Landmannaleið varð þjóðleið nokkra daga, þegar brúin á Múlakvísl sópaðist burt. Fréttamenn höfðu helst annað nafn á, Fjallabaksleið nyrðri, og heyrðist lýsingarorðið vera sumum erfitt í munni.

Pálmi Hannesson, náttúrufræðingur, fjallaði rækilega um Landmannaleið. Má lesa það í greinasafni hans Frá óbyggðum. Nafnið Fjallabaksvegur nyrðri varð opinbert með uppdrætti Björns Gunnlaugssonar eftir 1840. Nafni var seinheppinn með örnefni. Jónas Hallgrímsson leiðrétti margt í skrám þessa kennara síns í Bessastaðaskóla, en komst ekki fyrir allt.

Fjallabaksvegur var þjóðleið úr Skaftártungu fyrir norðan Mýrdalsjökul og Eyjafjallajökul og niður í Fljótshlíð eða á Rangárvelli. Hans er getið í Njálu, og var fjölfarinn, meðan skaftfellingar versluðu á Eyrarbakka. Mynduðust þar margir samhliða götutroðningar. Vegurinn er að baki byggðarfjalla, Eyjafjalla, það hljóta að vera fjöllin, sem hann ber nafn af. Í Skaftártungu, en málið er mönnum þar skyldast, hét það tíðast Fjallabaksvegur eða Miðvegur, en hin leiðin Norðurvegur eða Landmannaleið. Pálmi segir: Þetta síðasta nafn er fagurt, auðvelt og rétt.

Þeir eru til, sem taka mark á lærðum mönnum, sem vanda verk sín. Athugun Pálma er slíkt verk.