Áður fyrr voru bæjarfógetar í kaupstöðum, en utan þeirra sýslumenn. Nú eru hins vegar alls staðar sýslumenn. Það var ákveðið, þegar stefnt var að sams konar umboðsvaldi um allt land, að hafa sama heiti alls staðar. Þess vegna er nú sýslumaður í Reykjavík. Áður var munur á réttarstöðu hreppsfélags og bæjarfélags, en með lögum 1986 fengu öll sveitarfélög sömu réttarstöðu. Við sams konar breytingu á Norðurlöndum fengu öll sveitarfélög heitið kommun/kommune. Þvert á móti því hafa heiti sveitarfélaga hér á landi orðið fjölbreyttari. Eftirfarandi dæmi sýna fjölbreytnina: Snæfellsbær, Bessastaðahreppur, Vesturbyggð, Seltjarnarneskaupstaður, Húnaþing vestra, Eyjafjarðarsveit, Norður-Hérað, Sveitarfélagið Hornafjörður, Reykjavíkurborg, Sveitarfélagið Árborg.
Það var fyrir atbeina Sigurðar Líndals lagaprófessors, að sýsluheitið var látið gilda um allt land. Sigurður birti grein í Skírni árið 1989 til varnar hreppsnafninu (Vörn fyrir hreppa). Þar rekur hann, hversu fjölbreytileg heiti séu höfð um sveitarfélag, enda þótt sveitarfélögin séu orðin einnar gerðar. Vörn hans hefur ekki verið sinnt.
Þegar hreppur kemst upp í þúsund íbúa, hefur hann heimild til að kalla sig bæ. Þannig hafa orðið til nokkur ný nöfn. Þess vegna er farið að segja það í bæ, sem er langt frá bæ. Þannig er Arnarstapi í bæ, Snæfellsbæ. Þá hefur sameining sveitarfélaga oft leitt til nafngiftar. Í þessu efni er smekkur misjafn. Um smekk verður ekki deilt, en sá hængur er á sumum nýju nafnanna, að ókunnugur sér ekki af nafninu, um hvers konar fyrirbæri sé að ræða. Ekki er víst, að manni, sem fær bréf frá "þingi", sé ljóst, að það sé sama fyrirbæri og "borg", sem sendir syni hans bréf, að "hérað", sem auglýsir starfsstöðu, sé sama stjórnvald og "hreppur", né að "byggð", sem býður út verk, sé sama fyrirbæri og "bær", sem rekur hitaveitu.
Komið hefur til greina að hafa orðið sveitarfélag alltaf í heitinu, líkt og hlutafélag er í heiti fyrirtækja með takmarkaðri ábyrgð. Þegar eru nokkur dæmi um slík heiti. Því eru Öræfi í Sveitarfélaginu Hornafirði, Hjaltadalur í Sveitarfélaginu Skagafirði, Stokkseyri í Sveitarfélaginu Árborg og Selvogur í Sveitarfélaginu Ölfusi. Einnig hefur þótt athugandi, að allt héti byggð (nú eru sex dæmi þess). Þess er þá að gæta, að stjórnsýslan nær einnig til óbyggða og eyðibyggða. Ef við Skjálfanda héti Húsavíkurbyggð, yrði sagt, að Flatey í Húsavíkurbyggð væri óbyggð, Askja, sem er í óbyggðum, væri í byggð, hvað sem hún mundi heita, og eyðibyggð Hornstranda yrði í Ísafjarðarbyggð.
Hér verður athugað, hvernig færi á því í samræmi við skipulagsbreytingu sveitarfélaganna 1986 að hafa aðeins eitt heiti, hrepp, um það, sem í lögunum er aðeins eitt. Hreppur er lipurt eins og sýsla, en líkt og var með sýslunafnið, og reyndar enn frekar, gætir tilfinninga til hreppsheitisins. Ætli ýmsum þyki hreppur í heitinu ekki eitthvað minna en bær, byggð, þing, borg eða hérað? Það er tilfinning, sem nú styðst við raunverulegan mun, en hún hefði ekkert að styðjast við, ef alls staðar héti hreppur, Reykjavíkurhreppur og Mjóafjarðarhreppur og allt þar á milli í stærð, og myndi því hverfa, fyrr en varði. Tilfinningin, sem áður gætti, að sýslumaður væri fyrir sveitirnar, hefur horfið, þar sem staða sýslumanns er alls staðar hin sama.
