Sjónvarpið hefur sterkari áhrif á heimilislíf í landinu en flest annað. Eins og vill vera með það sem nær tökum á fólki, veldur það oft og iðulega gremju. Hér hef ég ekki í huga efnið sem flutt er, heldur það að tilvist sjónvarpsins ein mótar svo mjög hversdagsleg samskipti fólks á heimili — og eftir því sem ég verð var við, verður flesta daga gremjuefni, að minnsta kosti þar sem börn eru. Fólk nær ekki saman, truflað af sjónvarpsdagskránni, og gefst upp á því að reyna það, en gefur sjálft sig og börn sín á vald sjónvarpsins. Þeir sem reyna að hamla á móti valdi þess í eigin lífi, gefast upp einn af öðrum, því að almenn hugðarefni eru svo mótuð af sjónvarpsdagskránni að þeir verða líkt settir og blindir að fylgjast ekki með sjónvarpinu, en samskipti milli heimila torveldast, enda hefur fólk sem situr við sjónvarpið lítið að bjóða öðrum til ánægju. Þó veit ég enn örfá heimili sem hafa ekki gefist sjónvarpinu á vald, og ég get ekki merkt annað en það hafi verið börnunum til blessunar. Um þetta má margt ræða, þó að ekki verði það gert hér, en óhætt er að fullyrða að fólk skynjar almennt að hér er illt í efni — svo oft falla slíkar athugasemdir — þó að málið sé sjaldnast rætt til hlítar, enda ekki von, þegar uppgjöfin er alger.
Sem vonlegt er hefur sjónvarp þótt merkilegt rannsóknarefni. í Mbl. 19. þ.m. segir frá umfangsmikilli rannsókn Svía sem íslenskur stúdent, Elías Héðinsson, tók þátt í sem liður í doktorsnámi. Hann bendir á að mikilvægasta atriðið sé „ef til vill ekki að spyrja sífellt hvaða áhrif fjölmiðlarnir hafi á fólk heldur hvað fjölmiðlanotkun kemur í veg fyrir. Til að mynda gerir fólk ekki annað á meðan það er að horfa á sjónvarp og þannig kemur það í veg fyrir önnur félagsleg samskipti," segir hann. Svo er að skilja á frásögn hans að þetta mikilvægasta atriði málsins hafi ekki verið í rannsókninni. Kemur það raunar ekki á óvart að Svíar leggi stórfé og vinnu í umfangsmiklar þjóðfélagsrannsóknir og gefi niðurstöður út í mörgum heftum sem fylla heilu hillurnar, en sneiði hjá kjarna málsins. Má nefna nokkur dæmi um slíkt frá síðari árum. Hitt er verra hraða orð Elías hefur um áhyggjur fólks af sjónvarpsnotkun barna sinna og unglinga, þar sem hann segir að það þyki ekki „fínt" eða sé „ófínt". Slíkar einkunnir eru háðsglósur um fólk sem skynjar mikinn vanda sem það er ekki sátt við að ráða ekki við, en varðar heill og hamingju barna og unglinga. Orð þessi kunna að hafa fallið í kæruleysi, en um þetta mál ber að fjalla af fyllstu alúð á opinberum vettvangi.
Morgunblaðinu 1. desember 1982