Reykjanes á Reykjanesskaga
Þegar sagt er í veðurfregnum, að djúp og kröpp lægð sé skammt undan Reykjanesi, vita sjómenn, hvað átt er við, en í máli fréttamanna og ýmissa, sem vilja þó fræða um landið, er Reykjanes alloft allur Reykjanesskagi. Ef menn vilja virða mál sjómanna og hefðbundið mál suðurnesjamanna, segja þeir ekki, að Keflavík sé á Reykjanesi, heldur á Suðurnesjum, og ekki, að Keilir sé á Reykjanesi, heldur á Reykjanesskaga. Ég kom eitt sinn á bæ á Suðurlandi og var settur við borð með ungri konu af næsta bæ. Hún kvaðst vera frá Reykjanesi. Þetta reyndist vera nákvæm kynning; hún var nefnilega dóttir vitavarðarhjóna á Reykjanesi. Þar undan er Reykjanesröst, og ekkert lamb að leika við fyrir sjófarendur.

Reykjanes í merkingunni Reykjanesskagi fór að tíðkast, eftir að Reykjaneskjördæmi varð til (það var árið 1959). Þá varð svæði þess umdæmi ýmissar opinberrar starfsemi, einnar af annarri. Ég nefni aðeins dómsmál, þar sem heitið varð Héraðsdómur Reykjaness. Heitið Dómur Reykjaneshéraðs á betur við. Brátt heyrir Reykjaneskjördæmi sögunni til, og mætti það vera tækifæri til að virða betur málfar suðurnesjamanna í tali um Reykjanes.

Borgarfirðir
Borgarfjörður eystra táknar Borgarfjörð fyrir austan. Fyrir vestan, við Arnarfjörð, er líka Borgarfjörður, og sá þriðji með því nafni er við Faxaflóa. Ég kann ekki við orðalagið Borgarfjörður eystri. Eystri, lýsingarorðið, á við, þegar um er að ræða samliggjandi staði; til að mynda eru Eystri-Loftsstaðir og Vestri-Loftsstaðir í Flóanum. Eystra, atviksorðið, er stutt og laggott um fyrir austan og á sama hátt vestra um fyrir vestan og syðra um fyrir sunnan. Ef Borgarfirðir lægju saman, ætti við að segja Borgarfjörður eystri og Borgarfjörður vestri eða Borgarfjörður nyrðri og Borgarfjörður syðri. Þegar komið hefur fram í frétt, að um sé að ræða atburð austanlands, er gert lítið úr greind lesenda og hlustenda að bæta eystra við Borgarfjörð í frásögninni. Álftafirðir eru þrír, einn þeirra er eystra, nefnilega austanlands, og tveir eru vestra, annar á Snæfellsnesi og hinn á Vestfjörðum.

Hellisheiði eystra og Hellisheiði syðra
Hellisheiði er hér syðra, fyrir ofan Kolviðarhól og austan við Hveradali. Eystra, þ. e. a. s. austanlands, er líka Hellisheiði, milli Vopnafjarðar og Fljótsdalshéraðs, og um hana er bílvegur. Í Útvarpinu heyrði ég talað um hálku á Hellisheiði eystri, m. ö. o. á Hellisheiði eystra.

Laugarvatn, Mývatn, Þingvallavatn
Fólk á heima á Laugarvatni, en ekki á Mývatni eða Þingvallavatni. Þannig liggur í því með Laugarvatn, að það er ekki aðeins heiti á vatni, heldur líka heiti á bújörð, sem síðan hefur byggst til annarra nota, sem skólasetur og sumardvalarstaður. Líkt er um Apavatn í næstu sveit, að það er nafn á vatni og bújörð; því eiga menn heima á Apavatni. Öðru máli gegnir um Þingvallavatn; þar er aðeins um nafn á vatni að ræða. Því á enginn heima á Þingvallavatni. Sama máli gegnir um Mývatn: enginn á heima á Mývatni, en við Mývatn er byggð, og það er Mývatnssveit. Ferðaútvegsfólk, sem oft fjallar um þessa staði, mætti minnast þessa; ekki síst mætti yfirlýstur áhugi á menningartengdum ferðaútvegi verða því brýning til að sýna örnefnum virðingu. Þá mætti það, og allur almenningur, gá að því, að Þingvellir eru aðeins takmarkaður hluti þess láglendis, sem liggur að Þingvallavatni. Fólk getur átt sumarbústað í landi Kárastaða eða Gjábakka, en þá á það ekki sumarbústað á Þingvöllum, heldur við Þingvallavatn eða í Þingvallasveit.

Morgunblaðinu 15. febrúar 2002 49