Ég kom heim með flugvél frá Osló um miðjan júní og lenti þar í sæti við hliðina á norskum augnlækni frá Þrándheimi og konu hans sem hingað komu á augnlæknaþing. Þegar við kynntumst betur skildi ég að þau voru eiginlega pílagrímar að láta gamlan draum um Íslandsferð rætast. Konan kunni þjóðsöng íslendinga og sitthvað fleira íslenskt og maðurinn hafði tvær kennslubækur í íslensku á lofti. Þau dáðust að málrækt íslendinga.

Þegar út úr Leifsstöð kom mætti augum þeirra bíll merktur ferðaskrifstofu augnlæknaþingsins og undir stóð Norway / Sweden. Ég fyrirvarð mig fyrir ferðaskrifstofuna að hún skyldi ekki nefna land þessara pílagríma á máli þeirra.

Nú má vera að fræðilegt tungumál augnlæknaþingsins hafi verið enska. Samt er engin ástæða til að nefna löndin á ensku. Ég hef séð mjög smekklega staðið að dagskrárgerð norræns stærðfræðiþings hér þar sem ensku máli var aðeins beitt sem vísindamáli. Þetta mættu aðstandendur slíkra ráðstefna athuga.

Félagsblaðið, Félag leiðsögumanna 7 1989