Í 2. tbl. fréttabréfs íslenskrar málnefndar 1984 eru hugleiðingar ritstjóra að lokinni Færeyjaför. Þar sem fjallað er um stjórnarfund norrænnar málstöðvar, segir um hlutskipti íslendinga í því samstarfi (s. 8): „þeir hafa meiri ástæðu en fulltrúar annarra málsamfélaga á Norðurlöndum til að spyrja, hvaða erindi þeir eiga inn í samstarf, sem hefir það aðalmarkmið að efla dönsku, norsku og sænsku um öll Norðurlönd, þ. á m. á Íslandi.“

Íslendingar þurfa margt að sækja til annarra þjóða, en annað kemur óbeðið og þarf samt ekki að spilla, ef samskiptin eru ekki einhliða, heldur fjölbreytt. Meðan áhrifavald dana var mikið hér á landi, var þjóðinni hagur að sem mestum samskiptum við aðrar þjóðir en dani, enda áttu Jón Sigurðsson og samherjar hans nytsamleg samskipti við englendinga um verslunarmál og við norðmenn um fiskveiðar. Þannig styrktu íslendingar stöðu sína gagnvart dönum og stækkuðu heim sinn.

Enn er það svo, að okkur íslendingum líkar misvel það sem kemur frá Norðurlöndum, og ekkert er eðlilegra en menn finni að því sem illa líkar. Engin rök eru samt fyrir því, að þar gæti áhrifa sem þjóðin geti ekki staðist. Öðru máli gegnir um hin þjóðlausu menningaráhrif sem hingað koma á ensku máli. Þau áhrif sýnast ætla að verða eins rík á mál almennings og dönsk áhrif voru á mál heldra fólks á 18. öld. Lítil vísbending um það er, að unglingar tjá helst tilfinningar sínar á ensku í óskalagaþáttum útvarpsins og í kroti á biðskýlum, hæ og bæ eru að verða algengustu samskiptatákn íslendinga og ók-ei helsta ályktunarorðið.

Ekkert þótti mér brýnna sagt um síðastliðin áramót en orð síðasta Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins (30. desember), sem blaðið setti sérstaklega með stóru letri: „Holskefla engilsaxneskra menningaráhrifa hefur riðið yfir okkur eins og aðrar þjóðir í okkar heimshluta í krafti nútímafjölmiðlunar og á þessari stundu getur enginn sagt með nokkurri vissu, hvort við, sem þjóð, stöndum af okkur þessa holskeflu. Þetta er mesta vandamál þjóðar okkar um þessar mundir.“

Með þetta í huga eiga íslendingar brýnt erindi „inn í samstarf, sem hefir það aðalmarkmið að efla dönsku, norsku og sænsku um öll Norðurlönd, þ. á m. á Íslandi“, eins og vitnað var til hér að framan. Með því að hafa tök á þessum þremur þjóðtungum draga íslendingar úr þörf sinni á að leita þekkingar og samskipta erlendis á ensku. Eins og nú standa sakir getur efling þessara þjóðtungna ekki orðið svo mikil að íslensk tunga spillist af. Orð Reykjavíkurbréfs minna á, að afstaða manna til þessara mála er góðu heilli óháð afstöðu þeirra til samstarfs við erlend ríki.

 

En ef saltið dofnar, með hverju á þá að selta það?

Enn vitna ég til hugleiðinga ritstjórans, þar sem hann segir í kafla um Færeyjar og Ísland (s. 9): „Unglingar, sem alast upp á Íslandi, eiga bágt með að skilja, hvers vegna þeir eru látnir læra dönsku í skólum, enda nota þeir ensku í samskiptum við Dani (og Norðmenn og Svía) eins og aðra útlendinga, sem hingað koma.“

En það er ekki aðeins danska sem víkur fyrir ensku í samskiptum við útlendinga, heldur einnig íslenska. Íslendingar, jafnt fullorðnir sem ungmenni, tala helst ekki íslensku við útlendinga, þótt þeir séu hér langdvölum og ætli að læra íslensku, heldur tala ensku. Þykir mörgum útlendingi illt við að una.

Nýleg athugun á viðhorfum íslendinga leiddi m.a. í ljós að þeir þykjast allstoltir af því hlutskipti sínu að vera íslendingur. Samt sýna þeir ekki það stolt eða sjálfsvirðingu í samskiptum við útlendinga að þeir kynni íslenska menningu eins og auðveldast er, nefnilega með því að tala við þá íslensku, þegar kostur er. Margir íslendingar nota ekki heldur tækifærið, þegar það býðst, til þess að þjálfa sig í dönsku/norsku/sænsku, þeim tungumálum sem eru skyldust móðurmáli þeirra.

