Hér á landi hefur þess gætt allt frá miðri 19. öld að tala ýmist um fylki eða ríki í Bandaríkjum Ameríku. Skynja má í fréttum Sjónvarps, hvernig togast er á um þetta þar á bæ. Þannig getur annað orðið verið í inngangi fréttar eða í fréttayfirlitinu, en hitt í sjálfri frásögninni, sem annar hefur þá samið. Forsetakosningin vestra í nóvember getur skýrt málið. Margt þótti þar skrýtið og þó mest það, að ekki þætti sjálfsagt að telja öll atkvæðin. Það vakti umtal, að kjörmenn hvers ríkis skyldu allir vera stuðningsmenn annars aðalframbjóðandans, enda þótt nærri lægi, að stuðningsmenn hins fengju jafnmörg atkvæði, en það er einmitt eitt af því, sem fylgir ríki, að fulltrúar þess tala einum rómi út á við. Þannig verður atkvæði Íslands óskipt á alþjóðlegum vettvangi, hvernig sem háttað er stuðningi við stjórn ríkisins á Alþingi. Þetta á hins vegar ekki við um Norðurlandaráð, enda er það samtök þinga, en ekki ríkja. Fyrir nokkrum árum ræddi ég spurninguna um orðin ríki og fylki í Bandaríkjum Ameríku við kunningja minn blaðamann. Hann sagði mér, að ritstjórnin hefði mælt fyrir að kalla þessa hluta Bandaríkjanna fylki, annað gæti valdið misskilningi. Mér sýnist þvert á móti, að það geti valdið misskilningi að tala um fylki og leitt hugann að sýslum, sem oft var líka sagt frá í sambandi við atkvæðatalninguna vestra. Það tíðkast mér vitanlega ekki í öðrum tungumálum að kalla ríkin þar vestra fylki.
Morgunblaðinu 24. febrúar 2001 (Bréf til blaðsins)