Fjöldi landsmanna veit ekki hver var fyrsti forseti Íslands né hvenær kristni var lögtekin, samkvæmt athugun á vegum Kaupþings hf. Karlar reyndust fávísari en konur og fólk í dreifbýli fávísara en aðrir landsmenn. Þjóðviljinn hefur lagt út af þessu á þann veg, að múrar bændamenningarinnar séu að rofna. Með þessu er ályktað að bændafólk og dreifbýlisfólk sé eitt og hið sama.

Ég hef gengið úr skugga um það, að athugun Kaupþings hf. tók ekki til bænda sérstaklega né sveitafólks. Landinu var skipt í þrennt: höfuðborgarsvæði, annað þéttbýli, sem var kaupstaðir, (bæir) utan höfuðborgarsvæðisins, og dreifbýli, þ.e. þorp og sveitir. Í því dreifbýli má nefna Borgarnes, Höfn í Hornafirði, Stykkishólm, Egilsstaði, Sandgerði, Þorlákshöfn, Blönduós, Garð og Patreksfjörð, allt staði með meira en 1000 íbúa, og svo tugi fámennari sjávarþorpa og verslunarstaða. Í þannig skilgreindu dreifbýli voru samkvæmt upplýsingum Kaupþings hf. 21,6% úrtaksins, en samkvæmt skýrslum Hagstofunnar voru í strjálbýli 9,9% íbúa landsins og nær það til sveita og þorpa með færri en 50 íbúa. Því má ætla, að af þeim sem Kaupþing taldi til dreifbýlis sé aðeins um þriðjungur búsettur á bændaheimilum. Ég sé því ekki grundvöll til að leggja út af þessari athugun um bændamenningu sérstaklega, en víst gefur hún tilefni til að láta hugann reika um ólíka menningu karla og kvenna og fólks í bæjum landsins og utan þeirra.

Þjóðviljanum 29. Desember 1983