Í vor og sumar hafa umræður um utanríkismál á Íslandi komist á nýtt stig. Þær hafa orðið að menningarbaráttu, þar sem svo virðist sem að heita má allir, sem finna til ábyrgðar gagnvart þjóðlegri íslenskri menningu, standi sameinaðir gegn íslensku ríkisstjórninni.

Hinn 13. mars s.l. sendu 60 alþingiskjósendur svohljóðandi áskorun til alþingis:

Vér undirritaðir alþingiskjósendur teljum á ýmsan hátt varhugavert, auk þess sem það er vansæmandi fyrir Íslendinga sem sjálfstæða menningarþjóð, að heimila einni erlendri þjóð að reka hér á landi sjónvarpsstöð, er nái til meirihluta landsmanna. Með stofnun og rekstri íslensks sjónvarps teljum vér, að ráðist sé í svo fjárfrekt og vandasamt fyrirtæki með örfámennri þjóð, að nauðsynlegt sé, að það mál fái að þróast í samræmi við vilja og getu þjóðarinnar, án þess að það sé knúið fram með óeðlilegum hætti. Af framangreindum ástæðum viljum vér hér með skora á háttvirt alþingi að hlutast til um, að heimild til rekstrar erlendrar sjónvarpsstöðvar á Keflavíkurflugvelli sé nú þegar bundin því skilyrði, að sjónvarp þaðan sé takmarkað við herstöðina eina."

Meðal hinna 60 eru fremstu listamenn þjóðarinnar og menningarfrömuðir, forystumenn allra helstu stéttarfélaga og formenn allra pólitískra æskulýðssamtaka. Hér skulu aðeins nefndir prófesssorarnir Alexander Jóhannesson, fyrrverandi háskólarektor, dr. Sigurður Nordal og Einar Ólafur Sveinsson, Kristján Eldjárn þjóðminjavörður, og rithöfundarnir Halldór Kiljan Laxness, Nóbelsverðlaunaskáld, og Gunnar Gunnarsson.

Hvað hafði gerst? Árið 1955 fékk ameríski herinn á Keflavíkurflugvelli leyfi til að reka sjónvarpsstöð með 50 vatta hámarksstyrkleika og með því skilyrði, að sendingunum yrði ekki beint til Reykjavíkur. Leyfisveitingin var rökstudd með því, að sjónvarpið leiddi til þess, að draga mundi úr ferðum hermanna út af vellinum, svo sem æskilegt þótti. Ári síðar hafnaði sama ríkisstjórn tilmælum um stækkun stöðvarinnar. Á þeim tíma var Kristinn Guðmundsson Framsóknarflokksmaður utanríkisráðherra.

Í apríl 1961 leyfði utanríkisráðuneytið Ameríkumönnum að fimmfalda orku sjónvarpsstöðvarinnar. Þá var jafnaðarmaðurinn Guðmundur Í. Guðmundsson utanríkisráðherra. Opinberar upplýsingar um leyfið voru ekki gefnar fyrr en í nóvember s.á., og í febrúar 1962 kom til meiri háttar umræðna um málið á alþingi. Stjórnarandstaðan gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega. Leyfisveitingin var varin með tveimur höfuðröksemdum. í fyrsta lagi væri hinn gamli sjónvarpssendir of veikur og orðinn úr sér genginn, en hins vegar ekki tök á að fá minni sendi en 250 vatta. Í öðru lagi yrði orkuaukningin eingöngu til þess, að myndir yrðu skýrari, en hins vegar yrði sendirinn ekki að neinu ráði langdrægari.

Báðar þessar röksemdir hafa reynst haldlitlar. Í World Radio and TV Handbook 1964 tv. er skýrt frá því, að ameríski herinn reki sex sjónvarpsstöðvar við Norður-Atlantshaf. Fimm þeirra eru 100 vatta og aðeins ein, í Keflavík, er 250 vatta. Í Alaska og á Kyrrahafi eru margar sjónvarpsstöðvar Bandaríkjamanna 10—100 vatta, og ein stöð í Alaska er einungis eins vatts.

Komið hefur í ljós, að móttökuskilyrði sjónvarpsins í Reykjavík eru nú jafngóð og í stórborgum Evrópu. Á síðastliðnum vetri hafa æ fleiri keypt sér sjónvarpstæki, þannig að nú er talið, að slík tæki séu á fjórða hverju heimili í Reykjavík og nágrenni. Virka daga sendir sjónvarpsstöðin í 7 ½ klukkustund, á laugardögum 14 klukkustundir og á sunnudögum 11 ½ klukkustund.

