Ýmsum þykir Hellisheiðarvirkjun undarlegt nafn. Um daginn mátti heyra útvarpsmann ræða við mann hjá Orkuveitu Reykjavíkur, sem á rafstöðina. Þeir höfðu þá farið um svæðið. Að lokum spyr útvarpsmaðurinn, hvernig standi á því að stöðin heiti þessu nafni, þar sem hún sé ekki á Hellisheiði, eins og vettvangsferðin hafði sýnt honum. Því var svarað, að stöðin stæði ekki á hólnum, og því hefði ekki átt við að kenna hana við Kolviðarhól. Þetta er vanhugsað. Kolviðarhóll er ekki aðeins hóll–nafnið bendir reyndar til fornrar orkunýtingar, nefnilega viðarkolagerðar–heldur lögbýli, jörð með þinglýst landamerki. Þau eru vitaskuld ekki uppi við hólinn. Það er býsna algengt, eins og hér virðist koma fram, að menn átti sig ekki á að sama nafn er á bæ og jörð. Menn áttu heima á Kolviðarhóli, og þar var gist; þá er ljóst, að átt var við bæinn, sem stóð væntanlega á hólnum. Menn geta líka rætt um örnefi og landnytjar á Kolviðarhóli, nefnilega á jörðinni Kolviðarhóli. Nýja rafstöðin er á Kolviðarhóli, Kolviðarhólsstöð. Um daginn var almenningi boðið í stöðina til kynningar, og mátti þá ganga úr skugga um, að þaðan sést Hellisheiði ekki, en skammt frá, þar sem skíðaskálinn var lengi, blasti Hellisskarð við á hinni fornu leið upp á Hellisheiði.
Morgunblaðinu, 6. nóvember 2009 45