 

Vanmetakennd

 

Norðmenn, svíar og danir sýna eigin þjóðtungum ræktarleysi ekki síður en íslendingar. Það kemur m.a. fram í því, að þeir grípa til ensku að óþörfu. Þegar ég kynntist norðmönnum fyrst fyrir aldarfjórðungi, var það oft, þegar norskir stúdentar voru við skál, að þeir slógu um sig með ensku, en það gerðu íslenskir stúdentar ekki þá.

Stundum talar svíi heldur ensku en sænsku við íslending af ímyndaðri tillitssemi. Svíar eru margir hallir undir bandaríska menningu og sænskir menntamenn dýrka margir bandarískt þjóðfélag eða vissa þætti þess. Í haust voru fluttir viðtalspistlar fréttamanns útvarpsins við ýmsa forystumenn í Svíþjóð og Noregi. Að mestu voru þeir endursögn fréttamannsins, en stundum mátti heyra sýnishorn af máli viðmælanda. Í viðtali við formann sænska Alþýðuflokksins (Folkpartiet) talaði svíinn ensku. Áður hafði komið fram, að fréttamaðurinn var fær um að eiga viðtal á skandinavísku. Ég spurði hann hvers vegna svíinn hefði talað ensku. Hann skýrði það svo, að þannig þóttust þeir standa jafnt að vígi.

Íslendingar geta ekki vænst þess af öðrum en færeyingum að verða skildir á eigin máli. Alltaf tapast eitthvað við þýðingu, hversu fær sem maður er í málinu. Hálfu meira brenglast, þegar báðir þýða úr móðurmáli sínu, eins og gerist, þegar norrænir menn tala saman á ensku. Reynsla mín er sú að ekki tekst að fjalla um íslensk þjóðfélagsmál á ensku, þótt leitað sé aðstoðar færra enskumanna. Hin ýmsu blæbrigði málsins og hugtök varðandi stjórnskipun, félagsskap og hugmyndaheim íslendinga eru að svo miklu leyti komin frá dönum og norðmönnum og enskt mál nær þeim illa. Sem dæmi um það má nefna, að á sínum tíma fékk menntamálaráðuneytið Jóhann S. Hannesson til að þýða greinargerð um skólamál á Íslandi úr dönsku á ensku. Að loknu verki sagði sá ágæti ensku- og íslenskumaður, að það væri í rauninni ekki gerandi með góðu móti, hér væri um svo mörg hugtök að ræða, sem væru framandi ensku máli og menningu.

Þegar ég leiði fólk frá Norðurlöndum saman við íslendinga, hvet ég gestina til að tala dönsku/norsku/sænsku og halda því áfram, þótt íslendingurinn svari á ensku, nema því aðeins að íslendingurinn biðjist eindregið undan því, og endurtaka á sama máli, ef ekki skilst, frekar en svara íslendingnum á ensku. Með því móti má hafa nokkurn stuðning af því, sem er skylt í málunum, og íslendingurinn fær betur tækifæri til að kynna íslensk nöfn, stofnanir og hvers konar fyrirbæri. Um leið fær gesturinn nokkra hugmynd um, að íslenskt mál er í senn klassískt menningarmál og frjótt nútímamál.

 

 

Finnar ryðja enskunni til rúms

Dæmi má nefna um rannsóknanámskeið á vegum Norðurlandaráðs sem að ósk finna fer fram á ensku í stað skandinavísku. Það er dálítið hlálegt að finnar, sem ekki eru um allt frjálsir vegna nábýlis við rússa, skuli beinlínis ryðja ensku máli til rúms á nýju sviði samskipta norrænna manna.

Grundvöllur norræns samstarfs eru hugsjónir og viðhorf sem borist hafa milli landanna og birtast best í þjóðtungunum þremur, dönsku, norsku og sænsku, en þar er íslenskan fulltrúi upprunans. Ef ensk tunga verður viðurkennd í samskiptum á vegum Norðurlandaráðs, er meginforsenda norræns samstarfs úr sögunni. Þá mætti eins draga skota og íra inn í samstarf við íslendinga og norðmenn, en sleppa finnum, sem geta þá snúið sér frekar að þjóðum austur-Evrópu.

