Yfirskrift fréttar blaðsins 6. þ. m. um að Miðneshreppur hafi orðið að Sandgerðisbæ var „Sandgerði heitir nú Sandgerðisbær“. Í því kemur fram sá þráláti misskilningur, að heiti sveitarfélags sé heiti byggðarlags. Slíkur misskilningur varð þó ekki þegar Keflavíkurhreppur varð að Keflavíkurbæ fyrir rúmum 40 árum, svo að tekið sé nálægt dæmi, því að Keflavík heitir nú Keflavík. Sömuleiðis heitir Borgarnes enn Borgarnes, þótt Borgarneshreppur hafi nýlega orðið að Borgarnesbæ, og Stykkishólmur heitir enn svo, þótt nafn sveitarfélagsins sé Stykkishólmsbær. Elsta dæmið í þéttbýli um að ekki sé gerður greinarmunur á nafni sveitarfélags og byggðarlags ætla ég að sé frá Norðfirði. Þegar Neshreppur varð að bæjarfélagi, var það illu heilli nefnt Neskaupstaður. Sem betur fer viðhafa seyðfirðingar eða eskfirðingar ekki þessa vitleysu. Þeir eiga heima á Seyðisfirði og Eskifirði, og sveitarfélögin þar eru Seyðisfjarðarbær og Eskifjarðarbær. Síðan sitja norðfirðingar uppi með það í munni ýmissa fréttamanna og annarra sem í útvarp tala að vera sagðir eiga heima á Neskaupstað.
Morgunblaðinu (Velvakandi), 12. desember 1990