Vitaskuld heita þessi glæsilegu fjöll ekki svo, heldur Arnarfell hið mikla og Snæfell (eystra), og svo er líka Snæfellsjökull vestra, en enginn Snæfjallsjökull. Það reynist vera svo í fjallsnöfnum, þegar fjall eða fell felst í nafninu, að meiri háttar fjöll bera fell í því. Sunnlenskur kunningi minn benti mér á, að fjallsnöfn á Suðurlandi, sem orðið fjall felst í, væru öll kennd við jörð, svo sem Laugarvatnsfjall, Efstadalsfjall og Hestfjall. Efstadalsfjall er þá fjalllendi jarðarinnar Efstadals, Laugarvatnsfjall fjalllendi jarðarinnar Laugarvatns, Hestfjall fjalllendi jarðarinnar Hests o. s. frv., en hins vegar er Bláfell, Bjólfell, Vörðufell og nokkur Búrfell. Undantekning er Ingólfsfjall, þótt sunnlendingur fari á fjall (fjallmaður) — það, sem kallað er að fara í leitir eða göngur annars staðar á landinu — er eins víst, að hann eigi aldrei að fara upp á fjall. Orðalagið ‘fyrir austan fjall’ hér í Reykjavík má skilja í þessu ljósi. þá er ekki átt við neitt fjall, sem menn geta myndað, heldur fjalllendið milli Innnesja og Ölfuss. Þegar leitað er út fyrir Suðurland, reynast hins vegar vera til fjallsnöfn með fjalli í nafninu, án þess að um sé að ræða fjalllendi jarðar. þegar að er gáð, sýnist þar einnig um að ræða andstæðu við láglendið, sem örnefnið lýsir. Þannig er Víðidalsfjall í Húnavatnssýslu fjalllendi láglendisins Víðidals og Vatnsnesfjall á næstu grösum sömuleiðis, en í Skagafirði Tungufjall í Blönduhlíð, fjalllendi tungu milli tveggja áa, sem sveitarmenn varðar mest um vegna nytja af henni, og fjallið kennt við hana. Nokkur dæmi eru um fjall í nafni, þar sem fyrri liður er mannsnafn, en þá virðist það fjall vera hluti af fjalllendi með ýmsum öðrum fjallsnöfnum. Andstæða við þessi heiti er Bláfjall í Mývatnssveit, hátt fjall nokkru sunnan við Hverfell (sbr. nýlega kortabók Máls og menningar), jafnhátt Bláfelli syðra, og líka stapi.

Morgunblaðinu 9. ágúst 2000 (Bréf til blaðsins)