Strætóleiðir hér í Reykjavík heita nöfnum og tölum. Ég tek sem dæmi leið, sem heitir Sléttuvegur, þegar farið er úr Vesturbænun, en Eiðisgrandi, þegar farið er í hina áttina. Leiðin ber samt alltaf töluna 13. Vegagerðin gefur þjóðvegum tölur, eins og sjá má á vef hennar, en lítið fer fyrir þeim tölum á vegum úti, heldur notar Vegagerðin þar heiti, sem hún gefur þjóðvegunum. Heitin eru ekki alltaf lýsandi. Þannig sýndi Morgunblaðið um daginn myndir af vegabótum á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi. Þetta var nokkurn veginn á sama stað fyrir ofan Reykjavík, en hvorki á Suðurlandi né Vesturlandi. Lögreglan segir frá slysum með vegaheitum Vegagerðarinnar. Slys sögð á Biskupstungnabraut reynast oft vera í Grímsnesi, en á máli Vegagerðarinnar er Biskupstungnabraut frá Ingólfsfjalli á móts við Selfoss, og er þá langur vegur eftir í Biskupstungur um Ölfus og Grímsnes. Líkt er með fréttir af slysum, sem sögð eru hafa orðið á Vesturlandsvegi. Þau reynast oft vera á Kjalarnesi eða í Mosfellssveit, en hvorugt kallast í venjulegu tali á Vesturlandi.

Þá eru fréttir af vetrarfærð á vegum iðulega gegn hefðbundnu héraðsmáli. Ég tek sem dæmi, þegar Vegagerðin og Útvarpið lýsa færð á Vopnafjarðarheiði. Í ritinu Göngum og réttum er yfirlit yfir heiðar Vopnafjarðar. Þar eru nefndar Hellisheiði, Smjörvatnsheiði, Tunguheiði, Hauksstaðaheiði, Mælifellsheiði, Hróaldsstaðaheiði og Sandvíkurheiði, en engin er þar Vopnafjarðarheiðin. Frá sömu slóðum nefni ég fréttir um færð á Möðrudalsöræfum. Færð þar á ekki heima í almennum fréttum að vetrarlagi, þegar enginn óvitlaus maður hyggur á ferðir þar, heldur er um að ræða færð á þjóðvegi 1 um Biskupsháls og Jökuldalsheiði. Skylt því er, þegar  Vegagerðin lýsir færð á Mývatnsöræfum. Þá er um að ræða þjóðveg 1 milli Mývatns og brúar á Jökulsá á Fjöllum og hét á hefðbundnu máli á Austurfjöllum.

Nú væri ráð, að lögreglan tæki upp í slysafréttum sið frá Strætó í Reykjavík að nota tölu um þjóðveginn og svo heiti staðar og byggðarlags til frekari afmörkunar. Þá yrði slys á Kjalarnesi sagt slys á þjóðvegi 1 á Kjalarnesi, en ekki minnst á Vesturlandsveg, og slys fyrir ofan Lækjarbotna sagt slys á þjóðvegi 1 fyrir ofan Lækjarbotna, en ekki minnst á Suðurlandsveg. Frásagnir Vegagerðarinnar af færð fyrir norðan og austan yrðu t.d. af færð á þjóðvegi 1 fyrir austan Mývatn eða þjóðvegi 1 um Biskupsháls og Jökuldalsheiði eða þjóðvegi 85 til Vopnafjarðar, án þess að brengla hefðbundið heimamál og heiðamál.

Morgunblaðinu 21. október 2020