Sagnfróður maður og lögfróður hefur bent á, að málfar á hinum fornu lögbókum íslendinga sé miklu skilmerkilegra en annað fornt germanskt lagamál. í lagamáli germana var frekar talað í dæmisögum sem má túlka ýmislega. Forn lög íslensk voru hins vegar skýr og skilmerkileg og dómar því síður álitamál.
Oft er hnýtt í stofnanamál, en ekki alltaf af sanngirni. Stofnanamál er oft tilraun til að taka af tvímæli. Samt tekst stundum ekki betur en svo, að æðstu dómendur landsins túlka bókstafinn ólíkt. Það er vitaskuld skylda opinberra stofnana að setja mál skýrt fram, en það afsakar ekki málspjöll.
Einhvern tíma fóru stofnanir að rita heimilisfang með nefnifalli í stað staðarfalls. Áður hefði aðeins auli eða útlendingur illa mæltur á íslensku látið það henda sig að skrá mann t.d. á Lækjargata 10, Hafnarfjörður, og enn hef ég ekki séð bréf sem byrja í þeim stíl (t.d. Kópavogur, 11. júlí 1989) og ekki heldur skjöl undirrituð á þann veg (t.d. Stykkishólmur, 5. febrúar 1990). Nú hefur verið bætt úr þessu, svo að opinberar skrár um heimilisfang geta verið með staðarfalli, þar sem það á við. Samt heldur lögreglan í Reykjavík áfram að skrá heimilisfang á ökuskírteini í nefnifalli (t.d. Vallagata 15) og ríkisféhirðir sendir fylgiseðil með sömu málleysu. Fleiri opinberar stofnanir reynast vera hafnar yfir málræktarátak og almenna máltilfinningu. Pósturinn heldur áfram að innræta fólki að skrifa eins og Stafholt í Borgarfirði sé í Borgarnesi, en þannig les almenningur úr póstfangi sem skráð er samkvæmt fyrirmælum Póstsins. Þeir eru til sem ekki una þessari misþyrmingu á máli og staðfræði og skrifa heldur póstfang á eftirfarandi hátt: Helgi Jónsson, Lækjarbakka, Viðvíkursveit, Skagafirði. Svo kemur tvöfalt línubil, en neðst er bókstafatákn landsins og kennitala póststöðvar, nefnilega ÍS-551. Þarna þarf ekkert að fara á milli mála. Fylgt er eðlilegri staðarkynningu með staðarfalli heimilis, sveitar og héraðs og sinnt þörfum póstsins með því að setja neðst kennitölu póststöðvar og afmarka hana. Skýrara er að setja bókstafatákn landsins á undan kennitölu póststöðvarinnar, þótt ekki sé mælt fyrir um að það sé gert við innanlandspóst.
Enn má nefna Veðurstofuna. Þar eru ýmsir málhagir menn, eins og kunnugt er. Því merkilegra er það að veðurathugunarstöðvar eru ekki kynntar á eðlilegu mæltu máli í útvarpi, eins og þegar maður lýsir veðri á ýmsum stöðum í upptalningu: Hornbjargsvita, sunnan þrír..., Hveravöllum Hrauni klukkan þrjú, o.s.frv., heldur með skýrslulestri: Hornbjargsviti,..., Hveravellir, ... , Hraun frá klukkan þrjú, - - í tilkynningum í útvarpi um kirkjusamkomur um jól og páska er líka þululestur, þar sem lesið er eins og úr dagbók: Skírdagur: Guðsþjónusta kl. 11, páskadagur: hátíðarmessa kl. 11, annar páskadagur messa kl. 2, þar sem mælt mál hefur tímafall (þolfall): Skírdag, páskadag o.s.frv. Einstaka prestur gáir samt að þessu, eins og heyra má.
Lesbók Morgunblaðsins 30. júní 1990