Um er að ræða þá hugmynd að Jón biskup Arason hafi látið íslenzka og prenta guöspjöllin.

Sigurður Jónsson prestur á Grenjaðarstað hóf á jóladag 1550 að rita skrá um eignir Hóladómkirkju og Hólastóls í föstu og lausu eftir föður sinn Jón biskup Arason frá fallinn. Þar segir: 1

Jtem j timburstofu. atta og .xx. latinubækur. Salltare med bokfelli. Gudzspiallabok med pappir j norænu. Nouvm testamentum a litille bok.

Á þessum tímum er mál landsmanna kallað norræna, eins og sést á titilblaði nýjatestamentis Odds Gottskálkssonar árið 1540, þar sem segir að ritið sé útlagt á norrænu, og á titilblaði Guðbrandsbiblíu árið 1584 segir að þar sé heilög ritning útlögö á norrænu.

Samkvæmt ævisögu Brynjólfs biskups Sveinssonar eftir Torfa prest Jónsson var Brynjólfur „kistulagður með hans N. T. Græco, Davíðs psaltara og Fjórum guðspjallamönnum, er biskup Jón gamli að Hólum lét útleggja og þrykkja, sem hans formáli útvísar, ef þar af finnst nokkurt exempiar."2 Torfi prestur var bróðursonur Brynjólfs, lengi handgenginn honum og erfði hann að miklu leyti.

Samkvæmt þessu voru kjörbækur Brynjólfs þrjú rit, og sams konar rit eru skráð saman í stofu Jóns Arasonar. Munurinn er sá að nýjatestamentið er á frummálinu hjá biskupi hinnar lútersku kirkju, en á latínu hjá biskupi páfakirkju, og á öðrum staðnum eru „Fjórir guðspjallamenn", á hinum „guðspjallabók". Enn þann dag í dag segja menn Lúkas, Markús, Mattheus og Jóhannes og eiga þá ekki við mennina, heldur guðspjöll þeirra.

Páll E. Ólason fjallar um þessi guðspjallarit þeirra biskupanna í ritfregn og þykir trúlegt að Brynjólfur hafi erft ritið, en Jón var langalangafi hans (Staðarhóls-Páll var dóttursonur Jóns og afi Brynjólfs) og minnir á að Brynjólfur hafi metið langalangafa sinn mikils.3 Ýmsum hefur þótt það merkilegt og jafnvel ótrúlegt að kaþólskur biskup hafi látið þýða og birta á þjóðtungu kjarna heilagrar ritningar, þar sem kirkja páfa hafi einskorðað sig við latneska gerð hennar. Páll fullyrðir að í öðrum löndum mótmælenda hafi víða verið til biblluþýðingar prentaðar í kaþólskum sið fyrir siðaskiptin. Nýbirt ritgerð Tryggva Þórhallssonar frá 1917 skýrir stöðu Jóns Arasonar frá árinu 1540, er Gissur tekur við embætti í Skálholti, til dauða Gissurar 1548.4 Tryggvi telur þá biskupana fljótlega hafa gert með sér samkomulag um að standa saman gegn konungi til varnar eignum og veldi kirkjunnar og að hlutast ekki til um kirkjuskipan í umdæmi hins. Hann greinir frá ferð þriggja fulltrúa Jóns Arasonar, þ. á m. Sigurðar sonar hans og Ísleifs tengdasonar, á fund danakonungs árið 1542 ásamt Gissuri biskupi, þar sem konungur (Kristján III) hafi sætzt á að láta Jón halda biskupsdæmi.5 Tryggva þykir liklegt að í samkomulaginu hafi verið gert ráð fyrir að lúterskur biskup tæki við af Jóni að honum gengnum og hafi áðurnefnd guðspjallaútgáfa Jóns verið í anda samkomulagsins, og því telur hann ritið yngra en nýjatestamenti Odds. Jón Arason hlaut einn kaþólskra biskupa í ríki danakonungs slík náðarár, og þakkar Tryggvi það atbeina Gissurar. Við þessar aðstæður var vitaskuld ekki ástæða til að biðja páfa leyfis til slíkrar útgáfu, en kann að hafa bótt henta að hafa upplagið ekki stórt.

Tryggvi skýrir það, að Jón Arason reis síðar til varnar kirkjuskipan sinni, svo, að samkomulagið hafi verið milli þeirra Gissurar persónulega og því ekki gilt að honum látnum 1548, en þá hafi Jóni getað sýnzt horfur á að sigur Þýzkalandskeisara á mótmælendum í Þýzkalandi árið áður leiddi til undanhalds mótmælenda í danaveldi, svo sem með þvi að keisari setti mág sinn Kristján II aftur í konungssæti þar.6

Halldór Hermannsson andmælir hugmynd Páls E. Ólasonar og fullyrðir að í skrá Sigurðar sé Fjögurra guðspjallamanna hvergi getið.7 Steingrímur Jónsson tekur þetta upp eftir Halldóri Í íslenskri þjóðnenningu og rengir Torfa enn frekar með því, að engin heimild sé til um leyfi páfa eða erkibiskups til slíkrar útgáfu. Aftur á móti megi „færa fyrir því nokkur rök að bókin í kistu Brynjólfs biskups hafi verið Historía pinunnar og upprisu drottins vors Jesú Christí útaf fjórum guðspjallamönnum eftir Johann Bugenhagen sem Oddur Gottskálksson (d. 1556) þýddi og prentuð var í Kaupmannahöfn 1558."8 Það getur þó ekki verið íslenzka guðspjallabókin í stofu Jóns biskups á jólum 1550! Og hvaða ástæður skyldi Brynjólfur hafa haft til að leggja að jöfnu á þennan hátt rit Bugenhagens og nýjatestamentið og saltara Daviðs?

Heimildir

Íslenzkt fornbréfasafn. Reykjavík 1915-1925.

Torfi Jónsson: Æfisaga Brynjólfs Sveinssonar biskups. Reykjavík 1915.

Páll Eggert Ólason: Halldór Hermannsson: Islandica IX. Skírnir 91, 199-213. Reykjavík 1917.

Tryggvi Þórhallsson: Gissur biskup Einarsson og siðaskiptin. Reykjavík 1989.

Halldór Hermannsson: Prentsmiðja Jóns Matthíassonar. Almanak Ólafs S. Thorgeirssonar 36, 21-37. Winnipeg 1930,

Steingrímur Jónsson: Prentaðar bækur. Íslensk þjóðmenning VI, 91-115. Reykjavík 1989.

 

Sögu 28 (1990) 176-8 


1 Islenzkt fornbréfasafn, 11. bindi, 853.

2 Torfi Jónsson, 53.

3 Páll Eggert Ólason: Halldór Hermannsson: Islandica IX.

4 Tryggvi Þórhallsson, aðallega VIII. kafli.

5 Tryggvi, 174-5.

6 Tryggví, 175-6.

7 Halldór Hermannsson: Prentsmiðja Jóns Matthíassonar, 29.

8 Steingrímur Jónsson, 93.