aðferðum að hafa saman til mats stórar og litlar virkjanir og virkjanir, sem eru metnar mjög ólíkt. Lítum á, hvernig sjóðval gæti farið fram við slíkar aðstæður.

Með rammaáætlun á að ná samstöðu um það, hvernig fara skuli með orkuauðlindirnar, með því að vega saman andstæð sjónarmið og hagsmuni. Vonast er til, að árangurinn verði flokkun virkjunarkosta í þrennt, þar sem í einum flokknum verði kostir, sem þyki sjálfsagt að nýta, í öðrum kostir, sem ekki komi til greina að nýta, og í þriðja lagi kostir, sem þyki misgóðir, en án grundvallarágreinings um það. Ef sjóðval fer fram um áætlunina, verður fyrst að leggja fram yfirlit yfir virkjunarkostina. Síðan liggur fyrir að bera eitthvert svæðið undir atkvæði. Við athugum brýnt mál með tveimur virkjunarkostum í á, A og B, þar sem annar kosturinn útilokar hinn. Kostur A er ein virkjun, 54 MW, en kostur B er tvær virkjanir í ánni upp á samtals 64 MW. Kostur C er að friða árfarveginn.

Sumum kann að þykja of snemmt að taka afstöðu til virkjunar eða friðunar á svæðinu, en vilja heldur, að það skýrist fyrst í sjóðvalsferlinu, hvernig viss sjónarmið verði virt. Þar getur til að mynda verið um að ræða jafnvægi landshluta. Með frestun, sem ekki er tímabundin, fær forystan, sem ber mál undir atkvæði, tækifæri til að taka svæðið fyrir aftur. Þeim, sem beita sér fyrir frestun, verður að tryggja, að þeir þurfi ekki að verja atkvæðum hvað eftir annað fyrir sama mál. Það getur gerst með því, að sá atkvæðafjöldi, sem slík niðurstaða reynist kosta einstaka kjósendur, gangi til baka til þeirra, þegar málið yrði borið upp aftur, og þeir verði óbundnir við seinni atkvæðagreiðsluna.

Í umræddu dæmi verða fjórir kostir, sem menn geta veðjað atkvæðum á:

  1. Ein virkjun, 54 MW.
  2. Tvær virkjanir, samanlagt 64 MW.
  3. Engin virkjun í ánni.
  4. Fyrst um sinn verður ekki kveðið á um virkjun árinnar eða friðun. Ef niðurstaðan verður slík frestun, geta þeir, sem að standa, veðjað þeim atkvæðum, sem það kostar þá, á afbrigði máls í nýrri tillögu, ef fram kemur, um virkjun árinnar og friðun.

Stórar og litlar virkjanir og virkjanir sem eru metnar mjög ólíkt

Kjósendurnir, sem eiga að ákveða, hversu mörgum atkvæðum þeir skuli veðja á afbrigði í sambandi við virkjanirnar upp á 54 og 64 MW, hljóta hver fyrir sig að meta, hversu mikilvægt málið sé í hlutfalli við önnur virkjunarfæri, sem kynnu að vera á bilinu frá 1–2 MW upp í yfir 100 MW, og haga atkvæðum í samræmi við það. Þá getur líka vel verið, að mat á virkjunum af sömu stærð sé mjög misjafnt. Slíkt er eðli sjóðvals.

Athugum annað dæmi, þar sem tveir virkjunarkostir, sem ekki útiloka hvor annan, eru teknir fyrir saman, af því að sumir telja þá nána. Virkjunarkostirnir eru R og S.

Afbrigðin, sem menn geta veðjað atkvæðum á, verða:

R. Jarðvarmavirkjun stækkuð um 40 MW.
S. Ný jarðvarmavirkjun á svæðinu upp á 40 MW.
T. Sá hluti svæðisins, þar sem stækkun kemur til greina, friðaður fyrir frekari virkjun.
U. Sá hluti svæðisins, þar sem ný virkjun kemur til greina, friðaður fyrir virkjun.
V. Svæðið friðað fyrir frekari virkjunum.
W. Fyrst um sinn verður ekki kveðið á um virkjun eða friðun svæðisins. Ef niðurstaðan verður slík frestun, geta þeir, sem standa að því, veðjað þeim atkvæðum, sem það kostar þá, á afbrigði máls í nýrri tillögu, ef fram kemur, um virkjun eða friðun svæðisins.

Ef fjallað er um virkjunarfæri og friðun á þennan hátt, er niðurstaða sjóðvalsins afdráttarlaus í hverju tilviki um friðun og verndun, en stjórnvöld hefðu að fenginni slíkri niðurstöðu vitneskju, sem styðjast mætti við til flokkunar virkjunarstaða í þrennt, þar sem yrðu í fyrsta lagi virkjunarfæri, sem sjálfsagt þykir að nýta, í öðru lagi staðir, sem sjálfsagt þykir að friða, og í þriðja lagi staðir, þar sem tala atkvæða fyrir virkjun og friðun er ekki gerólík.

Reyndar mætti standa öðru vísi að verki með því að setja fram, áður en gengið er til sjóðsatkvæða, eina hugmynd um rammaáætlun um alla virkjunar– og friðunarkosti. Síðan yrði leitað eftir breytingartillögum og þær bornar upp, eins og lýst er hér að framan við gerð fjárhagsáætlunar. Þá mætti líka standa þannig að málum að taka nokkra kosti virkjunar og friðunar fyrir og setja þá fram sem upphaf að rammaáætlun. Síðan yrði borin fram tillaga um nýtt svæði virkjunar og friðunar og haldið áfram, eins og lýst hefur verið við gerð fjárhagsáætlunar, meðal annars með því að bera upp breytingartillögur við það, sem upphaflega var sett fram.

<< Til baka