Þegar Selfossbær, Sandvíkurhreppur, Eyrarbakkahreppur og Stokkseyrarhreppur sameinuðust, var óskað eftir því, að nýja sveitarfélagið fengi að heita Árborg. Ég hef það fyrir satt, að að kröfu Reykjavíkurborgar hafi nafnið orðið Sveitarfélagið Árborg, sem hafi þannig viljað verja sérstöðu sína með borgarheiti. Þess vegna er hástafur á orðinu sveitarfélag. Í bréfi mínu í Morgunblaðinu 11. þessa mánaðar, Heitin sveitarfélag, bær, hreppur, byggð, hefur hástaf í handriti mínu verið breytt í lágstaf í nokkrum slíkum dæmum, og þar með verið spillt skilningi. Eftirfarandi setning þar er rétt svona: Því eru Öræfi í Sveitarfélaginu Hornafirði, Hjaltadalur í Sveitarfélaginu Skagafirði, Stokkseyri í Sveitarfélaginu Árborg og Selvogur í Sveitarfélaginu Ölfusi.

Morgunblaðinu 17. október 2001 (Bréf til blaðsins)