Málið undir Velvakanda er oft markvisst. Þó geigaði fimmtudaginn 14. mars. Þá átti að fá menn af orðalaginu hér á landi og í Evrópu. Rökstuðningurinn var úr öðrum heimi. Íslenskar skipaútgerðir auglýsa áætlunarferðir til Evrópu. Flugferðir eru auglýstar til Evrópu. Þetta er gott mál, og því líkt þekkist víðar.
Slíkt orðalag er víðar í málinu. Eitt sinn stóð ég fyrir utan kirkjuna á Skeiðflöt í Mýrdal og heyrði tal mýrdælinga. Maður lýsti atviki austur í Mýrdal, eins og hann sagði; samt vorum við í Mýrdal. Þar er sem sagt eitthvað meiri Mýrdalur en annað. Móðir mín sagði mér nýlega frá ferð sinni til Reykjavíkur frá Móum á Kjalarnesi, þegar hún var barn þar fyrir 90 árum. Hún gekk frá Móum út á Kjalarnes til að taka áætlunarbátinn. Þar var því eitthvað meira Kjalarnes en annað. Eins er með Evrópu. Frakkland, Ítalía og Sviss eru meira Evrópa en Ísland. Því getur vel átt við að segja, ef til vill til áréttingar, hér á landi og í Evrópu.
Morgunblaðinu 19. mars 2013