Finni, sem búsettur hafði verið á annan tug ára í Svíþjóð, sagði mér, að sænska væri orðin honum tungutamari en finnska. Sænska væri vélrænt mál og auðvelt í notkun, en í finnsku reyndi mikið á hugvit, þegar menn vildu koma orðum að hugsun sinni, því að málið væri myndríkt og eiginlega listrænt. Til þess að hafa það fyllilega á valdi sínu yrðu menn að nota það stöðugt. Ég kann ekki finnsku, en mér datt í hug, að eitthvað slíkt mætti einnig segja um íslensku boriðsaman við norsku, dönsku og sænsku. Ég verð aldrei fullnuma í íslensku, þótt ég hafi mig allan við og þyki námið heldur skemmtilegt. Íslenskan hefur alla tíð verið allsráðandi á íslandi, ef undan er skilið helgimál kaþólsku kirkjunnar. Erlendir embættismenn fengu aldrei að nota eigin tungu í skiptum við landsmenn. Það var ekki fyrr en eftir að íslendingar höfðu sagt sig úr lögum við Dani, að danska varð skyldunám í skólum hér. Svo liðu tveir áratugir, en með tilkomu sjónvarpsins fór enska að hljóma flest kvöld á heimilum landsmanna, og stöðugt lengist sá tími, sem enska klingir í eyrum á heimilunum.

Færeyingar hafa frá því að þeir fengu sjálfstjórn árið 1946 haft rétt til að taka í sínar hendur ýmis mál, sem Danir ráða nú, en með því skilyrði, að þeir tækju á sig kostnaðinn. Í barnaskólunum er kennt á færeysku. Framhaldsskólarnir eru enn undir danskri lögsögu. Háskólamenntaðir Danir fá margir ekki starf við sitt hæfi í Danmörku og sækja því um kennarastöður í Færeyjum og fá þær gjarna, en færeyskir kennarar verða út undan. Fyrir vikið fer kennsla að miklu leyti fram á dönsku í færeyskum framhaldsskólum.

Töluvert er gefið út af færeyskum barnabókum, en lítið af unglingabókum. Færeyskum unglingum þykja færeyskar unglingabækur gamaldags og lesa heldur unglingabækur á dönsku, máli framhaldsskólanna. Styrkur íslenskunnar sem þjóðtungu er, að hún hefur verið fullgild á öllum sviðum, þ. á m. sem unglingamál. Hér verður þó að undanskilja sjónvarpið. Þar hefur þjóðtungan aldrei verið fullgild.

í Bretlandi og Bandaríkjunum er svo til allt erlent sjónvarpsefni talsett. Það er auðvitað gert af tillitssemi við áhorfendur, en ekki af því, að ráðamenn stöðvanna óttist, að enskt mál bíði af því tjón, að það lítið, sem flutt er af efni, sem tekið er upp á erlendum málum, sé flutt án þess að talsetja það á ensku. Eins er í Þýskalandi og Frakklandi, að erlent sjónvarpsefni er talsett á þjóðtungunum.

Nú er farið að talsetja barnaefni hér. Þá er svo komið, að íslenska þykir ekki hæfa í sjónvarpi fullorðna fólksins, heldur aðeins handa óvitunum. Hvernig ætli börnin muni líta á það? Munu þau telja íslenskt mál óvitamál, sem þau þurfi sem fyrst að þroskast frá?

Þegar á það hefur verið minnst að gera íslenskt mál fullgilt sem sjónvarpsmál með talsetningu, hafa komið fram andmæli gegn því, svo sem það, að ekki sé hægt að hugsa sér að sjá John Wayne tala spænsku eða ítölsku. En með stórþjóðunum á almenningur ekki þessa viðkvæmni, og engum þykir neitt að því hér að sjá kunningja okkar, íslenska leikara, á sviði í framandi gervi í verkum, sem samin eru á erlendum málum, svo sem að sjá bandarískan sölumann tala hreina íslensku.

Kunnugur maður segir talsetningu kosta um það bil tífalt meira en textun. Textun er ódýr, og því er þetta ekki mikill kostnaður. En hver á að borga? Þjóðin heldur úti hundruðum íslenskukennara, án þess að nemendur greiði sjálfir kostnaðinn. Raunar má telja flesta kennara landsins íslenskukennara. Þjóðin leggur stórfé til þjóðleikhússins umfram það, sem leikhúsgestir greiða. Musteri íslenskrar tungu var það kallað, þegar það tók til starfa. Íslenskan á ekki að vera musterismál, heldur mál heimilanna. Kostnaðurinn við að talsetja allt sjónvarpsefni og láta þannig íslensku hljóma aftur sem aðalmál á heimilunum mundi áreiðanlega skila miklu betri árangri sem óbein kennsla í þjóðtungunni en sama fjárhæð til íslenskukennslu í skólum og til Þjóðleikhússins á fjárlagalið menntamálaráðuneytisins. Með almennri sjónvarpseign er hið eiginlega þjóðleikhús komið inn á heimilin. Það nístir mig að hugsa til þess að setustofur íslenskra heimila skuli vera orðnar að enskumælandi bíósölum.

Ég ætla að vona að menn fari ekki að telja eftir kostnaðinn við talsetningu og geri lítið úr mikilvægi þess, að íslenska sé það mál sem helst heyrist á heimilum landsmanna. Það væru einstæðar hugmyndir um tungumálagáfur þjóðarinnar að búast við því, að þjóð geti gert sér tungu sína tama á öllum sviðum án þess að eiga henni að venjast í dægrastyttingu sinni. Færeysk ungmenni kunna færeysku til að lesa færeyskar unglingabækur, en þeim þykja þær gamaldags, enda vanastir dönsku í skólunum. Íslendingar kunna enn að heilsast og kveðjast og slá botn í mál á íslensku, en gera það samt margir heldur á hinu nýja dægrastyttingarmáli þjóðarinnar.

Lesbók Morgunblaðsins 16. apríl 1988: 3