Fráleitt er að sjá á vegum Norðurlandaráðs nöfn stofnana og starfsheiti háskólamanna á ensku, jafnvel póstfang (Copenhagen). Með því er spillt fyrir að menn kynnist stofnunum og menningu grannþjóðanna. Væri ráð, að leiðbeiningar um slíkt bærust aðstandendum námskeiða frá viðkomandi stofnun Norðurlandaráðs.

 

Sérstaða íslendinga kynnt

þótt íslendingur þurfi að tala dönsku/norsku/sænsku er hann ekki á allan hátt sá sem minna má sín, eins og bent hefur verið á. Óhugsandi er að íslenskt mál verði almennt skiljanlegt á Norðurlöndum, en samt má kynna íslenskt mál þar betur en gert hefur verið. Fyrir nokkrum árum lagði Baldur Jónsson til í blaðagrein, að tekin yrði upp kennsla í grunnskólum Norðurlanda í íslenskri stafagerð og mannanafnavenjum. Það er námsefni sem kennarar og nemendur hljóta að meta vel og mundi vekja áhuga á íslensku máli yfirleitt. Tillögu Baldurs hefur ekki verið sinnt fyrr en nú í janúar, að ég vakti athygli formanns menningarmálanefndar Norðurlandaráðs (Eiðs Guðnasonar) á henni. Hann hét því að fylgja málinu eftir á vettvangi Norðurlandaráðs, en þar tæki að vísu langan tíma að fjalla um mál og ljúka þeim. — Hitt er vitað, að íslendingar, þar með talin íslensk stjórnvöld, eiga iðulega sjálfir sök á því, að ekki er tekið tillit til íslenskra nafnvenja og stafagerðar á Norðurlöndum.

Oft er sárt að finna þröngsýni fólks á Norðurlöndum og áhugaleysi gagnvart íslenskum málum. Slíkt er hlutskipti smáþjóðar. Íslendingar mega samt ekki láta slík sárindi spilla fyrir samskiptum við Norðurlönd í þágu eigin þjóðmenningar og til mótvægis við hin ríkjandi áhrif hinnar þjóðlausu menningar sem berst um heiminn á ensku.

Morgunblaðinu 28. mars 1985

Í 2. tbl. fréttabréfs íslenskrar málnefndar 1984 eru hugleiðingar ritstjóra að lokinni Færeyjaför. Þar sem fjallað er um stjórnarfund norrænnar málstöðvar, segir um hlutskipti íslendinga í því samstarfi (s. 8): „þeir hafa meiri ástæðu en fulltrúar annarra málsamfélaga á Norðurlöndum til að spyrja, hvaða erindi þeir eiga inn í samstarf, sem hefir það aðalmarkmið að efla dönsku, norsku og sænsku um öll Norðurlönd, þ. á m. á Íslandi.“

Íslendingar þurfa margt að sækja til annarra þjóða, en annað kemur óbeðið og þarf samt ekki að spilla, ef samskiptin eru ekki einhliða, heldur fjölbreytt. Meðan áhrifavald dana var mikið hér á landi, var þjóðinni hagur að sem mestum samskiptum við aðrar þjóðir en dani, enda áttu Jón Sigurðsson og samherjar hans nytsamleg samskipti við englendinga um verslunarmál og við norðmenn um fiskveiðar. Þannig styrktu íslendingar stöðu sína gagnvart dönum og stækkuðu heim sinn.

Enn er það svo, að okkur íslendingum líkar misvel það sem kemur frá Norðurlöndum, og ekkert er eðlilegra en menn finni að því sem illa líkar. Engin rök eru samt fyrir því, að þar gæti áhrifa sem þjóðin geti ekki staðist. Öðru máli gegnir um hin þjóðlausu menningaráhrif sem hingað koma á ensku máli. Þau áhrif sýnast ætla að verða eins rík á mál almennings og dönsk áhrif voru á mál heldra fólks á 18. öld. Lítil vísbending um það er, að unglingar tjá helst tilfinningar sínar á ensku í óskalagaþáttum útvarpsins og í kroti á biðskýlum, hæ og bæ eru að verða algengustu samskiptatákn íslendinga og ók-ei helsta ályktunarorðið.

