Vel metinn borgari, kunningi minn, var í þeirri aðstöðu að hann þurfti að ráða yfir bíl, en efnin voru tæp til að kaupa venjulegan bíl. Trabant taldi hann hins vegar duga sér, en vissi það að ekki þótti mikið til slíks bíls koma, nema ef vera skyldi meðal aðdáenda Austur-Þýskalands.

Einn þeirra kallaði Trabantinn Dragbrand, og þegar hann ók börnunum hermdi hann eftir bílhljóðinu og brummaði. Það var svo skemmtilegt að þau þurftu ekki að skammast sín fyrir föður sinn vegna bílsins. En venjulegt fólk gat spillt heiðri sínum með því að láta sjá sig við Trabant-stýri, það vissi kunninginn. Hann skildi að í þessu máli réð skynsemin ekki almenningsálitinu, heldur hégómaskapur. Hann kom því á framfæri við innflytjandann að hann skyldi selja Trabantinn undir kjörorðinu „skynsemin ræður". Var það gert, og orðin límd á bílana. Trabant-eigendur óku þá um með álímda afsökun fyrir að aka á slíkum bíl.

Ég hef stundum orðið undrandi þegar ég frétti af fólki sem tekur upp á því að byggja yfir sig, þótt ég viti það í mjög sæmilegu eigin húsnæði miðað við þarfir heimilisins um fyrirsjáanlega framtíð. Við þekkjum vítahringinn sem þetta getur leitt fólk í, svo að byggingin verður hjónunum ofraun í bráð og lengd. Ég spyr mig þá kannske: Ætli konan hafi endilega viljað þetta? Kannske var það bara það, að maðurinn hafi haldið að konan vildi þetta, eða að honum fyndist hann ekki vera talinn maður með mönnum meðal kvenna að búa eiginkonunni ekki rýmra húsnæði. Og hver er það sem fær ungt fólk með kornabörn til að telja 150 fermetra íbúð hæfilega, og síðan fórnar það hamingju fjölskyldunnar til að fullnægja þessari kröfu?

Það er almenningsálitið, og ég vil ætla álit kvenna ekki síst, sem stjórnar þessu. Karlmennirnir sem fá þann dóm að þeir stjórnist af hinum hörðu mætum eru í reynd oft mótaðir af hugmyndum um það sem konur (eiginkonur og konur yfirleitt) vænta af þeim og hleypa í sig hörku til að standa sig og verða að vanrækja samskipti við sína nánustu til að eignast það sem þeir halda að ætlast sé til af þeim. Konurnar sem eigna sér hin mildu mæti standa því á bak við karlana sem fórna jafnvel heilsunni til að þóknast þeim. Hugsum okkur bara hver viðbrögðin yrðu ef karlmenn mættu búast við því að verða að athlægi meðal kvenna af að aka í dýrum bíl eða byggja mjög stórt yfir sig og sína.

Fornmenn eru oft teiknaðir í hettuúlpum og hafa væntanlega kunnað að klæða sig í vetrarferðum og við útiverk í samræmi við veðráttu landsins. Svo týndu íslendingar hettuúlpunni, og það var ekki fyrr en um miðja þessa öld að þeir eignuðust aftur yfirhöfn sem dugði í vetrarveðrum. Það var úlpan sem sniðin var eftir norður-amerískri hermannaúlpu, en hún aftur eftir úlpu inúíta. Þá fyrst gat fólk látið sér líða vel þótt það þyrfti að skjótast milli húsa. Úlpan breiddist út og varð þjóðareinkenni. Um 1970 benti roskinn maður og lífsreyndur mér á að úlpan þætti nú ófín, og nú er hún að hverfa. Virðast margir halda að hætt sé að framleiða hana, en hún fæst enn hjá Ellingsen og einnig má panta hana hjá verksmiðjunni.

Það gerðist í félagsfræðitíma í fjölbrautaskóla fyrir nokkrum árum að kennarinn vildi útskýra hugtakið menningarkimi, en það er hópur fólks sem hefur sérstakt snið, svo sem í framkomu, áhugamálum og mætum. Sem dæmi nefndi hann þá sem klæddust VÍR-úlpu, en það væru vinstri-sinnaðir  menn sem sæktu mánudagsmyndir Háskólabíós. Sárnaði sögumanni mínum, einum nemandanum, þetta því að eiginmaðurinn var úlpumaður, en að öðru leyti ekki samkvæmt lýsingu kennarans. Þeir sem enn klæðast þannig í samræmi við veðurfar verða fyrir háði og aðkasti. Úti á landi tala konur um gegningaúlpur, og er auðvitað óverjandi að fara á mannamót svo búinn. Hér í borg hef ég heyrt hóp karla frakkaklæddra gera hróp að úlpumanni fyrir búninginn. Nú er tvennt til fyrir úlpumenn. Annaðhvort gefa þeir Rauðakrossinum úlpurnar og fara í frakka og fá sér laust höfuðfat og trefil, sem sumir vilja nú alltaf vera að týna, eða þeir setja stóran límmiða á úlpuna með Trabant-kjörorðunum „skynsemin ræður".

En hvað er ég að fara með þessu. Jú, það eru konurnar í landinu sem eru í yfirburðaaðstöðu til að innræta börnum viðhorf og þar með fullorðnum. Ríkjandi viðhorf er að það sé skömm að eiga ekki stóra íbúð og sæmilega dýran bíl og að það sé skömm að ganga í skjólgóðri yfirhöfn sem auðvelt r að endurnýja. Þetta viðhorf sem konurnar innræta knýr karla til að fórna ró og næði til að njóta samvista með sínum nánustu í samræmi við hin mildu mæti kvenna. Það er fundið' að því þegar þeir gera eins og konurnar vilja (að afla tekna með löngum vinnudegi til að standa undir dýru húsnæði og bílum), en það kemur í veg fyrir að þeir geri eins og konurnar vilja (að sinna sínum nánustu með því að eiga stund með þeim). Samt er því haldið fram að karlmenn ráði.

Þetta ástand minnir á það þegar Ólafur Kárason, síðar ljósvíkingur, var vistaður hjá þeim bræðrum Júst og Nasa, og báðir vildu stjórna honum:

„Þú verður kyrr á láglendinu, ræfill, sagði Nasi.

Þú ferð uppí fjall, sagði Júst."

Svona rifust þeir bræður, en Ólafur vildi helst hlýðnast báðum og lamaðist af skelfingu. Eins er komið fyrir karlmönnum landsins að þeir vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga fyrir ráðríki tveggja kvenfylkinga sem hefur hvor sínar kröfur uppi, og reyndar sömu konurnar margar í báðum fylkingum.

Lesbók Morgunblaðsins 12. nóvember 1988: 3