Umsjónarmaður Gísli Jónsson.
Þáttur þessi átti að birtast í blaðinu sl. sunnudag, en lenti í „hafvillum“ Í pósti en barst blaðinu ekki fyrr en eftir helgi.
Björn S. Stefánsson í Reykjavík leggur fyrir mig snúið viðfangsefni, sem ekki er mitt meðfæri að leysa. Hann segir í bréfi 6. Febrúar 1981:
„Dagblaðið 5. Febrúar vísar til þess í ritstjórnargrein að þar hafi því verið spáð hinn 3. Nóvember í fyrra (auðk.hér) að losna mundi um Grænland í Efnahagsbandalaginu. Undanfarin ár hef ég þurft að setja mig inn í grænlensk mál og vildi því kynna mér betur það sem Dagblaðið hefur haldið fram um stöðu Grænlands í fyrrnefndu eintaki. Ég gekk mig því inn á Landsbókasafn og fékk lánaðan nóvembermánuð 1979, en fann ekkert í blaðinu 3. Nóvember. Mér datt þá í hug að höfundur Dagblaðsins væri í hópi þeirra sem töluðu þrettánda um jólin í fyrra og eiga þá við jólin sem væru að enda. Og mikið rétt. Í Dagblaðinu 3. Nóvember er í mínu máli nóvember síðastliðinn, nóvember í haust, nú í nóvember. Ekki skal ég segja með vissu hvenær hann verður nóvember í fyrra, ætli þurfi ekki að líða fram á haust til þess. Í vor og sumar verður hann í máli mínu nóvember í vetur eða í vetur sem leið.
Sumir virðast sem sagt vera allstórir í almanakinu. Væri ekki ráð að segja þeim til? Ár miðast nefnilega alls ekki við almanakið? Það er ekki síður miðað við það ár sem byrjar að hausti og stendur til næsta hausts.“
Í þessum vanda kann ég ekki að segja öðrum til, en ekki get ég þó fallist á þá fullyrðingu bréfritara að ár miðist ekki við almanakið. Hins vegar myndi ég, eins og hann, ekki tala um jólin í fyrra = 1980, á þrettándanum 1981. Aftur á móti þykir mér nú, í mars 1981 sem ég talaði um 17. júní í fyrra = 17. Júní 1980.
Málglöggur maður hefur giskað á við mig að um það bil ár þyrfti að líða, svo að okkur væri eðlilegt að tala um það leyti í fyrra. Ég hef mjög lítið velt þessum vanda fyrir mér fram að þessu, og eins og fyrr segir, er ekki á mínu færi að leysa hann. Bið ég því lesendur liðsinnis rétt einu sinni.
Út frá þessu bréfi fór ég að hugsa um ýmis heiti í sambandi við tímatalið, svo sem heiti mánaðanna. Mánuður (eða mánuður) skilst mér að sé nefndur eftir mánanum, en frummerking þess orðs held ég að sé mælir, og kemur þetta allt vel heim. En mánaðarnöfnin gömlu eru sem auðskilin, önnur mikil ráðgáta, svo ég kann ekki að ráða þær rúnir: Mörsugur, þorri, góa (gói) einmánuður, harpa, skerpla, sólmánuður, heyannir, tvímánuður, haustmánuður, gormánuður, ýlir.
Ég tek heldur hinn kostinn, að glíma um sinn við þau mánaðarheiti sem nýtt tímatal færði á fjörur okkar úr erlendu máli, latínu. En þá er að gæta að þar er við það miðað að árið hefjist í mars, þannig að september merkir hinn sjöundi o.s.frv.
Svo hefur mér verið kennt að janúar sé dregið af nafni rómverska guðsins sem Janus nefndist. Af þessu goði höfðu Rómverjar trúi ég mynd yfir gáttum og grindum, og hafði Janus jafnan tvö andlit, er horfðu sitt í hvora áttina. Við erum víst oft að burðast við að horfa til baka og fram á við 1. janúar, en það er annað mál.
Febrúar er komið af latneska orðinu februum = hreinsun. Mér skilst að einhvers konar hreinsunar-(há)tíð hafi átt sér stað hjá Rómverjum, þegar febrúar taldist.
Mars á að vera kenndur við nafna sinn, stríðsguðinn sem svo var nefndur í Róm. Mars átti sér líka dag, er varð týsdagur í norrænu máli, enda Týr djarfhuga og orrustuglaður.
Apríl er sennilega samstofna latnesku sögninni aperire = opna. Kannski má heimfæra það undir þá breytingu sem náttúran tekur, þegar dróma vetrarins léttir af. Í apríl væru dyrnar svo sem opnaðar fyrir vorinu.
Maí væri þá líklega tími gyðjunnar sem nefnd var Maía og mun hafa verið tákn gróðrar og frjósemi. Júní væri aftur kenndur við höfuðgyðjuna Juno, konu Júpíters, hliðstæða Heru með Grikkjum og Frigg með norrænum þjóðum.
Síðan verður ekki betur séð en tekið sé að trúa á menn og taka þá í guða tölu. Lýsir það sér í nafngift næstu tveggja mánaða. Þeir draga heiti sitt af Juliusi Caesari og Augustusi keisara, en orðið keisari er einmitt til orðið af nafni Caesars. Orðið Julius er ráðgáta í nafnafræðum, en Augustus (Ágúst) merkir hinn virðulegi. Þar með er hugkvæmnin þrotin og aðeins eftir að telja mánuði til enda ársins, því að afgangur latnesku mánaðarnafnanna merkir : sjöundi, áttundi, níundi og tíundi. Hins vegar þekki ég íslenskan mann sem hét Alexander Desember, af því að hann var hinn tólfti í systkinahópnum. Svarar það til þegar mær er skírð Dúsína.
Lengi var það mikill siður að yrkja lærdómsvísur sér og öðrum til minnis, því að „málið laust úr minni fer“, eins og Einar í Eydölum kvað. Ég hef fyrir satt að sr. Ólafur Guðmundsson á Sauðanesi, höfuðskáld sálmabókar Guðbrands Þorlákssonar, hafi ort hina alkunnu vísu:
Ap., jún.,sept.,nóv: þrjátíu hver,
eina til hinir taka sér.
Febrúar tvenna fjórtán ber
og frekar einn, þá hlaupár er.
Sr. Ólafur mun einnig hafa sett saman það litla sem ég kann í stjörnufræði:
Tólf eru á ári tunglin greið,
til ber að þrettán renni.
Sólin gengur sína leið,
svo sem Guð bauð henni.
Þetta þykir mér skiljanlegur og notalegur lærdómur.
Morgunblaðinu 19. mars 1981