Ekkert þótti mér brýnna sagt um síðastliðin áramót en orð síðasta Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins (30. desember), sem blaðið setti sérstaklega með stóru letri: „Holskefla engilsaxneskra menningaráhrifa hefur riðið yfir okkur eins og aðrar þjóðir í okkar heimshluta í krafti nútímafjölmiðlunar og á þessari stundu getur enginn sagt með nokkurri vissu, hvort við, sem þjóð, stöndum af okkur þessa holskeflu. Þetta er mesta vandamál þjóðar okkar um þessar mundir.“

Með þetta í huga eiga íslendingar brýnt erindi „inn í samstarf, sem hefir það aðalmarkmið að efla dönsku, norsku og sænsku um öll Norðurlönd, þ. á m. á Íslandi“, eins og vitnað var til hér að framan. Með því að hafa tök á þessum þremur þjóðtungum draga íslendingar úr þörf sinni á að leita þekkingar og samskipta erlendis á ensku. Eins og nú standa sakir getur efling þessara þjóðtungna ekki orðið svo mikil að íslensk tunga spillist af. Orð Reykjavíkurbréfs minna á, að afstaða manna til þessara mála er góðu heilli óháð afstöðu þeirra til samstarfs við erlend ríki.

 

En ef saltið dofnar, með hverju á þá að selta það?

Enn vitna ég til hugleiðinga ritstjórans, þar sem hann segir í kafla um Færeyjar og Ísland (s. 9): „Unglingar, sem alast upp á Íslandi, eiga bágt með að skilja, hvers vegna þeir eru látnir læra dönsku í skólum, enda nota þeir ensku í samskiptum við Dani (og Norðmenn og Svía) eins og aðra útlendinga, sem hingað koma.“

En það er ekki aðeins danska sem víkur fyrir ensku í samskiptum við útlendinga, heldur einnig íslenska. Íslendingar, jafnt fullorðnir sem ungmenni, tala helst ekki íslensku við útlendinga, þótt þeir séu hér langdvölum og ætli að læra íslensku, heldur tala ensku. Þykir mörgum útlendingi illt við að una.

Nýleg athugun á viðhorfum íslendinga leiddi m.a. í ljós að þeir þykjast allstoltir af því hlutskipti sínu að vera íslendingur. Samt sýna þeir ekki það stolt eða sjálfsvirðingu í samskiptum við útlendinga að þeir kynni íslenska menningu eins og auðveldast er, nefnilega með því að tala við þá íslensku, þegar kostur er. Margir íslendingar nota ekki heldur tækifærið, þegar það býðst, til þess að þjálfa sig í dönsku/norsku/sænsku, þeim tungumálum sem eru skyldust móðurmáli þeirra.

 

Vanmetakennd

Norðmenn, svíar og danir sýna eigin þjóðtungum ræktarleysi ekki síður en íslendingar. Það kemur m.a. fram í því, að þeir grípa til ensku að óþörfu. Þegar ég kynntist norðmönnum fyrst fyrir aldarfjórðungi, var það oft, þegar norskir stúdentar voru við skál, að þeir slógu um sig með ensku, en það gerðu íslenskir stúdentar ekki þá.

Stundum talar svíi heldur ensku en sænsku við íslending af ímyndaðri tillitssemi. Svíar eru margir hallir undir bandaríska menningu og sænskir menntamenn dýrka margir bandarískt þjóðfélag eða vissa þætti þess. Í haust voru fluttir viðtalspistlar fréttamanns útvarpsins við ýmsa forystumenn í Svíþjóð og Noregi. Að mestu voru þeir endursögn fréttamannsins, en stundum mátti heyra sýnishorn af máli viðmælanda. Í viðtali við formann sænska Alþýðuflokksins (Folkpartiet) talaði svíinn ensku. Áður hafði komið fram, að fréttamaðurinn var fær um að eiga viðtal á skandinavísku. Ég spurði hann hvers vegna svíinn hefði talað ensku. Hann skýrði það svo, að þannig þóttust þeir standa jafnt að vígi.

Íslendingar geta ekki vænst þess af öðrum en færeyingum að verða skildir á eigin máli. Alltaf tapast eitthvað við þýðingu, hversu fær sem maður er í málinu. Hálfu meira brenglast, þegar báðir þýða úr móðurmáli sínu, eins og gerist, þegar norrænir menn tala saman á ensku. Reynsla mín er sú að ekki tekst að fjalla um íslensk þjóðfélagsmál á ensku, þótt leitað sé aðstoðar færra enskumanna. Hin ýmsu blæbrigði málsins og hugtök varðandi stjórnskipun, félagsskap og hugmyndaheim íslendinga eru að svo miklu leyti komin frá dönum og norðmönnum og enskt mál nær þeim illa. Sem dæmi um það má nefna, að á sínum tíma fékk menntamálaráðuneytið Jóhann S. Hannesson til að þýða greinargerð um skólamál á Íslandi úr dönsku á ensku. Að loknu verki sagði sá ágæti ensku- og íslenskumaður, að það væri í rauninni ekki gerandi með góðu móti, hér væri um svo mörg hugtök að ræða, sem væru framandi ensku máli og menningu.

