Fréttamenn nefna iðulega erlenda stjórnmálaflokka án þess að fylgja eigin nafngift þeirra. Þetta á að vera til skilningsauka, en er vandmeðfarið og oft misheppnað. Á Íslandi er Alþýðuflokkur (í dvala). Á Norðurlöndum og víðar eru flokkar, sem kenna sig við alþýðu. Þeir eru nánast aldrei nefndir svo í þýðingu fréttamanna, heldur gjarna kenndir við þjóðina. Áberandi eru fréttir af  Danska þjóðarflokknum. Hann er e.t.v. sá flokkur, sem á síst fylgi meðal þeirra, sem ekki kallast alþýða. Bein þýðing á heiti hans er Danski alþýðuflokkurinn. Í Danmörku er annar flokkur, sem kennir sig við alþýðu, Danski íhaldssami alþýðuflokkurinn, í fréttum helst nefndur Hægri flokkurinn. Þar í landi er flokkurinn Vinstri. Má vera, að hann sé hægra megin við þann flokk, sem fréttamenn kalla Hægri. Kristilegi alþýðuflokkurinn í Noregi er varla nokkru sinni nefndur svo í fréttum, heldur aðeins Kristilegi flokkurinn. Í Svíþjóð er Alþýðuflokkur, í fréttum oftast kallaður Frjálslyndi flokkurinn. Þegar hann var stofnaður var hann áreiðanlega flokkur alþýðufólks. Sænski alþýðuflokkurinn í Finnlandi er í fréttum helst kallaður Sænski frjálslyndi flokkurinn. Þá er kynningin á flokknum Sönnum finnum, að hann sé hægri flokkur. Hann hefur stefnuskrá eins og hver annar miðflokkur, en snýst gegn þátttöku finna í fjárhagsvanda Evrópusambandsins; varla fellur það mál að hægri-vinstri-ás stjórnmála. Viðleitni fréttamanna til að skýra eðli flokka með frjálslegri þýðingu á nafni þeirra kann að lýsa einhverju öðru en eðli flokkanna.

Morgunblaðinu 1. október 2012 25