Einar Petersen bóndi á Kleif sagði mér frá því að á æskustöðvum hans á Jótlandi fyrir stríð hefði þótt ógæfulegt, ef unglingur fór ekki strax eftir fermingu að heiman til að vinna fyrir sér. Hvert fóru þá unglingarnir? Þeir réðust í vist á sams konar heimili og þeir komu frá til að vinna sömu störfin og þurfti að vinna heima: í fjósi, úti á akri eða inni í eldhúsi. Jafnvel gat farið svo, að í stað þess sem fór að heiman, réðst jafnaldri hans í vist á heimilið til að vinna sömu verk og hinn var látinn vinna hjá ókunnugum. Slík viðskipti þóttu vænleg til þroska. Unglingarnir komust þá undan verndarvæng foreldranna og gátu mannast og fengið tækifæri til að venja sig af óheppilegum venjum í samskiptum, sem stundum mótast milli barns, systkina og foreldra, áður en þau yrðu samgróin.
Íslenskur skólamaður lýsti fyrir mér fyrir fáum árum ekki óskyldu viðhorfi til skólagöngu nú á tímum, en hann hafði verið í Danmörku að kynna sér skólamál. Þar væri algengt að ungt fólk sækti skóla í önnur héruð til að kynnast nýju umhverfi, þótt flest ungmenni ættu kost á skólagöngu í heimabyggð. Fannst honum það ólíkt því sem er hér, þar sem nokkuð bæri á því, að ungmenni, sem ættu kost á skólagöngu í heimabyggð, þættu því aðeins hafa ástæðu til að fara í skóla í önnur héruð, að þau væru í vandræðum heima fyrir, jafnvel til vandræða. Hefur það vafalaust spillt fyrir héraðsskólunum, þegar slíkir nemendur voru orðnir margir. Unglingar frá stöðum þar sem ekki er skóli láta hins vegar af því hvað það sé þroskandi að fara að heiman og verða að bjarga sér sjálfur. Á sama hátt hafa sveitaunglingar mannast af að fara að heiman til vandalausra í þéttbýli. Í fornum sögum eru býsna mörg dæmi um að börnum væri komið í fóstur til mikils metins fólks. Snorri Sturluson ólst sem kunnugt er ekki upp hjá foreldrum sínum í Hvammi í Dölum heldur á skólastaðnum Odda á Rangárvöllum.
Margt kaupstaðarfólk hefur talið það hafa verið sér og börnum sínum mikils virði að vera í sveit á sumrin og kynnast náttúrunni og dýrunum og sveitastörfum. Ég er sannfærður um að það sem þroskaði kaupstaðarbörnin mest var þó það að vera hlutgengur hjá vandalausum. Nú er annar háttur á. Margir foreldrar virðast vera með nagandi samviskubit 11 mánuði ársins yfir því hvað þeir eiga lítil samskipti við börn sín og vilja bæta fyrir það með nánum samskiptum í sumarleyfinu með orlofsferðum til sólarlanda. Með því móti fá börnin aldrei tækifæri til náinna samskipta við fullorðið fólk án návistar foreldranna.
Enn má minnast fornra dalamanna. Í Laxdælu segir frá því, að Bolla Bollason fýsti til útlanda, með þessum rökum: „Þykir maður við það fávís verða ef hann kannar ekki víðara en hér Ísland.“ Í Hávamálum er það talið þroskandi að fara víða og kynnast fólki:
Sá einn veit,
er víða ratar
og hefir fjöld of farið,
hverju geði
stýrir gumna hver,
sá er vitandi er vits.
Nú á tímum gerist þetta með námsdvöl og starfsreynslu erlendis. Stöðugt er bætt við námsgreinum hér á landi og þess vegna síður nauðsyn að sækja nám erlendis á byrjunarstigi. Fjölgar þá þeim, sem ekki hleypa heimdraganum, einkum Reykvíkingum, þar sem skólarnir eru flestir í Reykjavík og mest fjölbreytni í störfum. Þegar stefnt var að því fyrir nokkrum árum að stofna háskóla á Akureyri var því gjarnan haldið fram, að það væri mikilsvert fyrir Akureyringa að þurfa ekki að fara að heiman til slíks náms. Ætli Jótinn á Kleif hefði ekki heldur talið það ógæfulegt fyrir akureyrsk ungmenni að fara ekki að heiman komin á tvítugsaldur? Hins vegar tel ég að slíkur skóli ætti að gefa reykvískum ungmennum ánægjulegt tækifæri til að hleypa heimdraganum og kynnast öðru í landi sínu en höfuðborginni.
Hér á landi er alltaf auðvelt að verða sér úti um athugasemdir um náungann sem má halda að byggist á þekkingu, en geta verið úreltar vegna aukins þroska viðkomandi. Á þeim forsendum er hér haldið uppi leynilegum alþýðudómstólum, þar sem engin vörn er í málinu, því að ákærður fær hvorki að vita dóminn né dómsforsendur. Í hinu opinbera dómskerfi skal ákærður teljast saklaus, þar til sekt hans er sönnuð, en fyrir hinum hulda alþýðudómstóli er ákærður dæmdur sekur nema hann sé hreinsaðu af öllum grun. Með fjölmennari þjóðum eru hleypidómar um náungann vafalaust ekki síður algengir, en þeir hljóta að verða enn yfirborðskenndari en hér og byggjast á ytri einkennum eins og litarhætti, þjóðerni og mállýsku, og því augljósari.
Margt fólk fær að njóta sín betur með því að skipta um umhverfi. Þar sem ég er kunnugur erlendis, er lítið spurt um náungann hvernig hann hafi kynnt sig í æsku og hvernig fólk foreldrar hans og systkini séu, eins og hér er iðulega gert, heldur hvað hann vilji og hvað hann geti hér og nú, þegar hann fái að spreyta sig. Skyldi þróttur Norður-Ameríkumanna ekki hafa byggst mikið í slíku viðhorfi?
Lesbók Morgunblaðsins 24. september 1988: 3