Ungur, þegar ég var kominn undan skólaaga, varð ég fráhverfur þeirri greinarmerkjasetningu, sem kennd var í skólum og ég kunni reyndar nógu vel. Þessa frelsis neytti ég til að mynda, þegar ég sem ritstjóri bar ábyrgð á frágangi ritsmíða annarra. Ég veit ekki, hvers vegna ég hvarf frá þessari greinarmerkjasetningu. Nú finnst mér þægilegast að aðhyllast hana. Kunningi minn kveðst hafa fengið þá leiðbeiningu í gagnfræðaskóla að setja kommu, þar sem hlé var í máli, en hann hefði ekki tileinkað sér reglurnar. Samt gerði hann aldrei greinarmerkjavillu í menntaskóla, fullyrðir hann. Maðurinn er reyndar ekki hver sem er, er orðlagður sagnameistari og talar án flumbrugangs með eðlilegri hrynjandi máls.

Ég samdi bók um árið, þar sem brýnt var, að rök væru ljós og brengluðust hvergi. Þá reyndist mér greinarmerkjasetning æsku minnar heppileg, vék varla frá henni nema í fyrirsögnum. Það hefur verið iðja mín undanfarin ár, reyndar ekki tímafrek, en nokkuð regluleg, að lesa upp fyrir áheyranda, sem var ungum leiðbeint um að lesa eðlilega. Þá er mikil stoð, þegar lesmálið er með greinarmerkjum í stíl Björns Guðfinnssonar; ég nefni Önnu Karenínu í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar. Þá þarf upplesari ekki að skyggnast fram í málið til að athuga, hvort samtengingin og er í upphafi aðalsetningar, en þá á við að hafa hlé, svo að dæmi sé tekið. Ég nefni einnig það, sem ég les um þessar mundir, Sólon Islandus eftir Davíð Stefánsson, hvorttveggja aðgengilegt til upplestrar vegna greinarmerkja. Öðru máli gegnir um efni í Morgunblaðinu, og reyndar yfirleitt nýtt lesefni nú, þar fær lesandi ekki stuðning af greinarmerkjum til að skilja fljótt og vel.

Það er dálítið merkilegt, ef ég tjái mig um þetta, að menn vilja bregðast æstir við og lýsa jafnvel þeirri dýrð, að nú eigi ekki að setja kommu á undan samtengingunni en. Það er eins og ég boði ófrelsi; ætli það hafi ekki verið slík tilfinning, sem réð mér, þegar ég hvarf frá greinarmerkjasetningu skólans. – Ég minni á, að ekki eru lög um stafsetningu né greinarmerkjasetningu, heldur setur menntamálaráðuneytið reglur, og þeim er þeim einum skylt að fylgja, sem eru undir lögsögu þess, svo sem flestir skólar landsins.

Það er auðvelt að nefna dæmi, þar sem smekklegt er að víkja frá greinarmerkjasetningu þeirri, sem kennd var um miðja síðustu öld. Þá er að gera það, en af langri reynslu tel ég verklegast að rita fyrst samkvæmt reglunum gömlu, en athuga á eftir, hvar fari betur að víkja frá þeim. Það er aðeins fyrir listamenn að styðjast ekki við reglurnar í upphafi. Eins og oft vill vera um reglur, gera reglur um greinarmerki höfundinn frjálsan og óháðan listamannsnæmi, sem fæstir eiga, og um leið er það í þágu lesandans, hvort sem hann les í hljóði eða upphátt.

Morgunblaðinu 13. maí 2007 56