Maður kom til Björns í Brekkukoti, þar sem hann hefur afla sinn til sölu í miðbæ Reykjavíkur, og segir: … ég skal kaupa af þér alt sem þú hefur á börunum í dag við helmingi eða jafnvel þrisvar sinnum hærra verði en vant er, … (Brekkukotsannáll bls. 22-23). Þannig komst reykvíkingurinn að orði, en Útvarp Reykjavík bindur sig fast við orðalagið við tvisvar sinnum hærra verði. Orðalagið, sem Halldór Laxness, fæddur á Laugavegi í Reykjavík, leggur manninum í munn og Björn í Brekkukoti skildi, er ótvírætt. Faðir, sem er einn metri og áttatíu sentímetrar á hæð, er helmingi hærri en sonur hans, sem er nítíu sentímetrar; faðirinn er nefnilega helmingi sínum hærri en sonurinn. Svo vex sonurinn og er orðinn einn metri og þrjátíu og fimm sentímetrar—hefur hækkað um fjörutíu og fimm sentímetra—og er þá helmingi hærri en við fyrri mælinguna; hann er nefnilega helmingi af nítíu sentímetrum hærri.

Eftir nýliðin áramót sagði frá einhverjum ósköpum, sem gerðust milli ára. Ég veit ekki til þess, að neitt komist að til að gerast milli ára nema þá helst klukka Útvarpsins, sem slær þá tólf. Þetta orðalag, milli ára, er í fréttum, þar sem segir frá því, sem gerðist á nýliðnu ári borið saman við árið þar áður. Það fer ekki á milli mála, ef sagt er, að á nýliðnu ári hafi bílasala aukist um svo og svo mörg prósent, að samanburðurinn á við árið þar áður.

Algengt fréttaefni er samanburður á verðlagi nokkurra risaverslana (í smásölu). Þar er gjarna nefnt það, sem er hæst og lægst, og svo er sagt, að munurinn (munurinn á milli er algengt orðalag) sé svo og svo mörg prósent; það er ekki sagt, að verðið sé svo og svo mörgum prósentum lægra eða hærra hjá annarri verslunarkeðjunni. Þetta er svo erfið stærðfræði, að leggja mætti dæmið fyrir á Ólympíuleikum grunnskóla í stærðfræði. Það er ekki líklegt, að verðlaunin, sem heitið yrði, ynnust.

Morgunblaðinu, 24. mars 2012