Hver er svo ástæða þess, að svo margir æruverðugir borgarar hafa sent frá sér fyrrnefnda áskorun og tekið á sig áhættu að vera kallaðir kommúnistar, einangrunarsinnar, nasistar, afturhaldsseggir og menningarsnobbar? Þar er um að ræða þjóðernislegar, menningarlegar og fjárhagslegar ástæður.

Norðmenn kannast vel við, hverja framtíð Henrik Groth bókaútgefandi telur blasa við sjálfstæðu norsku menningarlífi. Spyrja mætti, hverjar hann telji horfurnar fyrir sjálfstætt menningarlíf í landi með jafnmarga íbúa og Buskerudsfylki. Íslendingar hafa tekist á herðar það verkefni að efla þjóðlegt menningarlíf í landi með 190.000 íbúa. Ef það á að takast, er nauðsynlegt að sem allra flestir taki virkan þátt í því starfi, skrifi, máli, syngi, leiki, lesi, hugsi, kaupi bækur og málverk, fari í leikhús og á hljómleika. Svo að gripið sé til staðtölufræðinnar, kaupa Íslendingar fleiri bækur en aðrar þjóðir að tiltölu við fólksfjölda og sækja óvenjulega oft leikhús og hljómleika. Íslendingur á einnig örðugt með að halda uppi samræðum án þess að vitna til Laxness, Davíðs, Hávamála eða Vatnsenda-Rósu.

Slíkt krefst einnig fórnarlundar af hæfileikamönnunum. Laxness var fyrsti Íslendingurinn, sem gerði það að atvinnu sinni að skrifa skáldsögur á íslensku. Það bar þolanlegan árangur. Landið eignaðist smátt og smátt fjölda skálda, rithöfunda, málara, tónlistarmanna og leikara. En það er ekki og mun seint verða neitt auðsældarlíf að vera listamaður í slíku dvergríki. Ungir hæfileikamenn á sviði lista munu ætíð verða að fórna einhverju, ef þeir kjósa að setjast að á Íslandi. Sama á við um háskólaborgara. Hinn ríkjandi jafnaðarandi meðal almennings leyfir ekki einu sinni slíkan tekjumun sem sjálfsagður þykir í Noregi.

Tvennt veldur því, að ungt fólk, sem gæti brotið sér braut erlendis, vill búa á Íslandi. Ættjarðarástin ræður þar miklu um, en ekki er síður mikilvægt, að Íslendingum finnst á náttúrlegan hátt þeir eiga heima í sínu eigin landi og að þeim getur ekki til lengdar fundist þeir vera heimamenn í neinu öðru landi. Þetta stafar af því, að í bernsku og æsku hafa þeir áunnið sér tilfinningu fyrir sérstökum þjóðlegum menningarverðmætum, öðlast sérstakan hugsunarhátt og hugðarefni.

En hvað verður nú um þann æskulýð, sem elst upp við amerískt sjónvarp í heimahúsum, áður en hann lærir að lesa? Hvernig fer um málið, hugðarefnin, lífsstílinn? Hverjar verða afleiðingarnar fyrir bókaútgefendurna, rithöfundana, leikarana, kvikmyndahúsin, sem standa undir háskólanum, þjóðleikhúsinu og tónlistarskólanum, þegar mikill hluti fólksins er horfinn af hinum íslenska menningarmarkaði?

Fyrsta kastið eftir að áskorunin var send alþingi, höfðu stjórnarvöldin heldur hægt um sig, stjórnarblöðin andmæltu, án þess að taka mikið upp í sig. Hin óháða gula pressa á Íslandi er ævinlega á bandi Ameríkumanna. Ritstjóri fjármála- og stjórnarblaðsins Vísis, formaður Stúdentafélags Reykjavíkur, boðaði til fundar um íslenskt sjónvarp til þess að draga athyglina frá ameríska sjónvarpinu. Stúdentaráð Háskólans gekk hins vegar beint til verks. Á fundi, sem Stúdentaráð efndi til, hélt Þórhallur Vilmundarson prófessor ræðu, er hann reyndi síðar að fá að flytja sem erindi í ríkisútvarpið. Hið pólitíska útvarpsráð hafnaði erindinu. Í stað þess var það gefið út sérprentað.