Þegar ég leiði fólk frá Norðurlöndum saman við íslendinga, hvet ég gestina til að tala dönsku/norsku/sænsku og halda því áfram, þótt íslendingurinn svari á ensku, nema því aðeins að íslendingurinn biðjist eindregið undan því, og endurtaka á sama máli, ef ekki skilst, frekar en svara íslendingnum á ensku. Með því móti má hafa nokkurn stuðning af því, sem er skylt í málunum, og íslendingurinn fær betur tækifæri til að kynna íslensk nöfn, stofnanir og hvers konar fyrirbæri. Um leið fær gesturinn nokkra hugmynd um, að íslenskt mál er í senn klassískt menningarmál og frjótt nútímamál.

 

Finnar ryðja enskunni til rúms

Dæmi má nefna um rannsóknanámskeið á vegum Norðurlandaráðs sem að ósk finna fer fram á ensku í stað skandinavísku. Það er dálítið hlálegt að finnar, sem ekki eru um allt frjálsir vegna nábýlis við rússa, skuli beinlínis ryðja ensku máli til rúms á nýju sviði samskipta norrænna manna.

Grundvöllur norræns samstarfs eru hugsjónir og viðhorf sem borist hafa milli landanna og birtast best í þjóðtungunum þremur, dönsku, norsku og sænsku, en þar er íslenskan fulltrúi upprunans. Ef ensk tunga verður viðurkennd í samskiptum á vegum Norðurlandaráðs, er meginforsenda norræns samstarfs úr sögunni. Þá mætti eins draga skota og íra inn í samstarf við íslendinga og norðmenn, en sleppa finnum, sem geta þá snúið sér frekar að þjóðum austur-Evrópu.

Fráleitt er að sjá á vegum Norðurlandaráðs nöfn stofnana og starfsheiti háskólamanna á ensku, jafnvel póstfang (Copenhagen). Með því er spillt fyrir að menn kynnist stofnunum og menningu grannþjóðanna. Væri ráð, að leiðbeiningar um slíkt bærust aðstandendum námskeiða frá viðkomandi stofnun Norðurlandaráðs.

 

Sérstaða íslendinga kynnt

þótt íslendingur þurfi að tala dönsku/norsku/sænsku er hann ekki á allan hátt sá sem minna má sín, eins og bent hefur verið á. Óhugsandi er að íslenskt mál verði almennt skiljanlegt á Norðurlöndum, en samt má kynna íslenskt mál þar betur en gert hefur verið. Fyrir nokkrum árum lagði Baldur Jónsson til í blaðagrein, að tekin yrði upp kennsla í grunnskólum Norðurlanda í íslenskri stafagerð og mannanafnavenjum. Það er námsefni sem kennarar og nemendur hljóta að meta vel og mundi vekja áhuga á íslensku máli yfirleitt. Tillögu Baldurs hefur ekki verið sinnt fyrr en nú í janúar, að ég vakti athygli formanns menningarmálanefndar Norðurlandaráðs (Eiðs Guðnasonar) á henni. Hann hét því að fylgja málinu eftir á vettvangi Norðurlandaráðs, en þar tæki að vísu langan tíma að fjalla um mál og ljúka þeim. — Hitt er vitað, að íslendingar, þar með talin íslensk stjórnvöld, eiga iðulega sjálfir sök á því, að ekki er tekið tillit til íslenskra nafnvenja og stafagerðar á Norðurlöndum.

Oft er sárt að finna þröngsýni fólks á Norðurlöndum og áhugaleysi gagnvart íslenskum málum. Slíkt er hlutskipti smáþjóðar. Íslendingar mega samt ekki láta slík sárindi spilla fyrir samskiptum við Norðurlönd í þágu eigin þjóðmenningar og til mótvægis við hin ríkjandi áhrif hinnar þjóðlausu menningar sem berst um heiminn á ensku.

Morgunblaðinu 28. mars 1985