Grænland kvað hafa hlotið nafnið til þess að heita vel. En hvað um Ísland? Frá því sagði í blöðum, að eiginkona sendiherra Íslands í Bandaríkjum Ameríku kenndi fólki í höfuðborginni að nefna landið Island, en ekki Iceland, og hefði orðið svo ágengt, að blaðamaður varð fyrir því að vera leiðréttur þar, þegar hann kvaðst á máli þarlendra vera frá Iceland. Konan hefði verk að vinna hér, þar sem menn keppast nú við að halda ísnum fram með fyrirtækjanöfnum eins og Icebirds og Icelandair, og er jafnvel farið að nota í auglýsingum, sem ætlaðar eru íslendingum. Við það er að etja vestra í slíkri kynningu, að enska orðið um eyland er skrifað eins, island, borið fram æland. Málfræðingur minn segir mér, að s hafi komið í stafgerð orðsins fyrir misskilning, menn hafi tengt það latneska orðinu insula og haft s þaðan. Nú mun það þykja óðs manns æði að ætla að fá breytt stafsetningu í ensku og fá enska til að fella s úr orðinu. Þó er þess að gæta, að is er nú notað um landið í netföngum og vefföngum og því viðurkennt um allan heim og svo er einnig um íslenskar póststöðvar, að framan við nafn þeirra á að setja IS- á bréf frá útlöndum. Stjórnvöld hafa þar ástæðu til að koma vitinu fyrir enska heiminn. Þess má minnast, að þjóðverjar kalla landið Island, en ekki Eisland, eins og hefði legið vel við og verið í samræmi við það, sem enskir gera. Enn er þess að geta, að Kolbeinn Þorleifsson, margfróður maður, hefur fært rök að því, að is í nafni landsins sé ekki ís, heldur tákni nafnið nánast guðsland, enda sé is víða um lönd í örnefnum, og raunar síst á Íslandi, og tákni það, sem er guðs. Kolbeinn hefur skýrt þetta í nýlegu riti sínu, Is og Skanda. Goðsögufræðingur minn telur rök hans merk. Málfræðingur minn er á annarri skoðun, en ég er ekki viss um, að málfræðin hafi lögsögu hér umfram goðsögufræðina.
Morgunblaðinu 14. september 1999 (Bréf til blaðsins)