Þórhallur minnir á, að Ísland er nú á engilsaxnesku áhrifasvæði. Undir svipuðum kringumstæðum hefur hver þjóðleg menningin á fætur annarri liðið undir lok, norræn menning í Orkneyjum og á Hjaltlandi, keltnesk menning í Skotlandi og á Írlandi. Á meginlandi Bandaríkjanna útrýmir ensk tunga öllum öðrum þjóðtungum. Hawaiíbúar eru orðnir amerískir á fáum áratugum á friðsamlegan hátt og hafa glatað sérstakri tungu sinni og þjóðlegri tilveru. Í kjölfar hins menningarlega ósigurs í Orkneyjum og á Hjaltlandi hefur siglt efnahagsleg stöðnun, á sama tíma sem Færeyjar og Ísland, er eiga sér sjálfstæða menningu, hafa blómstrað fjárhagslega.

Hann spyr, hvort allir sæmilegir Íslendingar geti ekki að athuguðu máli orðið ásáttir um, að það væri menningarhneyksli að leyfa framandi þjóð — hversu vinsamleg og æskileg samskipti sem Íslendingar ættu við hana að öðru leyti — að taka við og reka hér á landi á sína tungu almennar menningarstofnanir á borð við þjóðkirkju, skóla, þjóðleikhús eða útvarp, og alveg án tillits til þess, hversu menningarlega henni færist það úr hendi. „En hvað þá um hið áhrifaríkasta af öllu þessu: daglegt og daglangt erlent sjónvarp inni á hvers manns gafli með hvert mannsbarn frá ómálga aldri á sefjandi valdi sínu?" Og síðar segir hann: „Með því að heimila rekstur svo mikilvægs útbreiðslutækis meðal íslensks almennings er efnt til svo stórfelldra erlendra menningaráhrifa úr einni átt, að enga hliðstæðu er að finna í sögu Íslendinga né annarra sjálfstæðra menningarþjóða, svo að mér sé kunnugt. . . . Í hinni löngu sögu samskipta okkar við Dani er ekkert dæmi um, að Danir hafi fengið aðra eins aðstöðu til að hafa áhrif á Íslendinga í menningarefnum og Bandaríkjamenn hafa nú fengið."

Fullyrt var, að íslenska ríkisstjórnin hefði tekið til alvarlegrar umræðu að vísa á bug hinu ameríska sjónvarpi. En sú varð ekki raunin.

Íslenskir listamenn héldu listamannaþing í vor til þess að gera upp reikninga sína, hverju hefði verið afkastað síðustu árin. Laxness hélt aðalhátíðarræðuna og ræddi menningarskilyrðin í Hellas fornaldar og á Íslandi þjóðveldisaldar. En hann vék einnig að máli dagsins. Hann sagði, að Ísland hefði lifað þá tíð, er menningin var ekki eingöngu fagrar orðræður. Um siðaskiptin áttum við kost á því eins og Norðmenn að fá biblíuna ókeypis á dönsku. En það hvarflaði að engum að þiggja slíkt. Þó að Íslendingar væru fátækir, höfðu þeir ekki náð því „þróunarstigi" að telja það íslensk mannréttindi að taka við danskri biblíu ókeypis. Þeir seldu ekki frumburðarrétt sinn sem bókmenntaþjóð fyrir einn baunadisk.

Nokkrum dögum síðar, á þjóðhátíðardaginn 17. júní, hélt forsætisráðherrann, Bjarni Benediktsson, hátíðarræðu og beindi orðum sínum greinilega að Laxness. Hann sagði, að þeir, sem vildu loka ameríska sjónvarpinu fyrir íslenskum áhorfendum, væru einangrunarsinnar, sem vildu banna fólki að njóta reykjarins af þeim réttum, sem þeir sjálfir hefðu getað glatt sig við úti í hinum stóra heimi.

Og það er út af fyrir sig satt og rétt, að sextíumenningarnir eru engir heimalningar. Margir þeirra hafa þroskað þjóðernisvitund sína erlendis í átökum milli heimsmenningarinnar og þeirrar þjóðlegu menningar, sem þeir tileinkuðu sér í bernsku og æsku, og þeir hafa fært okkur margt hið besta úr heimsmenningunni. Þar að auki hafa þeir kynnst af eigin raun áhrifum fjölmiðlunartækja nútímans.

Síðustu atburðir í sjónvarpsmálinu varpa ef til vill skýrara ljósi á málið en allt annað. Tveir Norðurlandabúar komu til Íslands í tilefni tuttugu ára afmælis lýðveldisins í ár, dr. Áke Ohlmarks og Norðmaðurinn Bjarne Steinsvik, bókaútgefandi í Stokkhólmi. Steinsvik gefur út nú í sumar fyrstu heildarútgáfu Íslendingasagna á erlendu máli. Dr. Ohlmarks hefur þýtt sögurnar. Þeir höfðu með sér tvö eintök af ritverkinu, gáfu annað forseta Íslands og hitt Landsbókasafninu.

