Sæbjörn Valdimarsson lauk ritdeilu um örnefni á Hellnum 23. f. m. með bréfi til blaðsins, þar sem hann beinir þeirri spurningu til stjórnvalda, hvort ekki sé ráð að lögvernda örnefni. Á Hellnum stendur svo á, að aðkomufólkið, sem beitti sér fyrir brenglun örnefna, lætur sér sérstaklega annt um andleg verðmæti, eins og kunnugt er. Ég vil því ætla eftir rækilegan rökstuðning Sæbjörns, að það muni sýna menningararfinum á Hellnum þá virðingu að leiðrétta misgerðir sínar. Guðrún G. Bergmann á Hellnum varð til varnar örnefnabreytingunni í blaðinu 12. desember (Örnefni undir Jökli). Þar nefnir hún til sögunnar ýmist Hellnabúa eða Hellnamenn, en fylgir ekki málvenju að kalla fólkið á Hellnum hellnara. Þótt ekki sé ég snæfellingur, leyfi ég mér að benda á, að á Snæfellsnesi er sérstök venja að kenna fólk við byggðarlög. Þannig kallast fólkið í Stykkishólmi hólmarar, í Ólafsvík eru ólsarar, í Rifi rifsarar, á Hellissandi sandarar, á Gufuskálum gufsarar, á Hellnum hellnarar og á Arnarstapa staparar. Ég tek undir, þegar Sæbjörn brýnir fólk á að gæta menningararfsins. Það á ekki síður við um málvenju af þessu tagi en um örnefni. Að þessu mættu nýir hellnarar gæta.

Morgunblaðinu 23. janúar 1999 (Bréf til blaðsins)