Umsjónarmaður Gísli Jónsson

 

Ragnar Lár á Akureyri er einn hinna málnæmu áhugamanna sem oft hafa samband við mig. Fyrsti hluti þessa þáttar byggist á bréfi sem hann var svo vinsamlegur að senda mér.

Menn koma oft að máli við náungann, en ég tek undir það með Ragnari, að óeðlilegt málfar sé: „Sveinn kom oft á orði við bróður sinn.“ Þó að menn komi einhverju á, ef svo ber undir, virðist hafa verið átt við hitt í tilvitnuðu setningunni, að Sveinn hafi oft komið að máli við bróður sinn.

Þá tekur Ragnar dæmi, eitt af mörgum, þess efnis er menn kunna ekki að fara með ópersónulegar (einpersónulegar) sagnir. Um þær hefur oft áður verið fjallað um í þáttum þessum, en í skemmstu máli er það af þeim að segja, að þær standa í 3. persónu eintölu hvað sem öðrum orðum í setningunni líður. Dæmi Ragnars að þessu sinni var: „Fljótlega fóru menn þó að gruna . . . „

Sögnin að gruna er einmitt ópersónuleg. Mig grunar, hann grunar, þá grunar, okkur grunar o.s.frv. Við sjáum þó að sögnin breytist ekki, þótt skipt sé um fornafn með henni og hvort það er í eintölu eða fleirtölu. Hin tilvitnaða setning hefði því átt að vera: Fljótlega fór menn að gruna.

Svipaða sögu er að segja af sögninni lengja í vissu sambandi. Mig lengir eftir einhverju, getum við sagt. Það verður því að teljast bögumæli af leiru ein einu tagi, sem Ragnar Lár las í einhverju blaði:  „En mönnum lengdist venju fremur eftir honum.“ Menn lengdi venju fremur eftir honum væri betra mál.

Því næst víkur Ragnar Lár að nokkru vandamáli. Það er beyging sagnarinnar  að meta, en hún má í bili vera dæmi þeirra sagna sem áður höfðu sterka beygingu, en hafa nú að miklu leyti „veikst“. Alkunna er að veik beyging er auðveldari í meðförum en sterk. Því er algengara að sterkar sagnir verði veikar, heldur en öfugt.

Dæmi Ragnars er orðrétt ....mættir hans ósvífna kall meira en ... „ Sögnin að meta var sem sagt sterk, eftir 5. hljóðskiptaröð, svo sem gefa, lesa, geta og beygðist: meta, mat, mátum, metið. Eftir því lagi hefði því átt að segja mast hans ósvífna kall o.s.frv.

Ekki mæli ég með því að beygja sögnina að meta veikt, en það er orðið býsna algengt, einkum í fleirtölu. Títt er að heyra, að þeir möttu kjötið fremur en þeir mátu það. En hér finnst mér þó leikurinn ekki  tapaður, eins og með sagnirnar að hjálpa og bjarga, svo að dæmi séu enn tekin. Flestir segja bjargaði fremur en barg og allir að ég held, hjálpa, hjálpaði, hjálpað í stað gömlu beygingarinnar: hjálpa, halp, hulpum, holpinn. Síðasta kennimyndin lifir þó góðu lífi í gerðinni hólpinn, en það er segin saga, að lýsingarháttur þátíðar er lífseigari en persónuhættirnir, þegar sterkar sagnir „veikjast“.

Enn bendir Ragnar Lár á rugling og ósamræmi í notkun tíða og hátta sagna.

Hann tekur sem dæmi: „... því hann lét þess getið að vera kunni að hann kæmi ekki aftur.“ Þarna ætti auðvitað að vera kynni til samræmis við viðtengingarháttinn kæmi.

Okkur Ragnari telst að fuglsheitið skjór sé í þágufalli eintölu með greini skjórnum, ekki skjóranum, og þótt það kunni að þykja borið í bakkafullan lækinn viljum við enn andmæla tali eins og þessu, en það mátti heyra í útvarpsþætti: „Gömlum afa,  sem hringdi í mig, langar til að heyra að einhver verði betri en hann . . .“ Við viljum halda okkur við að segja gamlan afa í þessu sambandi.

Björn S. Stefánsson í Reykjavík hefur orðið fyrstur manna til þess að sinna hjálparbeiðni minni vegna bréfs Heimis Hannessonar fyrir skemmstu. Hann segir: Formann ferðamálaráðs, Heimi Hannesson vantar heiti á atvinnugrein þá, sem ráðið fjallaði um (225. þætti, 7. janúar). Hann nefnir heitin ferðaþjónustu, ferðaiðnað og ferðarekstur. Heitið ferðarekstur var mér nýtt, en mér féll orðið strax vel. Við tölum um rekstur, atvinnurekstur, búrekstur og rekstur þjóðarbúsins. Þeir sem standa fyrir iðnrekstri kallast iðnrekendur, atvinnurekendur standa fyrir atvinnurekstri og þá standa ferðarekendur að sjálfsögðu fyrir ferðarekstri. Ekki er ég alveg sáttur við það heiti.

Við þessi heiti bæti ég tveimur, sem ég hef séð notuð, ferðaútgerð og ferðaútvegi. Síðastnefnda heitið setti ég fram í grein um ferðaútveg í sveitum í Vikunni fyrir allöngu og hefur stundum sést notað af öðrum – er hugsað eins og sjávarútvegur. Þar er um atvinnugreinina að ræða. Einstök fyrirtæki ættu þá að heita ferðaútgerð – ferðaútgerð Guðmundar Jónassonar t.a.m., líkt og bílaútgerð og vélaútgerð og útgerð fiskiskipa.

Túrismi er ósmekklegt orð, en þó skömminni skárra í munni en gæd um leiðsögumann (hvernig má annars stafsetja slíkt orð á íslensku, þar sem g og æ standa saman og ekki kemur j-hljóð?), og hvorugt orðið þarf ég að nota.

Ég er farinn að tala um þá sem fara um og dveljast í leyfi sínu ferðagesti. Ferðamenn eru þá þeir sem ferðast erindum. Dæmi: Ég var nokkra daga ferðagestur á Írlandi um árið, en ég fer iðulega sem ferðamaður til Norðurlanda.“

Björn rifjar síðan upp það gamanmál Stefáns Þorlákssonar leiðsögumanns að kalla túrista (með alþýðuskýringu) túrhesta.

Í því tilefni tekur umsjónarmaður upp það sem Hlymrekur handan orti fyrir alllöngu og lætur fljóta með til gamans:

 

Hann Stefán lét ekki á sig stór festa,
þótt steyptist á rigningaskúr mesta.
Glaður í bragði
á brattann hann lagði
og teymdi á eftir sér túrhesta.

 

Margt erlent er sniðugt og eggjandi,
hvort orðmælt það fer eða hneggjandi.
Það má hefja upp glaum,
það má taka í taum,
en á túrhesta er ekki leggjandi.

 

Já, og svo var það nútímamaðurinn sem sagði að neyðin kenndi naktri konu að spinna.

Morgunblaðinu 28. janúar 1984