Ég var í Hámunni í hádeginu um daginn. Það er veitingastaður á svokölluðu Háskólatorgi, nýlegri byggingu, þar sem er líka bókabúð stúdenta. Margt var um manninn. Stúlka nokkur ávarpaði mannsöfnuðinn og kvaðst vilja kynna, hverjir fengju viðurkenningu fyrir hjólreiðar. Þetta endurtók hún á ensku. Síðan hóf hún kynninguna. Hún fór öll fram á ensku. Allir þessir viðurkenndu hjólreiðamenn báru íslenskt nafn, og námsstofnanir þeirra voru allar kynntar með íslensku nafni. Ég sat við lítið hringborð, þar sem voru 5-6 stúdentar, mér ókunnir. Þeir töluðu saman allan tímann (á íslensku), en veittu kynningunni enga athygli. Ég kem þarna stundum, og það er sjaldan, að ég heyri talað erlent mál við borð, sem ég geng framhjá.

Það hefur átt að vera tillitssemi við erlenda stúdenta að kynna hjólreiðarnar á ensku. Það hlýtur að vera óþægilegt að vera útlendingur í algjörum minnihluta og vera tekinn þannig fram yfir fjöldann. Það væri eðlileg tillitssemi í upphafi kynningar að biðja þá, sem sitja við borð hjá útlendingum, að gera þeim grein fyrir því, sem er á seyði. Það er reyndar eins víst í þetta sinn, að áhuginn hafi verið álíka mikill og hjá ungu sálfræðistúdentunum, sem ég sat hjá.

Þessi misskilda tillitssemi er til vandræða fyrir útlendinga, sem missa þannig tækifæri til að læra íslensku. Á vegum menntamálaráðuneytisins o.s.frv. er leiðbeint, hvernig á að tala við erlent fólk á vinnustöðum. Það á að gera verklega, nota íslensk orð um það verk, sem unnið er þá stundina. Í Háskólanum á Nauthól er viðskiptastúdentum kennd spænska þannig, að lesið er um viðskipti á spænsku. Þetta gengur hratt. Nemandinn veit nokkurn veginn, hvað er um að vera, og á því auðvelt með að skilja. Málfræðin kemur á eftir, ef hún kemur yfirleitt. Þannig lærðum við íslensku börn. Háskólinn ætti að setja erlenda stúdenta í upphafi í nám í því, sem brýnast er í umgengni í húsakynnum skólans, svo og frumhugtök í námsgreinum þeirra.

 

Annað mál

Þá vík ég að öðrum vettvangi, þar sem menn hirða ekki um að beita íslensku, enda þótt viðmælandi, sem reyndar er tölva, skilji hana. Það bar til í vor, að ég sendi starfsmanni Útvarpsins línu. Fyrst nýlega fékk ég svar. Það hefði dregist svona lengi, af því að skeytið hafði farið í ?Junkmail?, skrifaði Útvarpandinn, en ekki væri hirt um að líta í þá hirslu nema á mánaða fresti. Svarið var fullnægjandi, en ég lét þess getið, að ég sæi ekki þetta orð Junkmail á tölvunni minni, þar stæði ruslpóstur. Þá var mér svarað, að í Ríkisútvarpinu væru enskar skýringar við flest ef ekki öll forrit í tölvum. Gæti ekki málfarsráðunautur hjálpað upp á sakirnar? Baldur Sigurðsson, í kennaraskólanum, minnist á þau ósköp einu sinni enn í Sunnudagsmogga núna, að fæstir setja íslensk forrit í tölvu sína, þótt ókeypis séu. Hann hefur áður boðið aðstoð til þess.

Morgunblaðinu 21. október 2010 23