Blað Framsóknarflokksins, Tíminn, átti viðtal við þá félaga. Steinsvik lét svo ummælt um sjónvarpsmálið: „Mér finnst íslensk menning svo verðmæt, að það að setja hér upp amerískt sjónvarp, áður en komið er á fót íslenskt, sé allt of mikil áhætta fyrir tungu og menningarverðmæti landsins. . . . Þetta ætti auðvitað ekki að koma fyrir í nokkru landi, og að þetta skuli hafa gerst í því landi Evrópu, sem mest og best hefur varðveitt tungu sína um aldaraðir, það er ískyggilegast af öllu."

Dr. Ohlmarks vék einnig að ameríska sjónvarpinu: „Já, það megið þér bóka, að þetta dátasjónvarp hér á Íslandi er djöfulsins forsmán. Þetta land á betra skilið og þessi þjóð.”

Forsætisráðherra svaraði í hinni vikulegu sunnudagsprédikun sinni í Morgunblaðinu. Hann skrifar þar um „svokallaða sænska „menntamenn'" og sænska „oflátunga", og segir: „En um leið og Íslendingar heyra hollráð hinna sænsku uppskafninga, rifjast upp fyrir þeim, að ef Íslendingar hefðu ætíð fylgt ráðum þeirra menningarfrömuða í Svíþjóð, sem tíðræddast hafa látið sér um íslensk mál, þá mundi Ísland enn vera dönsk hjálenda.”

Þessi reiðilestur hefur vakið mikla athygli. Blaðið Frjáls þjóð skrifar um atburðinn: „Trúlegt er, að glöggir sálfræðingar eigi ekki torvelt með að skýra það atvik, er Bjarni Benediktsson forsætisráðherra missir stjórn á skapi sínu af fyrrgreindu tilefni. Íslendingasögur í viðhafnarútgáfu annars vegar — amerískt dátasjónvarp hins vegar: Þetta tvennt nefnt í sömu andránni, dómur felldur um hvort tveggja af glöggskyggnum gestum! Var annað líklegra til að reita forsætisráðherrann til reiði, eins og á stendur?”

Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn hafa nú stjórnað Íslandi í fimm ár. Í efnahagsmálum hafa þeir haft stefnu Markaðsbandalagsins að fyrirmynd. Forsætisráðherrann hefur barist ákaft fyrir ákveðnum grundvallarstefnumálum, sem hann hefur ekki viljað hvika frá, m.a. banni gegn vísitöluuppbót á laun og að öfl utan alþingis megi ekki hafa afskipti af stefnunni í efnahagsmálum. Á síðastliðnum vetri varð hann að hverfa frá þessari stefnu samkvæmt kröfu Alþýðubandalagsins, sem stjórnarandstaðan ræður.

Þegar hins vegar er um að ræða menningu þjóðarinnar, er hvergi slakað á klónni. Margir spyrja nú, hvort heldur það sé skapgerðarveila stjórnmálaleiðtoganna, sem veldur þrákelkninni, eða ákveðin valdamikil öfl í landinu hafi gert bandalag við erlent vald og taki á sig þá áhættu að fórna íslenskri menningu í þeirri valdabaráttu. Norðmenn vita vel, að slíkt hefur gerst fyrr í þjóðarsögu.

Slíkar landráðahugmyndir eru ekki ótíðar á okkar tímum, og af eðlilegum ástæðum er örðugt að sanna réttmæti þeirra. Hinn skapheiti fyrrverandi kommúnisti, andkommúnistinn Benjamín Eiríksson, ver ameríska sjónvarpið í grein í Morgunblaðinu 2. jún. Dr. Benjamín Eiríksson stýrir þeim ríkisbanka, sem m.a. ræður yfir hinum amerísku fjárframlögum, sem Ísland hlýtur. Hann skrifar: „Ég hefi nokkrum sinnum rætt samskipti Bandaríkjanna og Íslands við Bandaríkjamenn, sem stöðu sinnar vegna ætti að vera fullkunnugt, hvað það er, sem ríkisstjórn þeirra vill í samskiptum við Ísland. Í 15 ár hafa þeir sagt efnislega það sama: Ríkisstjórn Bandaríkjanna vill frjálst, óháð og efnahagslega sjálfstætt Ísland, með blómstrandi atvinnulífi — frelsið til þess að tryggja stjórn, sem þjóðin getur fylkt sér um og er því sterk stjórn, stjórn, sem getur því komið í veg fyrir, að þjóðin verði með prettum snöruð undir ok kommúnismans.”

