Lýðræðissetrið ehf. - Fyrir hverja er póstáritun?

Merki Lýðræðissetursins

Lýðræðissetrið Demokratisentret Democracy Center

Rannsókn og ráðgjöf um aðferðir við atkvæðagreiðslu og kosningu

Morgunblaðið birtir öðru hverju nöfn fólks erlendis, sem vill eignast pennavini hér á landi, og fylgir nafn með póstáritun og síðan nafn landsins á ensku. Í því kemur fram algengur misskilningur um það, fyrir hvern póstáritunin er. Póstfangið er vitaskuld fyrir starfsfólk póstsins í landi viðtakanda, en nafn landsins er fyrir starfsfólk póstsins í landi sendanda. Þess vegna stendur á bréfi til Íslands frá Frakklandi Islande, enda heitir landið svo á frönsku, Island á bréfi frá Danmörku og Iceland á bréfi frá Kanada, en aldrei Ísland.

Það er líklegt, að þeir, sem senda blaðinu ósk um að komast á pennavinalista þess, semji hana flestir á ensku, og þá er eðlilegt, að þeir skrifi nafn lands síns á ensku, en þessu ætti blaðið að breyta í íslenskt nafn og bréfritarinn sömuleiðis, þegar hann sendir bréf frá Íslandi.

Það er eðlilegt í bréfi íslenskrar stofnunar að nefna hana á sama máli og bréfið er samið á. Það nafn á samt ekki við á póstáritun hennar. Hún er fyrir starfsfólk póstsins, og það á ekki að þurfa að kunna nöfn íslenskra stofnana á hinum ýmsu tungumálum.

Væri ekki ráð að setja ábendingar um þetta í símaskrána?

Morgunblaðinu (Velvakandi) 19. febrúar 1991