Stjórnvöld ráða nöfnum stofnana. Þar eiga ekki við ærsl né öfugmæli. Þau eiga kost á kunnáttumönnum við nafngiftir. Auk kunnáttu þarf smekkvísi og lipra hugsun og myndugleika til að snúast við ærslanöfnum og öfugmælum. Hér verða athuguð tvö dæmi, sem víti til að varast, en ekki verður bent á, hvernig megi varast.
Útgefendur Fjölnis (1835-1847) mörkuðu viðreisnarstefnu handa þjóðinni. Einn þeirra, Tómas Sæmundsson, fór um meginland Evrópu að leita fyrirmynda. Um málrækt fylgdu þeir stefnunni frá Bessastaðaskóla, það var evrópsk stefna, að hefja þjóðtungur til vegs og virðingar. Þeir íslenskuðu orð, oftast í alvöru, en stundum í ærslum. Dæmi um það er að kalla Düsseldorf í Þýskalandi Þuslaþorp.
Tröllaskagi sem nafn á fjallabálkinum milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar er ærslakennt. Óhugsandi er, að Jónasi Hallgrímssyni, Fjölnismanni, sem ólst upp á Steinsstöðum í Öxnadal, hafi dottið í hug að telja sig alinn upp á skaga, ekki frekar en frænda sinn efnismanninn Skapta Tímóteus Stefánsson frá Völlum í Svarfaðardal. Tröllslegt merkir meðal annars ljótt. Fegurstu dalir og byggðir landsins, árið um kring, eru á þessu svæði, svo sem Svarfaðardalur, Öxnadalur, Hjaltadalur, Höfðaströnd, Fljót og Blönduhlíð, ægifögur við sólarlag, séð að vestan með Glóðafeyki í miðju. Fjarstæða er að kenna slíka fegurð við tröll. Jónas Hallgrímsson lenti í lífsháska á Nýjabæjarfjalli. Líklegt er, að honum hafi þá þótt landið tröllslegt, en það var ekki mælikvarði á hinar fögru byggðir. Tröllaskagi er því afskræmisnafn.
Nokkrir jöklar á svæðinu koma við sögu í hinni miklu bók Helga Björnssonar um jökla. Hann kennir þá aldrei við Tröllaskaga, en nú er menntaskólinn í Ólafsfirði kenndur þannig. Nafnið er ekki sæmandi. Það er lítið lýsandi, raunar villandi, að kenna við fjöll (Fjallabyggð) hreppinn, sem nær yfir firðina Ólafsfjörð og Siglufjörð og til varð við sameiningu Ólafsfjarðarkaupstaðar, áður Ólafsfjarðarhrepps, og Siglufjarðarkaupstaðar, áður Hvanneyrarhrepps. Þar hefur byggt ból ekki staðið hærra yfir sjó en nokkra tugi metra. Þetta er fjarðabyggð. Eina samfellda fjallabyggðin hér á landi hefur verið á Hólsfjöllum og á Efra-Fjalli. Þegar þessi fjarðahreppur varð til, var orðinn til hreppur á Austurlandi að nafni Fjarðabyggð. Þess vegna varð það nafn ekki notað. Það tíðkaðist að vísu áður, að hreppar væru samnefndir (Bæjarhreppur, Fellshreppur, Flateyjarhreppur, Hofshreppur, Hvammshreppur, Mýrahreppur, Saurbæjarhreppur, Skarðshreppur, Staðarhreppur), en þá var einangrun héraðanna svo mikil, að það þurfti ekki að koma að sök. Hreppsheitið Fjallabyggð er öfugmæli. Slíkar nafngiftir eiga ekki við á opinberum vettvangi. Þessi dæmi eru í löngum slóða vandræðanafna, sem tekin hafa verið upp opinberlega síðustu áratugi.
Morgunblaðinu, 20. júní 2011 17