Ég kynntist fyrst leiðsögumannastéttinni fyrir áratug á leiðsögunámskeiði. Fyrirfram hafði ég þá hugmynd um móttöku erlendra ferðamanna að þar bæri nokkuð á skrumi um land og þjóð, og miðaði þá við auglýsingar erlendis. Á þessum 10 árum sem ég hef stundað leiðsögn í ígripum hef ég sannfærst um að leiðsögumenn gera sér far um hófsemi í dómum og forðast skrum. Auðvitað er þar misjafn sauður í mörgu fé, og að vísu fáir Íslendingar sem geta borið um þetta nema bílstjórarnir, en þeir eru ómetanlegir förunautar og að sjálfsögðu orðvarir um samferðamenn sína, leiðsögumennina. Á leiðsögunámskeiðinu var afstaðan sú að leiðsögumenn skyldu forðast skrum, enda margir ferðamenn glöggir og margfróðir og mundu ekki þegja um slíka landkynningu þegar heim kæmi og það draga úr aðsókn í ferðir hingað.

Leiðsögumönnum finnst þeir bera í sér samvisku þjóðarinnar gagnvart útlendingum. Ég hef átt því láni að fagna að fá að skipuleggja og stjórna kynningarleiðöngrum útlendinga hér á landi, en það er talsvert annað hlutverk en að vera leiðsögumaður ferðar sem ferðaskrifstofa hefur skipulagt. Það er ítrekuð reynsla mín að þeim þyki mest varið í dvölina sem fá tækifæri til að kynnast þjóðinni af eigin raun, og ég held að mér sé óhætt að segja að þjóðin tapi ekki á því. Kynning þeirra sem ég hef kvatt til liðs hefur verið sérlega efnisföst og einkennst af lítillæti og hófsemi.

Listin er að láta gestunum eftir að dæma sjálfir. Eitt sinn ók ég norður Sprengisand með útlendan hóp. Við bílstjórinn töldum öldósirnar með veginum og hugsuðum með hryllingi til framtíðarinnar, þegar þessi ílát hefðu tíðkast hér árum saman. Ég sá enga ástæðu til að vera með fingurinn á lofti og benda þeim á auðnina og jöklana og þá auðvitað ekki heldur á dósirnar. Þegar kom niður í Bárðardal úr auðninni blasti við gróðursæld og snyrtileg býli og höfðu þá ferðamennirnir orð um hvað þeim fyndist allt hreinlegt á víðavangi hér á landi. Þeir hlutu að ráða sínu mati, þótt dósirnar væru efst í huga okkar bílstjórans

Í sjónvarpsþætti um landkynningu og afstöðu íslendinga til skoðana útlendinga á Íslandi nú á útmánuðum var þetta fullyrt um leiðsögn útlendinga um Ísland á sumrin: „Þetta fólk kemur frá gömlum og grónum menningarþjóðum og þar er verið að reyna að sannfæra þetta vesalings ferðafólk um að hér sé allt mest og best og merkilegast. Svo fer fólkið um landið og þá er ekkert sérstakt til að státa af nema landslagið og tengsl þess við Íslendingasögurnar. Jú, jú, það er uppbygging út um allt land, það sjá allir. Það passar bara ekki að hér sé allt mest og best.“

Þessi fullyrðing er í stíl við margt sem er látið flakka þegar fjölmiðlafólk leitar uppi þá sem kunnir eru fyrir smellnar athugasemdir, en ekki er hirt um að kynna sér málið meðal þeirra sem best mega vita.

Annar þátttakandi kvaðst efast um að í öðrum tungumálum væri til orð um landkynningu og átti það að vera til marks um að landkynning væri eitthvert séríslenskt fyrirbrigði. Engin tilraun var gerð til að kanna hvað hæft væri í því.

Ég skal ekki tilgreina hér orð í erlendum málum um landkynningu, en Íslendingar vita um landkynningu stórveldanna hér á landi, þar sem er Menningarstofnun BNA með m.a. vandað bókasafn í Reykjavík og aðra kynningu á bandarískri hámenningu og MÍR, menningarsamtök Íslands og Ráðstjórnaríkjanna, með kynningu á menningu þjóða RR. Þá hafa Bretar The British Council til kynningar á menningu sinni um allan heim, Frakkar Alliance Francaise, Vestur-Þjóðverjar Goethe-stofnunina og Svíar Svenska institutet. Í Danmörku er Det danske Selskab til kynningar á danskri menningu, aðallega utan Norðurlanda. Það skyldi ekki vera svo þegar betur er að gáð að sérstaða Íslands sé fólgin í því að hér skorti markvissa og vel skipulagða landkynningu?

Norðmenn munu ekki hafa stofnun hliðstæða framangreindum stofnunum Svía og Dana, en blaða- og menningardeild utanríkisráðuneytis þeirra og Útflutningsráð standa fyrir margháttaðri landkynningu. Þeir hófu t.d. snemma landkynningu í Japan. Norðmenn skipuleggja kynningu á norskum bókum á alþjóðlegum bókasýningum til að leita uppi útgefendur sem kynnu að vilja fá þær þýddar. Ekkert slíkt gera íslensk stjórnvöld. Það eru því öfugmæli að landkynning sé eitthvert sérkenni Íslendinga.

Það eru margar blaðsíðurnar og margar klukkustundirnar sem fólk er ráðið til að fylla, lesendum og hlustendum til afþreyingar. Stundum virðist sem höfundar og stjórnendur eigi í vandræðum með efni, en fái einhverja hugmynd og forðist að skoða hana sjálfir, enda gæti þá svo farið að hugmyndin gæfi ekki tilefni til vandaðs málflutnings og þáttarundirbúningurinn þá ónýtur.

Þegar eigið útvarp hófst frá Akureyri fyrir nokkrum árum fannst mér flytjendur koma fram eins og sá sem veit að hann þarf ekki að hafa hátt til þess að eftir sé tekið né láta mikinn. Þarna kom fram fólk sem ekki var orðið þreytt á að fylla þætti. Jafnvel færasta fjölmiðlafólk þarf að gæta þess að draga sig í hlé annað veifið til að hlaða sig upp.

Lesbók Morgunblaðsins 24. júní 1989