„Þegar ég var í Bandaríkjunum fyrir aldarfjórðungi var ýmislegt að gerast þar, sem er að gerast hér núna. Heimilin voru hrunin sem stofnun, sjónvarpið var notað til að halda börnunum í skefjum og barnaherbergin voru leiktækjasafn.“ Þannig minntist kunningi minn dvalar sinnar vestra, en þangað fór hann í boði Bandaríkjastjórnar til að kynna sér málefni starfsgreinar sinnar.

Innreið myndtækja á heimili fólks um víða veröld veldur meiri tímamótum á hversdagslegum högum mannkynsins en flest ef ekki allt annað. Fráleitt er að fólk hafi yfirleitt svo mikið þrek og þolgæði að því geti til lengdar liðið vel við slíka heimilishagi.

Hér á landi hefur sýningartími á heimilum verið styttri en í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu. Íslendingar greina sig einnig í því frá Bandaríkjunum, að myndefni vestra er á máli landsmanna, en hér á landi er tiltölulega lítið flutt á þjóðtungunni; má jafnvel segja að enska sé orðið annað heimilismál, þar sem svo mikið af myndefninu er á ensku, að hún lætur í eyrum drjúgan hluta þess tíma sem fólk er vakandi heima við. Um þessa nýju tíma segir í síðasta Reykjavíkurbréfi blaðsins 1984 (30. desember): „Holskefla engilsaxneskra menningaráhrifa hefur riðið yfir okkur eins og aðrar þjóðir í okkar heimshluta í krafti nútímafjölmiðlunar og á þessari stundu getur enginn sagt með nokkurri vissu, hvort við sem þjóð, stöndum af okkur þessa holskeflu. Þetta er mesta vandamál þjóðar okkar um þessar mundir.“

Engan boðskap sá ég brýnni þá um áramótin. Sá er munurinn á stöðu Íslendinga og annarra þjóða sem ekki eru heldur enskumælandi, að hvergi annars staðar hefur enska í sama mæli orðið annað heimilismál með innreit sjónvarps og myndbanda. Í Þýskalandi og Frakklandi eru myndir yfirleitt sýndar með innlendu tali; ekki þarf að taka það fram að það er nær alltaf gert í Bretlandi og Bandaríkjunum, þótt tal myndarinnar hafi upprunalega verið á öðru máli en ensku. Á Norðurlöndunum mun tali sjaldan ef nokkurn tíma breytt, en á það er að líta, að heimatilbúið efni eða efni frá nálægum löndum og á öðru máli en ensku er allmikið borið saman við það sem er hér á landi.

Fréttaritari blaðsins í Reykhólasveit segir (Við áramót 15. janúar): „Einu sinni var það tíska að útlendingum sem læra vildu tungu landsmanna var ráðlagt að vista sig á venjulegum sveitabæ. Nú er öldin önnur. Nú er farið að tala um það í alvöru að réttast væri að leggja niður íslenska tungu og taka enskuna upp í staðinn og gera hana að móðurmáli okkar.“ Mér finnst ekki óeðlilegt að slíkt heyrist rætt, þegar enska er orðið annað heimilismál landsmann fyrir tilverkan sjónvarps undir þingkjörinni stjórn.

Ég spurði fréttaritarann (Svein Guðmundsson) nánar um þetta. Hann kvaðst sem kennari finna fyrir því hvernig þeim orðum fjölgaði ár frá ári í íslenskum bókmenntum sem hann þyrfti að útskýra fyrir nemendum, setningagerð drægi dám af ensku og fáir nemendur legðu sig fram við íslenskunám, en svo til allir væru áhugasamir að læra ensku. Þetta er í fæðingarsveit höfundar þjóðsöngsins og höfundar Pilts og stúlku.

Þannig hefur kennarastéttin tapað áhrifum. Á sínum tíma kom skólaganga í stað heimilismenntunar, en nú hafa kvöldvökur heimilanna með myndefni á ensku sigrað hugina, þótt umskiptin á stöðu kennarar séu að vísu ekki eins áhrifamikil og fréttist frá öðrum löndum. Mikilvægasta móðurmálskennslan er að heyra málið. Með ensku tali sjónvarps og myndbanda sem halda hugum barna og unglinga föngnum tapast mikill tími sem ella nýttist til að hlusta á íslenskt mál og læra það.

Ég hef spurst fyrir um það, hve mikið kostaði að setja tal íslenskra leikara í enskt sjónvarpsefni. Mér var svarað af kunnugum, að það kostaði tugfalt meira en að setja íslenskan texta og væri svo dýrt að á Norðurlöndunum væri ekki sett innlent tal í erlendar myndir. Það kemur okkur ekki við hvað gert er á Norðurlöndum í þessu efni. Spurningin er hversu mikinn kostnað þjóðin vill leggja á sig til að hafa þjóðtunguna í eyrunum meðan sjónvarp stendur. Hugsanlega gæti það kostað þjóðina daglega eins og árslaun kennara. Umreiknað yrði það aldrei meira en 3-4 kr. á hvert mannsbarn á landinu xxxxxxxxxxxxx fyrir að fá hana flutta á íslensku? Það sem hér er um að ræða til að bæta móðurmálskennsluna á áhrifamikinn hátt kostar því ekki nema lítið brot af núverandi útgjöldum þjóðarinnar við móðurmálskennslu. Menn sáu ekki í upphafi sjónvarps fyrir hin mögnuðu áhrif myndefnis með ensku á málfar, en nú er ekki eftir neinu að bíða að bregðast við að fenginni reynslu.

Ef mönnum líst ekki á að bæta á þjóðina slíkum útgjöldum án þess að spara annað, liggur nærri að álykta að fækka mætti kennslustundum í grunnskólum og þar með fækka kennurum og viðurkenna þannig áhrifaleysi skólans borið saman við myndefni heimilanna. Þannig yrði íslensk leikarastétt móðurmálskennarar barnanna á kvöldin til viðbótar við dagkennslu grunnskólans, árangur slíkrar kennslu yrði meiri en nú verður; en samanlögð útgjöld þyrfti ekki að vaxa.

Auðveldast og ódýrast er að setja íslenskt tal í barnamyndir. Mætti byrja á því. Um leið þyrfti að setja sér markmið til að brjóta holskeflu áhrifa enskunnar, til að mynda að fyrst í stað mætti hlutfall eins einstaka erlends máls í íslensku sjónvarpi ekki vera hærra en hlutfall allra erlendra mála í aðalsjónvarpsstöðvum Þýskalands, Frakklands eða Englands. Síðar mætti hækka markið.

Frakkar láta ekki bjóða sér annað en að James Bond tali frönsku. Í Þýskalandi talar J.R. að sjálfsögðu þýsku. Hamlet talar íslensku í þjóðleikhúsinu og auðvitað eiga þessir höfðingjar að tala íslensku í heimilisleikhúsinu, sjónvarpsins. Gísli Súrsson talar ekki fornmálið, þegar Útlaginn er sýndur í enskumælandi löndum, heldur ensku. Andrés önd birtist nú orðið á prenti á íslensku og hvers vegna skyldi hann ekki líka tala íslensku á myndasýningum?

„Hin róttæka breyting á íslenskukennslu sem nefnd er í fyrirsögninni, væri fólgin í því, að úr sjónvarpinu hljómaði íslenska í stað ensku í eyrum barna og unglinga sem eru að móta málfar sitt.

Morgunblaðinu 19. febrúar 1985