Það er athyglisvert, að maður, sem stöðu sinnar vegna hlýtur að þekkja vel til markmiða Bandaríkjamanna á Íslandi, skuli draga slík málsatriði inn í umræðurnar um amerískt hermannasjónvarp á Íslandi.

 

1964

 

Athugasemd höfundar

Hr. ritstjóri.

Tíminn prentaði fyrir einum þremur vikum þýðingu á grein minni í Dagblaðinu í Osló, sem ég kallaði: „Menningarmorð á íslandi". Með einni undantekningu er þýðingin efnislega rétt. Undir lokin segir: „Þegar hins vegar er um að ræða menningu þjóðarinnar, er hvergi slakað á klónni. Margir spyrja nú, hvort það sé skapgerðarveila stjórnmálaleiðtoganna, sem veldur þrákelkninni, eða ákveðin valdamikil öfl í landinu hafi gert bandalag við erlent vald og taki á sig þá áhættu að fórna íslenskri menningu í þeirra valdabaráttu. Norðmenn vita vel, að slíkt hefur gerst fyrr í þjóðarsögu. Slíkar landráðahugmyndir eru ekki ótíðar á okkar tímum, og af eðlilegum ástæðum er örðugt að sanna réttmæti þeirra."

Síðasta málsgreinin var svo orðuð á norsku: „Slike landsvikantydninger er íkke uvanlige i vár tid og de lar sig av naturlige grunner vanskelig pávise."

Á antyde þýðir að gefa í skyn. Rétt þýtt væri því: „Ekki er ótítt á okkar dögum, að gefið sé í skyn, að menn hyggi á landráð, eðlilega er örðugt að sanna réttmæti slíkra aðdróttana"

Mér þykir vænt um þær viðtökur, sem grein mín fékk í Noregi og heima. Tveir landar hafa þó orðið til að hirta mig fyrir. Guðmundur vinur minn Jósafatsson frá Austurhlíð skrifar í bréfi: „Af þeirri einföldu ástæðu, að ég efa mjög að aðrir verði til þess að ! hirta þig fyrir framkomu þína við okkar góða Guðmund í. virðist mér, að ég sé knúður til þess. . Sérðu nú ekki hvílík fádæma ókind þú ert? Þú rassskellir mannskömmina í veislu. Svo flónskur ! ertu ekki, að þú skiljir ekki, að leika hann svona grátt, meira að segja í sparibuxunum, er ekkert líkt og þegar íslendingarnir flengdu Lárus H. Bjarnason forðum. Þeir létu sér nægja að fara með hann inn í húsasund þar sem enginn sá til. Það er ólíkt drengilegra."

Morgunblaðinu þykir sorglegt, að ungir og efnilegir menn taki upp háttu kommúnista að rægja land sitt og þjóð. Ég get ekki svarað þeim Guðmundi og Eykoni öðru vísi en svo: Þeir Norðurlandabúar, sem láta sig varða Ísland nokkru, vita að fjöldi íslendinga glápir á amerískt hermannasjónvarp. Við þekkjum viðbrögðin. Íslandsvinum finnst þetta ískyggilegt, til skammar, meira að segja djöfulsins forsmán. Sú forsmán verður ekki nema með einu móti aftur tekin. Hitt vissu menn ekki, að langt frá því allir íslendingar flatmaga fyrir dátasjónvarpinu, að yfirleitt allir þeir, sem láta sig framtíð íslenskrar menningar miklu skipta, eru kvíðafullir vegna sjónvarpsins, að þeir, sem stóðu að óhappaverkinu urðu að beita blekkingu og lygum til að fá sínu framgengt, að sumir þeir, sem ábyrgðina bera hafa slæma samvisku. Allt þetta kom fram í Dagblaðsgrein minni. Norðmenn vita því nú, að Ísland er ekki sokkið enn, þó þjóðvillingarnir séu margir. Eykon skrifar í Morgunblaðið, að ég hafi látið greiða mér fyrir að skrifa lofgreinina um hina 60. Eftir rúman mánuð er greiðslan ókomin. Ég verð nú að gera gangskör að því að fá greinina greidda. Upphæðina nota ég svo til að styrkja samtök þeirra, sem berjast gegn þjóðvillunni. Ekki veitir af.

Björn Stefánsson.

 

Tímanum 23. september 1964 bls. 8