Æskilegt er, að skýringar, sem fylgja fréttum, útbreiði ekki villandi hugmyndir. Svo þykir mér samt iðulega vera í slysafréttum. Þar er áberandi að kenna slysstaðinn við næsta þéttbýli, þó að slysið tengist þéttbýlinu ekki neitt. Af því styrkist sú ranghugmynd, að hætturnar séu mestar í þéttbýli, en staðreyndin er sú, að fréttnæmustu slysin eru frekar utan þéttbýlis.
Nokkur dæmi. Sagt var frá flugslysi við Höfn í Hornafirði. Það vakti þá hugmynd, að slysið hefði orðið nærri mannvirkjum og mannaferð á Höfn, en það varð reyndar uppi í fjalli og ekki nær Höfn en hverjum öðrum stað í Hornafirði. Höfn kom því málinu ekki við, en eftir kann að hafa setið beygur vegna fólks á Höfn. Eins er þótt sagt sé frá öðrum atvikum og málum í Austur-Skaftafellssýslu en slysum, þá er Höfn á heila fréttamannanna. Talað var um veginn um Hvalnesskriður austan Hafnar í Hornafirði. Hvalnesskriður eru fyrir austan Lón, en Lón er fyrir austan Hornafjörð, og í Hornafirði er reyndar Höfn, eins og margt annað, og kemur ekki Hvalnesskriðum við. Enn versnaði, þegar sagt var frá fornleifum í Nesjum "í nágrenni Hornafjarðar", en Nes eru reyndar sveit í Hornafirði
Af sama tagi og fréttin af flugslysinu í Hornafirði var frétt um banaslys í akstri í nánd við Varmahlíð í Skagafirði. Það kallaði fram mynd af hinum fjölförnu vegamótum þar, en slysið varð reyndar langt frammi í Tungusveit, og tengdist umferðinni við Varmahlíð ekki á neinn hátt. Eftir situr tilfinning um Varmahlíð sem varasaman stað. Sagt var frá bílveltu fyrir utan Hólmavík. Veltan var reyndar á Ennishálsi, sem er minnst 40 km frá Hólmavík, og tengdist umferð um Hólmavík ekki á neitt hátt. Sagt var frá útafakstri á sveitavegi rétt fyrir austan Selfoss. Það vekur hugmynd um útjaðar Selfoss, en óhappið reyndist vera á Ölvesholtsvegi í Hraungerðishreppi. Enn eitt dæmi um voðastaðinn Selfoss er frétt um íkveikju "í sumarbústað nærri Selfossi", en hann var reyndar uppi í Hreppum.
Fréttamenn eins og útlendingar
Sama tilhneiging, að hafa þéttbýlið undir sjónarhorninu, þótt atburðurinn sé fjarri því, kemur fram í frásögnum erlendra manna. Þannig sagði bandarískur listamaður í Lesbók Morgunblaðsins frá laugum á Íslandi. Laugin í Reykjarfirði í Arnarfirði varð í frásögn hans í dal suður af Bíldudal, Krosslaug (trúlega Krossneslaug) rís upp úr jörðinni fyrir norðan Hólmavík (hún er reyndar í Trékyllisvík), og þá er sagt frá Laugum norður af Búðardal. Undarlega algengt er að nefna ekki Dalina, heldur miða við Búðardal. "Eldur kom upp í íbúðarhúsi að bænum Dunkárbakka, nálægt Búðardal, rétt fyrir hádegi í gær." Dunkárbakki er í Hörðudal, og er um tvo hreppa forna að fara á leið í Búðardal.
Þorpsækni og borgsækni kemur líka fram í erlendum fréttum. Sagt var frá gistihúsbruna skammt frá Brisbane í Ástralíu; hann var reyndar 300 km frá Brisbane, og var það því líkt og frétt væri um bruna skammt frá Reykjavík, þegar eldur kæmi upp í gistihúsi á Akureyri. Bruninn var í Queenslandi, það var eðlileg staðarkynning. Sagt var frá því, að börn hefðu verið tekin í gíslingu í smábæ nærri Stafangri, en þar heitir reyndar Hjelmeland og óviðkomandi Stafangri og torsótt á milli; eðlilegt hefði verið að segja Hjelmeland á Rogalandi. Sagt var frá manni, sem strútur réðst á í bænum Bygland suðvestur af Osló. Það er rétt skoðað undir sjónarhorni flugmanns, en annars út í hött að tengja Bygland á Ögðum við Osló, og ekki kalla norðmenn Bygland bæ. Meira frá Noregi. Útvarpið talaði um herstöð í Bardufoss nærri Tromsö í Norður-Noregi. Nær hefði verið að segja Bardufoss í Troms, en í Troms er líka Tromsö. Þetta var í hádegisfrétt, en um kvöldið sagði Sjónvarpið sömu frétt. Þá var tekið fram, að staðurinn væri 1200 km fyrir norðan Osló, en afstaðan til Oslóar kom fréttinni ekki við.
Flóinn þurkaður út
Ég nefndi áðan Selfoss og útafakstur í Flóanum. Flóinn er ekki aðeins nærri þurkaður upp með skurðum, heldur líka þurkaður út í málinu, en í frásögnum af því, sem þar er, er miðað við Selfoss á einn eða annan veg. Í veiðifréttum var þannig sagt, að menn hefðu rennt á Volasvæðinu "fyrir austan Selfoss". Ég hygg, að veiðimenn, þegar þeir eru að veiðum í miðjum Flóanum, vilji sem minnst vita af Selfossi. Enn fjær Selfossi en Voli og austar er Þingborg, en í frásögn af starfsemi þar sagði Morgunblaðið Þingborg rétt utan við Selfoss. Síðan varð fólkið í Litlu-Sandvík fyrir því í langri kynningu Morgunblaðsins (Fjórar kynslóðir undir sama þaki), að þar kom hvergi fram, að það ætti heima í Flóanum. Á sömu bókina var dagskrárkynning Útvarpsins um flugstöðina "í Kaldaðarnesi nærri Selfossi", sem sagt Kaldaðarnesi í Flóa.
Mýrdalur er annað byggðarlag, sem hverfur í skugga þorps í frásögnum. Dæmigerð frásögn af atburðum á bæ í Mýrdal er "í Fagradal, sem er skammt austan Víkur í Mýrdal". Fjarlægðin frá þorpinu Vík, sem líka er í Mýrdal, kom sögunni ekki við, svo að blátt áfram var um að ræða Fagradal í Mýrdal. Sjónvarpið sagði frá drukknun í fjörunni í Reynishverfi við Vík í Mýrdal, en á milli Víkur og Reynishverfis er fjall og ófært á milli sjávarmegin, og drukknunin ekki tengd Vík á nokkurn hátt. Útvarpið sagði frá því eftir flóð í Skaftá, að flæddi á veginn fyrir austan Vík í Mýrdal. Frá Vík er fyrst yfir Mýrdalssand að fara og síðan Kúðafljót til að nálgast flóð í Skaftá. Hugsanlega eru fréttamenn gjarna undir áhrifum löggæslumanna eða Vegagerðarmanna sem heimildarmanna, sem segja frá undir sjónarhorni stöðva sinna; í þessu dæmi eru löggæslustöðin og bækistöð Vegagerðar ríkisins báðar í Vík.
Morgunblaðinu 22. desember 2000 (Bréf til blaðsins)