Erlendur hestamaður, sem hér dvaldist í fyrrasumar, spurði mig hvort hvergi væri boðið upp á hraðnámskeið í íslensku. Ég gekk úr skugga um, að svo væri ekki. Talsvert mun hafa verið spurst fyrir um slík námskeið í menntamálaráðuneytinu eftir að forseti Íslands var í opinberri heimsókn á Norðurlöndum.

Margir útlendingar hafa komið sér víst í sveit til að læra íslensku. Að læra málið í háskólanum í Reykjavík og það þá liður í annarri háskólamenntun og stendur vetrarlangt. Á tveggja ára fresti er haldið sumarnámskeið í háskólanum ætlað norrænum stúdentum sem lesa norræn fræði. Við nám í háskólanum dregur það mjög úr árangri, að hinir erlendu stúdentar halda hópinn og tala sín á milli eitthvert annað tungumál en íslensku. Það spillir enn frekar fyrir námsárangri, að Reykvíkingar vilja helst ekki tala íslensku við útlendinga, heldur babla við þá eitthvert erlend mál. Útlendingar sem hér eru langdvölum sækjast að sjálfsögðu eftir að þjálfa sig í íslensku með því að tala við Íslendinga á íslensku.

Íslenska er kennd útlendingum í námsflokkum Reykjavíkur og málaskólanum Mími, en námskeiðin standa heilt kennslumisseri eða vetrarlangt og eru miðuð við að fólk sinni öðru starfi eða námi samhliða.

Í Englandi er boðið upp á sumarnámskeið í ensku og nemendum útveguð vist á enskum heimilum. Á Írlandi og írska (keltneska) kennd á nokkurra vikna námskeiðum. Þau fara fram í héruðum á vesturströndinni þar sem írska er móðurmál og heimilismál. Nemendum er komið fyrir á írskumælandi heimilum og ekið að morgni í skóla og kennt, en fara svo um miðjan daginn heim og eru samvistum við írskumælandi fólk það sem eftir er dagsins.

Það væri þarft að bjóða upp á samskonar námskeið hér á landi. Heppilegasti tíminn væri að sumri og mætti standa þrjár fjórar vikur. Eftir þann tíma væru nemendur farnir að bjarga sér svo á íslensku, að þeir gætu vanið Íslendinga af að tala við þá útlensku og þannig fengið tækifæri til sjálfsnáms.

Ekki skal spáð hversu mikið aðsókn yrði, en byrja mætti í Reykjavík og á Akureyri. Nemendurna á Akureyri væri best að vista í sveitum út með Eyjafirði að vestanverðu og á Svalbarðsströnd. Gætu þeir komið inn á Akureyri að morgni, annars vegar með Dalvíkurbílnum og hins vegar með Húsavíkurbílnum, en síðan færi sérstakur bíll með þá heim, þegar skólakennslu lýkur, ef ekki fellur önnur ferð. Í Reykjavík ætti að mega útvega nægilega mörg heimili fyrir einn bekk þar sem einhver fullorðinn er heima á daginn. Ég geri samt ráð fyrir að vist á sveitaheimili yrði nemendum notadrýgri. Um þóknun til heimilanna má til að byrja með hafa hliðsjón af því sem greitt er á Englandi og Írlandi.

Tvennt gæti tafið fyrir framkvæmd þessa máls. Íslensku kennarar munu lúnir að vori og ófúsir að taka að sér slíka sumarvinnu, þótt ekki sé nema mánaðartíma. Fáir eru færir um að kenna útlendingum íslensku. Íslenskukennarar eru menntaðir til að kenna þeim íslensku, sem kunna málið fyrir, nefnilega Íslendingum.

Ekki er heldur víst að fáist nægileg aðsókn, þar sem námskeiðið yrði lítt þekkt í upphafi. Þar sýnist mér ráð að heita á ferðamálaráð, sem kæmi kynningu á slíku námskeiði inn í aðra kynningu sína erlendis á Íslandi.

Menntamálaráðuneytið væri réttur aðili að koma slíkum námskeiðum á, hver sem kæmi til með að halda þau. Kennslugjöld ættu að standa undir kostnaði og nemendur greiddu húsráðendum fyrir vistina. Að þessari starfsemi ætti að vera menningarauki fyrir þjóðina og ofurlítil búbót.

Degi 12. mars 1984