Í spurningaþætti framhaldsskóla á Rás 2 var spurt um fylki í suðurríkjum Bandaríkjanna. Fréttamaður Útvarpsins þar vestra talar oft um fylki Bandaríkjanna. Hvers vegna talar fólkið þá ekki líka um Bandafylkin? Ég ætla, að það telji, að það, sem þar heitir ríki, sé í reynd ekki ríki, og því telji það lýsa málinu betur að tala um fylki. Þetta er ekki rétt skilið. Ríki þessi eru að vísu ekki fullvalda, enda gerir orðalagið fullvalda ríki ráð fyrir því, að svo sé ekki alltaf. Með bandalagi færðu þau hluta af valdi sínu til alríkisstjórnar. Öðru máli gegnir um fylki, t. a. m. í Noregi. Þar hefur ríkisvaldið fært hluta af valdi sínu til fylkjanna og getur tekið það aftur til sín hvenær sem er. Í þessu efni tel ég rétt að nota þá einkunn sem viðkomandi velur sér. Ríki er kallað lýðveldi fyrir það eitt, að fyrir því er forseti, en ekki konungur, þótt umdeilanlegt kunni að vera, að lýðurinn (almenningur) hafi þar nokkur völd. Þess vegna er líka rétt að tala um ríkið Tennessee í suðurríkjum Bandaríkjanna, meðan stjórnvöld í Tennessee kalla svo, hversu þröngt sem þau kunna að starfa undir alríkisstjórninni í Washington.

Morgunblaðinu (Íslenskt mál, 635. þáttur), 4. apríl 1992