Hér er um að ræða heiti á stjórnsýslu og svæði hennar. Stundum er með sama orði átt jöfnum höndum við stjórnsýsluna, byggðarlagið og svæðið, en borg, bær eða hreppur fellt úr nafninu. Þá er íbúar Reykjavíkur sama sem íbúar Reykjavíkurborgar, en menn fara ekki á skrifstofu Reykjavíkur, heldur á skrifstofu Reykjavíkurborgar. Á sama hátt er talað um íbúa á Akranesi sem íbúa Akranesbæjar, en þeir njóta ekki þjónustu Akraness, heldur Akranesbæjar. Atvinnustarfsemi í Hafnarfirði merkir atvinnurekstur í umdæmi Hafnarfjarðarkaupstaðar, þar með talin Krýsuvík, sem er alllangt frá bænum. Á þennan hátt verður hins vegar ekki talað um Ísafjörð, Skagafjörð né Hornafjörð, eins og nafngiftir stjórnsýslunnar hafa ráðist þar.
Það var hefð að kenna stjórnsýsluna við staðinn, þar sem hún átti setur, sem áður fyrr var þingstaðurinn, svo sem Grýtubakkahreppur, eða við svæðið, svo sem Fljótshlíðarhreppur. Hér á eftir má sjá ný nöfn með hrepp í heitinu, þar sem það er ekki nú, og hefðinni fylgt í nafngift. Stundum getur átt við að hafa hluta úr örnefni í heitinu, þótt ekki sé hann svæði né sé eða hafi verið stjórnarsetur (Patrekshreppur, Snæfellshreppur, Hörgárhreppur, Jökulsárhreppur).
Þótt allt landið og allir landsmenn skipuðust þannig í hreppa, yrði eftir sem áður talað um borgina Reykjavík, um bæina Selfoss og Seyðisfjörð og um sveitirnar Fljótshlíð og Bárðardal, svo að dæmi séu tekin.
Hreppanafnaskrá: Grindavíkurhreppur, Keflavíkurhreppur, Sandgerðishreppur eða Miðneshreppur, Hafnarfjarðarhreppur, Garðahreppur, Kópavogshreppur, Reykjavíkurhreppur, Seltjarnarneshreppur, Mosfellshreppur, Akraneshreppur, Reykholtshreppur, Borgarneshreppur, Borgarhreppur eða Mýrahreppur, Snæfellshreppur, Eyrarhreppur eða Grundarfjarðarhreppur, Helgafellshreppur, Stykkishólmshreppur, Dalahreppur eða Búðardalshreppur, Patrekshreppur, Ísafjarðarhreppur, Hvammstangahreppur, Blönduóshreppur, Sauðárkrókshreppur, Siglufjarðarhreppur, Ólafsfjarðarhreppur, Dalvíkurhreppur, Hörgárhreppur, Akureyrarhreppur, Laugalandshreppur eða Eyjafjarðarhreppur, Húsavíkurhreppur, Jökulsárhreppur eða Brúaráshreppur, Egilsstaðahreppur, Seyðisfjarðarhreppur, Neshreppur, Hafnarhreppur, Vestmannaeyjahreppur, Selfosshreppur, Þorlákshafnarhreppur og Hveragerðishreppur
Þegar fjallað er um tilgreinda staði, kallast stjórn sveitarfélags nú ýmist hreppsnefnd, sveitarstjórn, bæjarstjórn eða borgarstjórn. Reyndar er algengt, þegar fjallað er um hrepp, að segja stjórn sveitarfélagsins, má vera til að forðast orðið hreppur. Ef alls staðar héti hreppur, mundi alls staðar heita hreppstjórn og hreppsráð, og tilfinningamunur, sem nú tengist ólíkum heitum, hyrfi.
Morgunblaðinu 11. október 2001 (Bréf til blaðsins)